Einkarekstur, einkaframkvæmd, einkavæðing og rassvasakapítalismi

Ég býst við að þessi einkahugtök verði mikið í umræðunni á næstunni. Þau hafa verið notuð og misnotuð mikið undanfarið en gagnvart opinberum rekstri eiga þau öll við í einhverjum tilfellum. Þegar þau henta. Það er þegar samkeppni er tryggð og þegar fjármögnun er ekki mikil.

Í öðrum tilfellum henta þau ekki.

Einkavæðing ríkisfyrirtækja sem eru í samkeppnisrekstri er bráðgóð og hefur leyst mikinn kraft úr læðingi og aukið verðmætasköpun gífurlega, sbr bankana. Alveg eins góð og hún er er hún slæm þegar hún á ekki við og einhverjum einkaaðilum er færð einokunaraðstaða eða gæði sem einungis væri möguleg að komast í nema í krafti almannahagsmuna. Það er rassvasakapítalismi, sem ber að forðast og hefur tekist nokkuð vel að greina þar á milli hingað til. Eru orkufyrirtækin dæmi um fyrirtæki sem ekki á að einkavæða af þeim sökum.

Sama á við um einkarekstur. Ef hægt er að koma á virkri samkeppni um framkvæmd opinbers reksturs, sem einkaaðilar geta eðli málsins samkvæmt alveg eins framkvæmt er um að gera að skoða kosti þess. Á sama hátt er tóm vitleysa að færa rekstur til einkaaðila ef ekki er hægt að framkvæma raunveruleg samkeppnisútboð. Þá verður verðmyndunin óeðlileg og hætt er við að verðin verði ekki hagstæð fyrir kaupanda þjónustunnar. Einkaaðilinn græðir þar með á aðstöðu sinni. Það er rassvasakapítalismi, sem ber sífellt að vera á verði gagnvart. Eru þjónustufyrirtæki á heilbrigðissviði og sérfræðiþjónusta ýmiskonar mér ofarlega í huga þar.

En hættulegasta sviðið af þessum einkasviðum er einkaframkvæmdin. Þar getur rassvasakapítalisminn fengið öllu ráðið ef ekki er farið að með gát og skekkt alla ákvarðanatöku. Það ríkir rassvasakapítalismi stjórnmálanna, hættulegasti rassvasakapítalismi af þeim öllum, þar sem stórum fjárhæðum er skóflað af efnahagsreikningi dagsins í dag yfir á rekstrarreikning komandi kjörtímabila eða farið í fjárfestingar sem borgaðar verða seinna, löngu eftir að umboð þess sem ákvörðunina tók er runnið út.

Það er freistandi fyrir stjórnmálamenn sem hafa ekki getað aflað stuðnings til fjárfestinga að flýta framkvæmdum með því að setja þau í einkaframkvæmd. Á þann hátt er hægt að láta framkvæmdir hefjast á kjörtímabili viðkomandi og hægt að innheimta atkvæði fyrir í framhaldinu.

En á endanum er það alltaf almenningur sem borgar, í formi skatta eða gjalda. Þá skattheimtu hafa stjórnmálamenn framtíðarinnar ekkert um að segja. Þeir eru bundnir í gömlum atkvæðum, sem verður að teljast vafasamt gagnvart lýðræðinu og heftir möguleika á að bregðast við breytilegum þörfum samfélagsins. Einkaframkvæmd getur alveg átt við í einhverjum tilfellum, en í fjárfestingaþungum verkefnum á hún ekki við og er alls ekki réttlætanleg.

Það er vegna þess að opinberir aðilar hafa aðgengi að mun betri lánakjörum en einkaaðilar og hið opinbera gerir ekki sömu kröfu um arðsemi eigin fjár. Það er á engan hátt réttlætanlegt að almenningur eigi að borga þann kostnaðarauka sem í vaxtamuninum felst, bara vegna stundarhagsmuna stjórnmálamannsins eða pólitískrar ofsatrúar hans. Í þeim tilfellum þar sem reksturinn er stærsti hluti útgjaldanna getur dæmið hins vegar snúist við, en af einhverjum ástæðum virðist engin umræða vera um einkaframkvæmd í þeim tilfellum. Bara þegar fjármagnseigendur sjá möguleika á að koma peningunum sínum í örugga vinnu.

Tökum sem dæmi samgöngumannvirki eins og Suðurlandsveginn nýja. Þetta framkvæmd upp á 7-8 milljarða þegar hann er kominn alla leið. Hvert prósent í mun í lánakjörum eru 70-80 milljónir á ári. Milljónir sem væri hægt að nýta í annað, ár eftir ár. Bara ekki á yfirstandandi kjörtímabili viðkomandi ráðherra.

Í öllum þessum einkadæmum þarf að stíga varlega til jarðar og láta ekki glepjast af stundarhagsmunum. Þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn stundað mikið trúboð, hvattur áfram af flokksmönnum sínum í viðkomandi geirum, með vísun í hin og þessi dæmi, sem sum eiga við en önnur ekki, sbr Spöl sem er ekkert annað en opinbert fyrirtæki. Því miður eru sterkar vísbendingar um að Samfylkingin muni ekki standa nægjanlega góðan vörð gagnvart þessari rassvasakapítalismavæðingu, ef marka má yfirlýsingar feginna íhaldsráðherra sem segjast nú geta gert hluti sem þeir höfðu aldrei getað gert með Framsókn í ríkisstjórn. Sér og sínum til stundargróða og hagsbóta, en til kostnaðarauka fyrir allan almenning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Humm Gestur, varla er Framsóknarflokkurinn alsakaus engill í slíku eða hvað ?

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 16.4.2008 kl. 02:35

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Þótt svo væri, breytir það ekki minni skoðun á málinu.

Gestur Guðjónsson, 16.4.2008 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband