Er gjaldmiðilsumræðan að færast á vitrænt plan?

Það er allrar athygli vert að lesa viðtöl við viðskiptaforkólfa þessa dagana. Telja þeir inngöngu í ESB ekki fýsilegan kost, en um leið telja þeir krónuna ekki á vetur setjandi. Ég merki þáttaskil í yfirlýsingum þeirra.

Þetta er afar líkt þeim málflutningi sem við Framsóknarmenn höfum haldið uppi undanfarin ár. Innan flokksins hefur verið rætt um kosti og galla, innan og utan ESB, upptöku evru eða annarra mynta. Umfram allt hefur verið ljóst að slíkar ákvarðanir eigi að taka í styrkleika okkar en ekki í flótta, uppgjöf og ákvarðanatökufælni, eins og maður hefur upplifað málflutning Samfylkingarinnar, en um leið verður að ræða málin af fullri eindrægni, öfugt á við íhaldið og VG.

Það væri mikil fórn sú fórn á fullveldinu sem innganga í ESB væri og afsal á mörgum möguleikum á alþjóðavettvangi og ef tilgangurinn væri sá einn að nýta stöðugleika myntkerfis ESB, Evrunnar, eru fleiri möguleikar en að taka hana upp. Tökum sem dæmi Dani, sem hafa bundið sína mynt við Evru, áður þýska Markið í áratugi og farnast vel með það fyrirkomulag. Ef okkur hentaði ekki það fyrirkomulag lengur eða vildum skipta um mynt hefðum við alla möguleika á að breyta því ef við kysum svo.

Hægt væri að "teika" svissneskan Franka, Dollar, Pund.

Það er á einhverjum svona nótum sem ég teldi farsælast að umræðan færi að þróast og vonandi marka þessi ummæli forkólfanna upphaf þeirrar umræðu á víðum grundvelli.

En umfram allt er ljóst að fyrst þarf að ná stöðugleika í efnahagsmálum, áður en menn geta leyft sér að hugsa til ákvarðanatöku sem þessarar. Því miður virðist núverandi ríkisstjórn ekki vera nægjanlega samlynd til að hún megni það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

en hversvegna að binda krónuna við erlenda mynt, eins og evru? hví ekki bara að taka upp erlenda mynt, eins og evru? hver er munurinn?

Brjánn Guðjónsson, 30.12.2007 kl. 11:31

2 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæll Gestur og gleðilega hátið!

Það er ævinlega gaman að verða var við einhverja sem hugsa raunsætt um gjaldmiðilsmál okkar. Í raun er það ekki gjaldmiðillinn sem er ekki í lagi; frekar mætti segja að þeir sem stjórna flæði fjármagns um lífæðar þjóðfélagsins séu ekki vandanum vaxnir.

Sem fyrrum hagdeildarmaður í banka, veit ég að ríkisstjórnin stýrir afar litlu í sambandi við flæði fjármagnsins. Sú stýring fer aðallega fram í lánastofnunum. Þetta er flókið og umfangsmikið mál sem ekki verður skýrt til hlýtar í stuttri athugasemd.

Ég er hins vegar sammála þér um að heppilegast, sem fyrsta skref till ábyrgrar efnahagsstjórnar, væri að tengja krónuna okkar við annan gjaldmiðil sem þekktur er fyrir stöðugleika. Samhliða þyrfti að setja skýrari löggjöf um skyldur lánastofnana til  að veita gjaldeyrisskapandi atvinnuvegum verulegan hluta útlánagetu sinnar.  Það mundi varanlega auka raunveruleg lífsgæði hér á landi.

Gleðilegt nýtt ár. 

Guðbjörn Jónsson, 30.12.2007 kl. 12:27

3 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Held að skynsamlegast í stöðinni væri að prófa
okkur áfram. Fljótandi gengi með eins litla mynt og krónan er hefur marga ókosti, sbr að geta
verið meir og minna háð erl.spákaupmönnum.
Hvers vegna ekki að byrja á því að binda hana við t.d danska krónu eða svinneskan franka með t.d 5% frávikum í + eða - ?  Sjá til hvernig slík (hálfgerð fastgengisstefna) farnast okkur áður en farið er að taka upp erlenda mynt. Því
eftir að erlend mynt er upptekin verður ekki frá
henni  snúið hversu illa hún samlagast okkar
efnahagsstærðum, sem vissulega eru gjörólíkar
þeim sem eru innan ESB. Þrátt fyrir ýmsa ókosti
við ísl.krónu er sá kostur ómetanlegur að við
getum alltaf tekið í taumanna með gengi hennar
ef alvarleg efnahagskreppa ríður yfir heiminn.
Það er ALLT hverfult undir sólunni, eins og við
höfum orðið vitni að nú að undanförnu á hinum
alþjóðlega peningamarkaði. Það er EKKERT
tryggt í heimi hér! Vitum þó hvað við höfum í
dag!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 30.12.2007 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband