Óskiljanleg stjórnsýsla í Hvalfjarðarsveit
21.12.2007 | 17:08
Mikið hefur verið fjallað um geymslu bensíns í olíubirgðastöð Olíudreifingar í Hvalfirði í fjölmiðlum undanfarið. Hefur sú umræða verið afar einhliða og ósanngjörn.
Er því rétt að eftirfarandi sé til haga haldið:
Olíudreifing sótti um framkvæmdaleyfi til Hvalfjarðarsveitar fyrir breytingum á olíustöðinni, þannig að hægt væri að geyma bensín í henni.
Í tengslum við þá umsókn voru lagðar fram teikningar og greinargerð um framkvæmdirnar og öll öryggismál og umhverfismál stöðvarinnar, þám vöktun stöðvarinnar og mengunarvarnarbúnaði, fyrirbyggjandi ráðstafanir og viðbrögð við óhöppum.
Framkvæmdaleyfi var afgreitt af skipulags- og byggingarnefnd Hvalfjarðarsveitar þann 26. september og var til umfjöllunar í sveitarstjórn 2. október. Þar var óskað eftir frekari upplýsingum um jarðvegsþrær stöðvarinnar. Þær voru veittar og var framkvæmdaleyfi afgreitt á ný úr skipulags- og byggingarnefnd 10. október 2007 og staðfest af sveitarstjórn þann 23. október sl.
Sveitarstjórn hefur ekki óskað eftir því við Olíudreifingu ehf að fá upplýsingar um viðbragðsáætlanir félagsins og Olíudreifing hefur ekki frumkvæðisskyldu þar að lútandi. Munu viðbragðsáætlanir verða kynntar sveitarfélaginu, óski það þess.
Olíudreifing sótti, lögum samkvæmt, um breytingu á gildandi starfsleyfi til Umhverfisstofnunnar þannig að það innifæli einnig bensín. Starfsleyfisdrögin voru auglýst og óskað eftir athugasemdum. Auk þess voru þau send til umsagnar hjá heilbrigðisnefnd og sveitarfélaginu, venju samkvæmt.
Heilbrigðisnefnd Vesturlands gerði ekki athugasemd við drögin.
Umhverfis- og náttúruverndarnefnd veitti Arnheiði Hjörleifsdóttur formanni nefndarinnar umboð til að skrifa umsögn um starfsleyfisdrögin og var sú umsögn samþykkt í sveitarstjórn þann 23. október sl. Umsögnin var hins vegar ekki kynnt Umhverfis- og náttúruverndarnefnd fyrr en 12. nóvember.
Umhverfisstofnun gaf út breytt starfsleyfi 7. desember og gerði sveitarstjórn um leið grein fyrir afgreiðslu stofnunarinnar á athugasemdum sveitarfélagsins og benti á rétt sveitarfélagsins til að óska frekari upplýsinga og rétt til að kæra ákvörðun Umhverfisstofnunnar til fullnaðarúrskurðar Umhverfisráðherra. Kærufrestur er nú liðinn og hefur Olíudreifing ekki vitneskju um að ákvörðunin hafi verið kærð. Ef rétt er, unir sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar því lögformlega ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfisins og afgreiðslu stofnunarinnar á athugasemdum sveitarstjórnar.
Er stöðin nú með starfsleyfi frá Umhverfisstofnun til geymslu bensíns, gasolíu og svartolíu og eru breytingar á stöðinni í samræmi við útgefið framkvæmdaleyfi sem staðfest er af sveitarstjórn.
Er því með öllu óskiljanlegt að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar álykti nú á móti framkvæmd sem hún samþykkti sjálf fyrir tæpum 2 mánuðum og búið er að leggja í mikinn kostnað við að koma í framkvæmd.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:38 | Facebook
Athugasemdir
Sveitarstjórnin er bundin af stjórnsýslulögum og á að haga sér samkvæmt því.
Gestur Guðjónsson, 21.12.2007 kl. 17:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.