Vegna fréttar Stöðvar 2 um birgðastöðina í Hvalfirði

Ég starfa sem umhverfis- og öryggisfulltrúi Olíudreifingar og vil nýta þennan vettvang til að koma eftirfarandi á framfæri vegna fréttar Stöðvar 2 í kvöld um olíubirgðastöðina í Hvalfirði:
  • Viðskiptaaðili  Olíudreifingar í þessu tiltekna máli er finnska ríkisolíufyrirtækið NESTE.  NESTE er virt félag sem hefur m.a. vottað gæðakerfi og hefur hlotið viðurkenningu fyrir sína umhverfis- og öryggisstefnu.  Fulltrúar NESTE komu hingað til lands oftar en einu sinni til að fylgjast með og taka út þá viðhaldsvinnu sem unnin var í birgðastöðinni Hvalfirði.  Öll framkvæmdin hlaut því viðurkenningu þeirra ásamt opinberra aðila.  NESTE hefur m.a. þá sérstöðu að reka eigin skip með finnskri áhöfn þar sem þeir vilja halda utan um öryggismálin alla leið. 
  • Skipið var aldrei í hættu við bindingu á þriðjudaginn og losun á miðvikudaginn var. Um þessar aðgerðir hefur félagið, í samvinnu við Siglingastofnun, sett stífar reglur um við hvaða veðuraðstæður taka megi skip í legufæri, hvenær megi hefja dælingu, hvenær henni skuli hætt vegna veðurs og hvenær eigi að leysa skip úr legufærum. Sömu reglur segja til um hversu marga dráttarbáta eigi að nota við þessar aðgerðir
  • Bryggjan sem um ræðir er ekki hrörleg og uppfyllir allar þær kröfur sem gerðar eru til hafnarmannvirkja. Stór olíuskip leggjast ekki að bryggjunni, heldur í legufærum utan við bryggjuna. Öryggismál og vöktun uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til hafnarverndar og hefur viðurkenningu Siglingastofnunar þar að lútandi. Stöðug vakt er á bryggjunni þegar skip er við bryggjuna eða í legufærum.
  • Olíubirgðastöðin hefur starfsleyfi frá Umhverfisstofnun til geymslu bensíns. Fyrir útgáfu þess voru allir þeir geymar sem notaðir eru til geymslu bensíns skannaðir og viðgerðir og eru í fullkomnu lagi.
  • Olíudreifing og forverar hafa rekið olíubirgðastöðina í Hvalfirði og tekið þangað fjölda skipa af ýmsum stærðum.   Til staðar er því mikil reynsla bæði hjá starfsmönnum félagsins sem og hjá þeim lóðsum sem Olíudreifing hefur notið þjónustu frá við móttöku og afgreiðslu skipa við þessar aðstæður.  Olíudreifing hyggst halda þessari starfsemi áfram enda er það meginverksvið félagsins að taka á móti, geyma og dreifa eldsneyti. 
  • Það er ekki á vitorði Olíudreifingar að Faxaflóahafnir hafi sent stjórnvöldum umkvörtun vegna starfsemi félagsins í Hvalfirði.  Rétt er að Faxaflóahafnir beindu því til yfirvalda að sett yrði lóðsskylda á skip sem sigldu um Hvalfjörð.  Sú ábending snerti Olíudreifingu ekkert þar sem að skip á vegum félagsins hafa alltaf notið þjónustu lóðs þegar um önnur skip en skip félagsins eiga  í hlut.  Lóðsskylda breytir því engu um vinnutilhögun Olíudreifingar við móttöku olíuskipa í Hvalfriði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband