Samgönguráðherra í þröngri stöðu
11.4.2008 | 12:18
Kristján L Möller stóð sig vel í Kastljósinu í gær. Hann skilur betur en margir í hans flokki hvað það er að vera ráðherra.
Því fylgir nefnilega ábyrgð. Ábyrgð sem getur verið sárt að axla, en hann stendur sig mun betur en margir samráðherrar hans í því að axla hana. Kristján þarf hugsanlega á seinni stigum að ákveða veglínu Sundabrautar og auðvitað á hann ekki að gera sig vanhæfan til að taka þá ákvörðun, eins og Björn Bjarnason gerði t.d. þegar hann mælti með Þorsteini Davíðssyni f.v. aðstoðarmanni sínum í embætti héraðsdómara.
Þetta verða fjölmiðlamenn og aðrir að skilja og virða.
Hann getur aftur á móti ýtt á um að ferlinu öllu verði hraðað eins og kostur er, en um val á veglínu getur hann ekki tjáð sig strax.
Sama er með þessa ömurlegu stöðu sem er uppi á Reykjanesbrautinni. Hann er bundinn af lögum um opinber innkaup og fer eftir þeim. Það er leiðinleg staða að standa í sem ráðherra, en hann hefur manndóm í sér að fara að lögum.
Það er ekki Kristjáni að kenna að lögin eru svona. Í flestum tilfellum er líka afar gott að lögin séu eins og þau eru, enda sett til að koma í veg fyrir spillingu og sóun á almannafé, en í undantekningartilfellum þarf að vera heimilt að grípa til sérstakra ráðstafanna.
Hver þau tilfelli eru, þarf greinilega að skýra betur og ég sé ekki betur en að ráðherra sé að taka rétt á því máli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gestur.
Það Á ekki að taka tæpt ár að hefja framkvæmdir á vegum hins opinbera að nýju þegar verktaki segir sig frá verki sem lagalega hefur verið ákveðið að framkvæma.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 12.4.2008 kl. 02:20
Ég er að mörgu leiti sammála þér að Kristján stóð sig vel í Kastljósinu. Á sama hátt fannst mér Sigmar aðeins setja niður. Auðvitað á ráðherrann ekki að gera sig vanhæfan með ótímabærum yfirlýsingum.
Hitt er annað að Kristján átti erfitt með að skýra hvað hefði breyst frá því hann skrifaði greinina um okur ríkisins á eldsneytinu hérna um árið. Það að meiri peningum er varið í vegamál dettur um sjálft sig þegar maður skoðar í hvað þeim er varið. Þó Héðinsfjarðargöng séu góðara gjalda verð eru þau samt of dýru verði keypt. Það er margt annað sem hefði átt að vera á undan í forgangsröðinni.
Aðalatriðið er að greinin um árið var skrifuð af óábyrgð af stjórnarandstæðingi í atkvæðaleit. Nú þegar hann þarf að vera ábyrgur sér hann sennilega eftir að hafa skrifað þetta um árið.
Landfari, 12.4.2008 kl. 08:09
Guðrún: Það er rétt að tæpt ár er allt of langur tími. Það hlýtur að vera spurning um að kalla eftir upplýsingum um í hvað þessi tími fór. Ef það á sér eðlilegar skýringar þarf að fara í kerfið til að sjá hvað sé hægt að gera. Aðallega að skýra hvaða aðstæður séu neyðaraðstæður.
Landfari. Rétt.
Gestur Guðjónsson, 12.4.2008 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.