Þjófnaður frá þeim sem minna mega sín

Ég er sáttur við að borga skatt til að tryggja almenna velferð samfélaginu. Í því felst meðal annars jöfn tækifæri til menntunar, heilsugæslu og annarar þjónustu sem greidd hefur verið úr sameiginlegum sjóðum í gegnum ríki og sveitarfélög. Sömuleiðis félagsþjónusta, stuðningur og framfærslutrygging fyrir þá sem hallast standa. Það geri ég í trausti þess að vel sé farið með peningana.

Þess vegna svíður mér rosalega að sjá mínar skatttekjur fara til þeirra sem misnota kerfið með því að falsa hjúskaparstöðu sína og gerast með því hreinir og klárir þjófar. Það lítilmannlegasta við þann þjófnað er að það er verið að stela af þeim sem verst standa í samfélaginu, þeim sem virkilega þurfa á aðstoð að halda.

Allir þekkja örugglega fjölda dæma um fólk, þar sem móðirin er skráð einstæð móðir en heimilisfaðirinn er skráður annarsstaðar. Allar bætur hækka, leikskólagjöld lækka og komist er framhjá biðröðum í kerfinu. Þessi svik geta numið hundruðum þúsunda og milljónum á ári, ef börnin eru mörg. Virðist fólk gera þetta jafnvel þótt afkoma þess virðist bara bærileg, bílarnir fínir og einbýlishúsin stór og endurnýjuð reglulega. Við þessu verður að bregðast.

Ég bar þetta upp við Árna Magnússon, sem þá var félagsmálaráðherra. Sveið honum þetta alveg eins og mér og sagðist ætla að skoða leiðir til að sporna við þessu. Seinna, þegar Jón Kristjánsson var orðinn ráðherra, bar ég málið undir aðstoðarmann hans og sögðust þau vera að skoða leiðir, t.d. að hægt yrði að tilkynna þjófnaðinn nafnlaust eins og hægt er hjá skattinum, en þar sem málið féll þá undir tvö ráðuneyti og fara þyrfti vandlega yfir alla lögfræði í málinu, gekk það hægt, jafnvel þótt fullur vilji væri til staðar á báðum stöðum.

Nú er búið að sameina þá málaflokka sem þetta snýst helst um í eitt félags- og tryggingamálaráðuneyti, svo það ætti að vera hægari heimatökin fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að taka á þessu máli og stýra því örugglega í höfn. Ég vona svo sannarlega að hún geri það, svo þeir peningar sem ætlaðir eru í velferð fari í ríkari mæli til þeirra sem þurfa á henni að halda og hægt sé að gera betur við það fólk. Ekki veitir af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Jurgen. Þú ert akkurat í kjarna málsins. Aðstoðin á ekki að miðast við hjúskaparstöðu fólks heldur aðstöðu þess, innkomu og útgjöld. Raunverulega einstætt foreldri í góðri vinnu. Á samfélagið að veita því fyrirgreiðslu umfram tekjulágt sambýlisfólk?

Hins vegar hafa einstæðir foreldrar oft minni möguleika á að afla sér eins mikilla tekna og barnlaust fólk og sambýlingar. Koma atriði eins og dagvistun inn í það og eins hafa einstæðir foreldrar ekki haft möguleika á að afla sér menntunar vegna aðstöðu sinnar. En það á að vera á grundvelli þess, þeas afkomunnar, ekki hjúskaparstöðunnar sem veita á þeim fyrirgreiðslu.

Gestur Guðjónsson, 15.3.2008 kl. 16:11

2 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæll Gestur, góður pistill hjá þér. Get tekið undir bæði hjá þér Jurgen.  Ég tel að einkavæða eigi félagsþjónustuna á Íslandi.  Hvers vegna segi ég það?  Jú ég legg það til ,því ég tel að Velferðarkerfið í Reykjavík sé orðir allt of þungt í vöfum og of dýrt.  Þar er hver silkihúfan ofan á annarri, endalausir fundir og útkoman lítil. Við megum ekki gleyma tilgangi velferðarþjónustunnar.  Hún er fyrir þá sem minna mega sín.  Ég tel að einkavæðing á þessu sviði gæti gert mun betri hluti en nú er gert. Tala af reynslu, hef starfað í þágu þeirra fjölmörgu sem minna mega í alla miðvikudaga s.l. 11 ár.  Gestur þú ættir að kíkja til okkar næsta miðvikudag í Fjölskylduhjálp Íslands þegar páskaúthlutun fer fram. Vertu hjartanlega velkominn.

kkv.

Ásgerður Jóna Flosadóttir

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 15.3.2008 kl. 18:57

3 identicon

Mikið er ég sammála þér Gestur.Ég þekki sjálfur dæmi þess að fólk er að leika þennan ljóta leik.Siðblindan er jafnvel svo svæsin að fólk er að stæra sig að því í margmenni hvað það sé nú snjallt að svindla á kerfinu með þessum hætti. Það væri því ekki úr vegi að okkur sem svíður þessi þjófnaður gætum kært viðkomandi nafnlaust.Ég svæfi allavega betur á nóttunni ef að ég vissi að ekki væri fólk sem væri í því að stela af skatttekjum mínum, sem ætlaðar voru þeim sem minna mega sín. 

Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 23:48

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Það er ljótt að svindla. En vandamálið byrjar ekki þarna heldur á Alþingi og í ríkisstjórn. Þar er hópur manna og kvenna að maka krókinn fyrir sjálfa sig með feitum launum, eftirlaunum og láta síðan þjóðarbúið greiða fyrir sig kosningarnar. Í þessari þægilegu innivinnu dunda þau síðan við að stela og ráðstafa eignum ríkisins til vina og velunnara...

...og svo spyrjið þið: Af hverju svindla litli kallinn og litla konan? Telja þau sig ekki bara vera að stela frá þeim sem stela enn meiru?

Haukur Nikulásson, 16.3.2008 kl. 15:01

5 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Ég tek undir með þér Haukur að eftirlaun Alþingismanna eigi að vera eins og hjá öðrum. Maður getur ekki séð annað en að þeir komist bara ágætlega af og í önnur störf eftir að þingmennsku líkur.

Breytingin á fjármálum stjórnmálaflokkanna, vil ég segja að sé ein af bestu lýðræðisbreytingum sem orðið hafa undanfarna áratugi. Fyrirtækin hafa misst sín áhrif á flokkana og það hlýtur að hafa óbeint áhrif á stefnumótun þeirra og afstöðu. Ljótt að segja en það er staðan í öllum flokkum.

Það er alltaf ljótt að svindla, hvort þingmenn fari rétt með það umboð sem við gefum þeim, skiptir ekki máli í því sambandi. Ég vill ekki að fólk steli frá þeim sem síst skyldi, þeim sem eiga að fá hjálp frá samfélaginu

Gestur Guðjónsson, 17.3.2008 kl. 00:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband