Afnám verðtryggingar? - nei, ekki með þessari ríkisstjórn

Ég ætla rétt að vona að viðskiptaráðherra takist ekki að hefta samningsfrelsið og afnemi verðtryggingu í bráð, amk ekki meðan núverandi ríkisstjórn er við völd, enda virðist hún engan áhuga hafa á að ná stjórn á efnahagsmálum. Meðan svo er, þarf lífeyrissjóðurinn minn að geta fjárfest í verðtryggðum pappírum, enda litlar líkur á að stöðugleiki náist í bráð. Að minnsta kosti virðist ríkisstjórnin ekkert gera til að hjálpa til í þeim efnum.

Nú liggja til samþykktar ein þau óábyrgustu og verst unnu fjárlög sem lengi hafa verið lögð fram. Mörg þau frumvörp sem fyrir liggja, eins og t.d. menntamálafrumvörpin, stjórnarráðsbandormurinn og fleiri hafa ekki verið kostnaðarmetin og framkvæmd þeirra með öllu óljós og eru ekki inni í fjárlögunum.

Á viðsjárverðum tímum er lagt af stað með útgjaldaaukningu af áður óþekktum stærðargráðum, sérstaklega þegar haft er í huga kosningar eru ekki í nánd að því að ég best veit. Hvernig ætli fjárlög kosningaárs verði, fyrst þessi eru svona?

Megnið af útgjaldaaukningunni er í samgöngumálum, til þess að eiga heimildirnar inni ef á þyrfti að halda, eins og stjórnin hefur sagt.

Það virðist því standa til að eiga inni slatta af heimildum til að flytja á milli verkefna og fjárlagaliða eftir duttlungum ráðherrana, eins og gert var í Grímseyjarferjumálinu. Ég er ekki löglærður en þessar millifærslur á milli fjárlagaliða virka á mig sem hreint lögbrot, í besta falli afar slakar reikningsskilahefðir. Alþingi, sem  hefur fjárveitingavaldið, veitir fé til ákveðinna verka og ráðherrar hafa ekkert með að hringla í því eftir á. Sömuleiðis er sú misbeiting sem viðgengist hefur á fjárlaukalögum af sama meiði runnin og því vítaverð.

Það er alveg ljóst að það verður aldrei hægt að standa við þau loforð sem gefin eru í samgöngupakka fjárlaganna, en samt er verið að gefa væntingar um innspýtingu ríkisins í fyrir þanið hagkerfið. Ríkisstjórnin er sem sagt vísvitandi að leggja af stað í sitt fyrsta fjárlagaár vitandi að hún mun svíkja gefin fyrirheit og virðist ekki ætla að gera neitt til að slá á væntingar og þar með þá þenslu sem er í hagkerfinu.

Betra væri að gera raunhæfa áætlun um samgönguframkvæmdir og stilla þeim í hóf, en geta annað hvort lækkað skatta, með afnámi stimpilgjalda eða hækkun persónuafsláttar, ef svo ólíklega vildi til að snúa þurfi hjólum hagkerfisins hraðar, eða með útgáfu ríkisskuldabréfa og sparnaðarhvetjandi aðgerðum ef peningamagn í umferð verður áfram eins mikið og raun ber vitni. Mætti hugsa sér mótframlag vegna húsnæðissparnaðar ungs fólks, endurupptöku skattaafsláttar vegna hlutabréfakaupa, mótframlag í séreignalífeyrissparnað og fleira.

Með þeim verkfærum gæti ríkisstjórnin hjálpað Seðlabankanum í sinni viðleitni og brugðist við aðstæðum hverju sinni. Í dag vinnur hún beinlínis á móti þeim markmiðum sem hún sjálf hefur sett. Meðan svo er er tómt mál að tala um aðgerðir til að afnema verðtryggingu. Ekki á minn lífeyrissjóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband