Er Helgi Hjörvar enn í stjórnarandstöðu?

Helgi Hjörvar átti magnaðan sprett á Alþingi í umræðum um samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum í dag þar sem þingmenn Framsóknar voru að spyrjast fyrir um hvort hún ætlaði að óska eftir framlengingu íslenska ákvæðisins svokallaða, þannig að við getum áfram haldið að leita leiða til að flytja endurnýjanlega orku út í formi orkufrekrar þjónustu eða vöru.

Það er siðferðileg skylda okkar að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar til að ekki þurfi að afla hennar með mengandi hætti annars staðar á jörðinni, því sú þjónusta og vara sem framleidd yrði hér á landi, er þegar á heildina er litið til þess að draga úr heildarlosun á heimsvísu. Það eru ámátleg rök að það framlag okkar skipti litlu máli. Ef hlusta ætti á þá heimóttarlegu (NIMBY) röksemd ættum við á sama hátt ekki að gera neitt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í okkar daglega atferli. Það skiptir hvort eð er engu máli. Slíkt tekur náttúrulega ekki nokkru tali.

Öll orkufrek starfsemi, hvort heldur er netþjónabú, álver, kísilflöguvinnsla eða álþynnuverksmiðja hefur í för með sér mengun og losun gróðurhúsalofttegunda, mismikla þó, en ljóst er að ef ætlunin er að laða til okkar orkufreka starfsemi þarf til þess losunarkvóta.

Ísland þarf aukinn losunarkvóta til að geta sparað losun á heimsvísu. Það virðist ofviða skilningi Helga Hjörvar og einnig virðist ofviða skilningi Helga Hjörvar að vinna í stóriðju er síður en svo einhæf, í það minnsta í samanburði við rekstur netþjónabúa, sem hann mærir svo mjög.

Það er rétt að halda því til haga að það eina sem komið hefur frá ríkisstjórninni í átt til undanþága er vegna flugs. Flugs sem brennir jarðefnaeldsneyti. Rétt er að benda á að flugið til og frá landinu, undirstaða ferðamannaiðnaðarins, losar svipað magn gróðurhúsalofttegunda og öll stjóriðjan á Íslandi.

En um áherslur á að ná í auknar losunarheimildir til handa orkufrekum iðnaði, sem annars staðsetti sig á þeim stöðum í heiminum sem ekki lúta takmörkun á losun, virðast ríkisstjórnarflokkarnir ekki hafa náð samkomulagi um. Í það minnsta ef marka má umræðu dagsins.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu nefnilega allt öðrum rómi. Þeir skilja mikilvægi ákvæðisins, en þurfa að búa við ummæli eins og Helgi viðhafði á sumarþinginu, þar sem hann sagði:

"Ég held að það sé málefnalegt samkomulag Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að fara einfaldlega yfir þessi mál, kortleggja náttúru landsins og taka ákvörðun um það hvað við ætlum að varðveita um alla framtíð og hvað við ætlum að nýta og reyna að ná um það sem víðtækastri sátt. Ég held að allir umhverfisverndarsinnar í landinu hljóti að fagna því að stærsti meiri hluti sem setið hefur hér í þessu þingi skuli hafa náð samstöðu og samkomulagi um þessa gerbreyttu stjórnarstefnu að þessu leyti."

Þetta þurfa Sjálfstæðismenn að staðfesta eða hafna. Ég hef ekki orðið var við mikla gerbreytingu á stjórnarstefnu hingað til, svo þeir hljóta að hafna þessari túlkun Helga. Rammaáætluninni sem til stóð að fara í hefur verið flýtt um eitt ár, en sá tímarammi er að mínu mati óraunsær. Annað í gerðum ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum og iðnaðarmálum virðist sem betur fer vera áfram með þeim skynsama og raunsæja hætti sem Framsókn lagði til fyrir kosningar, en var refsað fyrir, meðal annars vegna innihaldslausra gylliboða og orðagljáfurs eins og Fagra Íslands.

Össur Skarphéðinsson og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar hafa talað ákaft fyrir áframhaldandi uppbyggingu orkufreks iðnaðar á landinu og hljóta því einnig að vera talsmenn aukinna losunarheimilda, þannig að Helgi Hjörvar virðist vera í stjórnarandstöðu ásamt félögum sínum í græna neti Samfylkingarinnar, sem firrist við samábyrgð í loftslagsmálum í heimóttarskap sínum.

Helgi kom heldur ekki á óvart þegar hann lét sem fyrsti ræðumaður á eftir Samúeli Erni Erlingssyni alveg eiga sig að óska honum til hamingju með jómfrúarræðu sína á Alþingi. Slíka sjálfsagða kurteisi virðist hann ekki temja sér. Hafi hann skömm fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband