Össur og Evrópusambandið

Í nýjasta næturpistli sínum reynir Össur að mála Framsókn sem stefnulausan flokk í Evrópumálum. Þetta er svo sem ágæt tilraun, en samt spaugilegt að það skuli vera Samfylkingarmaður sem farinn er að kalla aðra vindhana í pólitík. Maður hlýtur að spyrja sig hver sé með bjálkann og hver flísina í auganu?

Málið er að í þessum málum er ekki kominn tími ákvarðana. Til þess eru engar forsendur. Stefna Framsóknar er skýr. Koma þarf á jafnvægi í efnahagslífinu fyrst og þarf það jafnvægi að hafa staðið í nokkurn tíma áður en menn meta hvort sækja eigi um eður ei. Slíka ákvörðun á að taka í styrkleika með langtímahagsmuni í huga, en ekki sem flótta frá aðstæðum.

Menn geta haft sína trú á það hvar hagsmunir þjóðarinnar liggja þá og þegar aðstæður í efnahagslífinu eru með þeim hætti að spyrja eigi þeirrar spurningar, en það er svo margt sem getur gerst þangað til og eftir því sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn sofa lengur sínum Þyrnirósarsvefni í efnahagsstjórninni, því lengra verður þangað til að við getum tekið sólarhæðina í þessu sambandi.

Þess vegna má eiginlega segja að Samfylkingin sé ásamt íhaldinu það stjórnmálaafl sem á undanförnum árum hefur fært okkur hvað hraðast frá aðild að ESB, jafnvel þótt ESB-trúarbrögð þau sem iðkuð eru í Samfylkingunni hafi farið hátt og muni fara hátt. Maður hlýtur að spyrja sig hvort það sé ákvarðanatökufælni og minnimáttarkennd sem knýr þessi trúarbrögð svona sterkt áfram?

Það breytir samt ekki þeirri knýjandi spurningu um hvort peningamálastefnan sem framfylgt sé í dag sé sú rétta. Hvort fara eigi aftur í fastgengisstefnu og þá hvaða mynt ætti að tengjast og á hvaða gengi. Hvort halda eigi áfram fljótandi gengi, en hækka verðbólgumarkmiðið þannig að raunhæft sé að ná því, sem hefði óhjákvæmilega langþráða vaxtalækkun í för með sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála þér! En hvar standið þið ? Með Valgerði sem ykkar talkonu ( á tali með Valgerði) þá náið þið aldrei eyrum almennings. Nema þá þeirra sem enn biða eftir VIS aurum.

En við erum mörg sem hugsum okkur til hreyfings og gætum hugsað okkur Framsóknarhugmyndafræðina minn kæri. Hvar byrjar Jónas aftur að heyrast...Hjá Guðna, sem er æði, já en allir hinir sem gaspra í anda fyrrverandi forustu ? Nei þangað fer fólk aldrei!!!

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 17:41

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Nú er ég enginn áhugamaður um að koma Samfylkingunni til varnar, en ég minni á að núverandi efnahagsástand (sem er langt því frá að öllu leyti slæmt) er eldra en frá því sl. vor. Fyrir þann tíma var Framsóknarflokkurinn í ríkisstjórnum í 12 ár undir forystu Sjálfstæðisflokksins (fyrir utan ca. eitt og hálft ár).

Framsóknarmenn eru iðnir við að eigna sér helzt allt jákvætt sem gert var  í tíð ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, en þegar kemur að einhverju neikvæðu þá er látið eins og Framsókn hafi ekki komið nálægt landsstjórninni í háa herrans tíð.

Gæti þetta fáheyrða ábyrgðarleysi verið ein skýringin á því að Framsóknarflokkurinn hefur aldrei nokkurn tímann verið eins lítill og hann er í dag? Ég held það.

Hjörtur J. Guðmundsson, 5.2.2008 kl. 21:16

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Jónína, komdu fagnandi. Framsókn er full af góðu fólki sem gaman er að vinna með. Stefnan er góð og hugsjónir framsóknarmanna byggjast á manngæsku og réttsýni. Það er þess vegna sem ég er í Framsókn. Ekki af sérstakri löngun í að kynnast hnífasettum eða annari óáran sem hefur verið að hrjá okkur undanfarið.

Hjörtur: Mig misminnir verulega illa ef Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki látið þannig allan þann tíma sem hann var í samstarfi við Framsókn. Tökum fæðingarorlofið sem dæmi. Íhaldið barðist á móti því, en Páll Pétursson kom því í gegn og nú vill Þorgerður Katrín eigna Friðrik Sophussyni sem þá var fjármálaráðherra málið, þegar það sem rétt er að það var hann sem þurfti að gefa okkur málið eftir. SUS mótmælti hástöfum og þingmenn íhaldsins. Það er rétt að hinn mikli vöxtur og kraftur í efnahagslífinu er afrakstur verka síðustu ríkisstjórnar, en það þarf sterk bein til að þola góða tíma og það virðist núverandi ríkisstjórn ekki geta, heldur eys úr nammipokunum með 20% útgjaldaaukningu á fjárlögum, þannig að efnahagslífið er að fá illa í magann.

Gestur Guðjónsson, 5.2.2008 kl. 21:35

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ég held að þig misminni verulega illa. Gagnrýni mín hér að ofan snerist um að Framsókn viki sér undan ábyrgð með því að kannast ekkert við að bera neina ábyrgð á stöðunni í efnahagslífinu og láta eins og hún hafi einungis skapast eftir 12. maí sl. Mér er ekki kunnugt um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi neitað að kannast við ábyrgð á þróun efnahagsmála í tíð þeirra ríkisstjórna sem hann hefur veitt forystu eða setið í. Og þar er hugsanlega komin ein skýringin á því að Framsóknarflokkurinn er í útrýmingarhættu að því er virðist en staða Sjálfstæðisflokksins á meðal kjósenda er sterk.

Hjörtur J. Guðmundsson, 5.2.2008 kl. 23:05

5 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Ég veit ekki til þess að Framsókn kannist ekki við eigin verk, þám þá stöðu efnahagsmála sem við blasir. Það var einmitt þess vegna sem við lögðum áherslu á aðhald og ráðdeild í rekstri við umræðu um fjárlög þessa árs. Auðvitað hefði verið freistandi að krefjast útgjalda hingað og þangað, en það var ekki gert, heldur lögð áhersla á að rétta kúrsinn. Því miður var ekki hlustað á okkar orð, heldur var namminu útdeilt til hægri og vinstri.

Framsókn vill að sjálfsögðu ekki gangast við þeim króum sem hún á ekki, frekar en íhaldið, þ.e. óábyrga innkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn, sem setti ótrúlega stórar fjárhæðir í umferð í hagkerfinu, sem olli miklum þrýstingi sem Seðlabankinn hefur verið að bregðast við, nú einn síns liðs, því núverandi ríkisstjórn virðist engan þátt ætla að taka í þeirri baráttu. Hinum fyrirsjáanlega og forspáða þrýstingi vegna framkvæmdanna fyrir austan var að miklum hluta mætt með frestun framkvæmda sem nú eru kallaðar mótvægisaðgerðir, þegar þær eru settar aftur á dagskrá. Það voru óvinsælar, en ábyrgar aðgerðir, sem þurfti kjark til að fara í, eitthvað sem núverandi ríkisstjórn mætti temja sér.

Gestur Guðjónsson, 5.2.2008 kl. 23:17

6 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Strax síðasta sumar og síðasta haust, vel áður en þingið kom saman og fjárlagafrumvarpið var lagt fram, voru forystumenn Framsóknarflokksins og aðrir þar á bæ farnir að rífast yfir því hástöfum að staðan í efnahagsmálunum væri afleit, bilið á milli hinna háu og lágu væri orðið svo mikið og ég veit ekki hvað. M.ö.o. var, aðeins stuttu eftir að framsóknarmenn voru komnir í stjórnarandstöðu, látið eins og Framsóknarflokkurinn hefði ekki verið í ríkisstjórn í fjölda ára og Samfylkingin hefði hins vegar verið það. Og ég ítreka að ég er ekkert spenntur fyrir því að verja Samfylkinguna með þessum hætti, ég er ekki mesti aðdáandi hennar eins og margir vita sjálfsagt, en rétt skal vera rétt.

Hjörtur J. Guðmundsson, 6.2.2008 kl. 13:11

7 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Ég hef amk ekki tekið þátt í þeim söng og hef ekki tekið eins vel eftir og þú. En það er full ástæða til þess að taka þétt um taumana og það var ljóst strax eftir kosningar og fyrir þær líka.

Gestur Guðjónsson, 6.2.2008 kl. 13:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband