Þenslufjárlög samþykkt

Geir H Haarde og Björgvin G Sigurðsson halda því fram að nýsamþykkt fjárlög séu aðhaldssöm og stuðli að stöðugleika. Ég er ekki hagfræðimenntaður, eins og fjármálaráðherra og þar að auki ómenntaður í söng, en þennan fagurgala um fjárlög sem hækka ríkisútgjöld um 18% myndi ég kalla öfugmælavísu og það falskt sungna. Verðbólgan var færð handvirkt niður í vor með lækkun matarskattsins og ef tekið er tillit til þess er verðbólgan um og yfir 8%. Ætti ríkisstjórnin að hafa það í huga.

Geir segir strauma vera að snúast og í trausti þeirrar óskhyggju leyfir hann ráðherrum ríkisstjórnarinnar að standa í nammikistunni og moka til hægri og vinstri. Það er erfitt að sjá að húsnæðisverð sé að lækka, þótt hækkunin sé hugsanlega að hægja á sér, olíuverð á ekki eftir að lækka og miðað við launakröfur verkalýðshreyfingarinnar er ekki að sjá neina liði vísitölunnar haga sér eins og hann óskar sér. Það er auðvitað freistandi að standa í nammimokstri, enda tók núverandi ríkisstjórn við góðu búi, en eins og horfur eru, staðfestar af nýjustu verðbólgutölum, sem fjárlagavinnan tekur ekkert tillit til, er þetta algert ábyrgðarleysi og kemur verst niður á þeim sem skulda mest.

Það er einnig aumkunarvert að lesa hjá viðskiptaráðherra að ríkisstjórnin beiti aðhaldi og fresti framkvæmdum þegar hægt er að lesa svart á hvítu að fjárlögin geri ráð fyrir tugmilljarða aukningu í framkvæmdum í samgöngumálum. Það er eins og þeir hafi ekki lesið fjárlögin yfir áður en þau voru samþykkt, enda meira og minna ekki til staðar meðan umræðan um þau fór fram.

Það verður fróðlegt að sjá ráðherrana útskýra áframhaldandi verðbólgu í vor og ekki síður næsta haust, þegar næstu fjárlög verða tekin fyrir. Verst hvað lærdómurinn verður öllum almenningi dýr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband