Loftslagsmál og sannleikurinn

Al Gore og fleiri þeir sem vara við afleiðingum gróðurhúsaáhrifanna hafa gerst sekir um að fara frjálslega með í sínum málflutningi.

Það er slæmt, því það er engin þörf á því að vera að mála ástandið svartara en það er. Það er nefnilega alveg nógu svart. Hversu svart það er og hversu öruggt það sé að það sé það svart er á reiki, eðli málsins samkvæmt, enda um flókið samspil margra þátta sem hver um sig er undirorpinn óvissu.

Það hafa þeir sem segja að ekkert þurfi að gera nýtt sér, sem eru margir hverjir í stríði til að verja eigin hagsmuni. Þeir grípa hverja staðleysu og ýkju og blása hana upp og telja það rök fyrir því að allt sé þetta bábilja og vitleysa.

Í stríði er það sannleikurinn sem tapar fyrst. Það á við hér eins og annarsstaðar.

Þessi umræða, eins og ESB umræðan og margar fleiri flóknari umræður verða auðveldlega fórnarlömb skotgrafarumræðu, þar sem fyrirsagnaryfirlýsingar sem eiga greiða leið inn í fjölmiðla eru aðalvopnið. Mogginn og Spegillinn hafa reynt að halda úti umræðu um málið, en alltaf virðist umræðan fara í sama farið. Afar lítið rými er gefið hér sem og erlendis fyrir dýpri umræðu á almennum vettvangi um loftslagsmál og afleiðingar þeirra aðgerða sem grunnhyggnir stjórnmálamenn eins og George Bush hafa farið í, með þessari fáránlegu etanolvæðingu sinni, sem er í besta falli CO2-neutral en hefur snarhækkað matvælaverð á heimsmarkaði.

Sem betur fer er verið að hefja tilraunaframleiðslu á eldsneyti með þörungum, sem er mikið mun skynsamlegri aðferð og hægt að stunda víða um heim, án þess að taka rými frá matvælaframleiðslu, og bestu staðirnir fyrir þá framleiðslu eru einmitt núverandi olíuríki, þannig að hætta á stórkostlegum hagsmunaárekstrum ætti að vera minni en ella. Því miður heyrir maður að einkaleyfi séu mjög útbreidd í þessari þróun, svo almenn framleiðsla með þörungum gæti tafist vegna kostnaðar við einkaleyfisgjöld, en fljótandi eldsneyti verður framleitt með þörungum í framtíðinni. Ég spái því.

Við höfum ekki tíma fyrir grunnhyggna fyrirsagnaumræðu. Það þarf að fara í aðgerðir á heimsvísu til að stemma stigu við hækkandi hitastigi og þar megum við ekki skorast undan, ekki í okkar daglega lífi og heldur ekki í nýtingu orkuauðlinda okkar. Niðurdæling koltvísýrings sem verið er að rannsaka er svo eitthvað sem miklar vonir eru bundnar við til lengri tíma, sem og endurheimt gróðurlendis, en það leysir okkur alls ekki undan okkar ábyrgð á öðrum sviðum. Það þarf að berjast á öllum vígstöðvum.

Til að ná árangri þarf sýn, klár markmið og skilgreindar leiðir til að ná þeim, ásamt kjark og samstöðu til að fara þá leið sem vörðuð er. Meðan ríkisstjórnarflokkarnir tala algerlega í austur og vestur er því miður litlar líkur á að við náum miklum árangri. Líkurnar á að við fáum rými til að nýta orkuauðlindir okkar í þágu heimsbyggðarinnar minnka eftir því sem tíminn líður og ekkert er verið að gera í að tala fyrir því sjónarmiði okkar sem þó var tekið tillit til síðast og ætti því að vera auðveldara í þetta skiptið. En nei, stjórnarandstöðuhluti Samfylkingarinnar vill ekki nýta auðlindirnar og svo virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórnarhluti Samfylkingarinnar ætli að láta það yfir sig ganga.

Það er ábyrgðarhluti...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband