Tímamótagrein Jóns Sigurðssonar um ESB

Það er ekki bara að Jón Sigurðsson sé fyrrverandi formaður Framsóknar, hann er líka fyrrverandi Seðlabankastjóri. Hann leiddi einnig Evrópunefnd Framsóknar, nefnd sem greindi málin afar djúpt og skilaði af sér skynsamlegum tillögum sem okkur ber að líta til. Þessi grein markar í mínum huga tímamót. Það er ekki lengur hægt að bíða og sjá til. Jón færir sterk rök fyrir því að ESB-Grýlan sé ekki eins ljót og hún virðist við fyrstu sýn.

Ég hef verið afar tvístígandi í minni afstöðu, eins og ég held að meirihluti þjóðarinnar sé. Finnst ég ekki hafa forsendur til að taka afstöðu, langar ekki beint inn í ESB, en tel samt að hagsmunir þjóðarinnar þurfi að fá að ráða umfram tilfinningar. Það er líklegast munurinn á minni kynslóð og þeim sem upplifðu 1944. Það er alveg ljóst að það þarf að skera á þennan hnút og taka afstöðu.

Þess vegna er ég fylgjandi tillögu Magnúsar Stefánssonar, að raunhæf samningsmarkmið verði mótuð í samvinnu allra aðila og í framhaldinu yrði ákvörðun um hvort sækja eigi um á grundvelli þeirra samningsmarkmiða lögð fyrir þjóðina í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Með því vinnst margt:

Umboð til aðildarviðræðna yrði mjög skýrt. Bæði til handa þeim sem færu í viðræðurnar, sem ættu þá að fá frið til að vinna sína vinnu, en ekki síður skýr skilaboð tið ESB um hvað við ætlum okkur. Samningsstaða okkar yrði því sterkari en ella.

Ef tillagan yrði felld, yrði hugsanleg ESB umsókn ekki viðfangsefni íslenskra stjórnmála um einhvern tíma, áratug eða svo.

Almenningur gæti undirbúið sig fyrir sjálfa ákvörðunina um inngöngu. Fræðsla til almennings verður stóraukin í tengslum við þá kosningabaráttu sem færi í gang. Stjórnmálaflokkarnir eru ekki rétti vettvangurinn fyrir þessa umræðu. Til þess eru of skiptar skoðanir innan þeirra. Eðlilegt væri að ríkið styrkti Heimssýn og Evrópusamtökin og önnur slík samtök til að standa að kynningu, en einnig yrði sendiherra ESB gagnvart Íslandi boðið að opna tímabundna ræðisskrifstofu, þar sem almenningur og samtök gæti aflað sér milliliðalausra upplýsinga.

Á meðan næst vonandi skikkur á efnahagsmálin hjá okkur sjálfum áður en að sjálfum aðildarviðræðunum kæmi. Það verður að nást, óháð umsókn.

Birti grein Jóns hér:

TÍMI UMSÓKNAR ER KOMINN 

FJÁRMÁLAATBURÐIR síðustu mánaða hafa haft mikil áhrif á umræður um Evrópumál og langflestir virðast telja að aðild Íslands að ESB sé óhjákvæmileg. Við erum nú þegar aukaaðilar að ESB með aðildinni að EES. Full aðild Íslands að ESB snertir fjögur svið sérstaklega: landbúnað, sjávarútveg og fiskveiðiauðlindina, peningamálastefnu og gjaldmiðilinn, og síðast en ekki síst fullveldi Íslands. Enginn skyldi halda að almenningur taki létt á þessum málum. Íslendingar gleyma ekki þorskastríðunum eða þjóðfrelsisbaráttu liðinna tíða.En hver er staðan á þessum fjórum sviðum ?Væntanlegar stefnuákvarðanir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar munu valda róttækum breytingum í landbúnaði á rúmum áratug. Þegar að þessu kemur verður aðild að ESB landbúnaðinum frekar til stuðnings heldur en hitt. En ekkert er gefið án fyrirhafnar í samningum.Álendingar hafa í aðildarsamningi Finna sérstakan rétt heima fyrir til að eiga og reka fyrirtæki og til að eiga fasteignir og lóðir. Sams konar ákvæði eru í samningi Maltverja. Þessu til viðbótar er sérstakt ,,Norðurslóðaákvæði“ í stjórnarskrárfrumvarpi ESB. Þessi atriði skipta máli.Forsendur sameiginlegrar fiskveiðistefnu ESB eiga ekki við á Íslandsmiðum. Nálægðarregla ESB og regla þess um stöðug hlutföll virða fiskveiðistjórnarkerfi hvers aðildarríkis. Viðurkennt er að útlendingar eiga ekki rétt til veiða á Íslandsmiðum. Trúlega stendur þó eftir að tillaga aðildarríkis um heildaraflamagn sé staðfest í ráðherraráði ESB. En Azoreyingar, Kanaríeyingar, Madeirabúar og fleiri hafa sérstök ákvæði í 299. grein aðalsamnings ESB sem tryggja þeim sérstöðu. Maltverjar hafa líka varanlegt sérákvæði. Þrátt fyrir þessi fordæmi verða sjávarútvegsmálin erfið viðfangs í samningum við ESB. Vandi Íslendinga á sviði gjaldeyris- og peningamála er augljós. Íslenska ríkið verður að verja  fjármálakerfið og aðstoða bankana – með eðlilegum skilyrðum. Hér er galopið lítið hagkerfi og flest leiðandi fyrirtæki eru þátttakendur í öðrum miklu stærri hagkerfum. Í hagkerfi okkar eru í raun þrír gjaldmiðlar: íslenska krónan, verðtryggð og gengistryggð reiknikróna og evra. Seðlabankinn hefur aðeins vald yfir íslensku krónunni og verður að forskrúfa hana til að getahaft áhrif á önnur viðskipti. Þetta gengur ekki nema á stuttu millibilsskeiði. ESB og evra virðast framtíðarvalkostur og aðrir möguleikar aðeins fræðilegir. En innganga að fullu inn í miklu stærri efnahagsheild er mjög vandasamt og flókið mál.Full aðild að ESB felur í sér nýja skilgreiningu fullveldis, þannig að þættir þess verða sameiginlegir. En hún er ekki einhliða takmörkun fullveldis. Í stjórnarskrárfrumvarpi ESB er ákvæði um  úrsagnarrétt aðildarríkis og þetta ákvæði er líka í endurskoðuðum tillögum innan ESB. Ákvæði um úrsagnarrétt eyðir vafa um stöðu fullveldisins.

Þetta verður að vera algerlega ljóst.

Úrslit í Evrópumálum verða aðeins ráðin við samningaborð og í þjóðaratkvæðagreiðslu. Íslendingar eiga ekki að bíða lengur með framtíðarákvarðanir um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Tími umsóknar er kominn."


mbl.is Tímabært að sækja um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiðar Lind Hansson

Heyr! Heyr!

Ég er sammála þessar afstöðu þinni Gestur. Mikilvægt er að Íslendingar nái að skilgreina vel sín samningsmarkmið og að þau verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Með því er vegvísir kominn, handa villtri og ráðalausri þjóð í efnahagsþrengingum, tala nú ekki um sofandi ríkisstjórnar. Síðan getur það komið í ljós, er þjóðin kýs um inngöngu, hvort meirihluti þjóðarinnar sé fyrir hendi.

Heiðar Lind Hansson, 29.4.2008 kl. 10:28

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ég hefði nú ekki að óreyndu búist við þessu úr penna Jóns.

Hinnsvegar má segja, að þegar harðnar á dalnum, eru þeir sem veikastir eru fyrir í trúnni á sjálfstæðisbaráttuna, fyrstir til, að lyppast niður og svigja undan.

ÞArna fer hann illa með nafn sitt.

Fullveldi er torsótt en auðvelt að glutra því niður.

Veifaskjattar eru ekki hátt skrifaðir á spjöld sögunnar.

Eins mun um þessa grein Jóns, að hennar verður minnst sem hjals úr barka húsbænda hans en ekki bjargfasta skoðun hans.

Vonandi mun Jón verða sæll, þegar laununum verður úthlutað í Vestrinu.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 29.4.2008 kl. 10:41

3 Smámynd: Sævar Helgason

Sjálfstæðisbaráttann ? 

Þegar Jón Sigurðsson , forseti var að berjast fyrir auknu frelsi fyrir þjóðina sem bjó hér norður í hafi, en hann sem góðborgari í Kaupmannahöfn- tók hann þá ekki algjört mið af þeim þjóðfélasumbótum sem voru að grassera í Evópu ? 

Franska byltingin leiddi af sér mikið umrót- það er kannski enn í gangi ?

Ekkert stendur kyrrt og þjóðfélög taka breytingum . Það sem þótti heppilegt fyrir okkur að stefna að á nítjándu öldinni , er tæpast vegvísir fyrir þjóðina núna. Þessi þjóð hefur alltaf verið hluti Evrópu og við fylgt öllum hennar straumum hvort sem er í trúmálum eða efnahagsmálum. 

Við erum nú þegar að flest öllu leyti í ESB - við tökum á móti flest öllu regluverkinu þaðan og gerum að okkar lögum.

En þar sem við höfum ekki gengið skrefið til fulls, njótum við ekki allra kostanna sem ESB veitir aðildaríkjunum og við erum ekki með tillögu eða seturétt á lögþingum þess.

Danir Svíar og Finnar hafa þar miklu meira að segja um okkar málefni en við sjálfir.  Innganga í Myntbandalagið er okkur nauðsyn.

Hjá andstæðingum aðildar okkar að ESB ,er núna beitt sama hræðsluáróðri og við aðildina að EES samningnum- þá áttu ríkir Evrópubúar að kaupa hér upp allar jarðir og auðlindir- er það reynslan eftir tvo áratugi innan EES ?

Svör við þeim kjörum sem aðild okkar að ESB kunna að verða fást aðeins með aðildarviðræðum- þjóðin sker síðan úr um hvort við gerumst aðilar.

Sævar Helgason, 29.4.2008 kl. 11:18

4 Smámynd: Stefán Bogi Sveinsson

Það er þreytt þvæla að við missum sjálfstæði ef svo fer að við göngum í ESB. Spurðu Dani, Finna, Breta, Frakka, Þjóverja og Ítali hvort þeir telji sig vera ósjálfstæðar þjóðir. Það er ekki boðlegt að hlusta á svona andskotans vitleysu, eins og kemur frá Bjarna. það eru margir gallar við að ganga í ESB en ósjálfstæði þjóðarinnar er ekki einn þeirra.

Stefán Bogi Sveinsson, 29.4.2008 kl. 11:29

5 Smámynd: Bjarni Kjartansson

EF það er í lagi að missa forræði allra mála í hendur Brussels þá er það bara skoðun þín Stefán Bogi en ég tel og að sönnu, að EES hafi verið óþarft hliðarspor en ekki óafturkræft.

Ég ehf verið og er enn, talsmaður tvíhliða viðræðna um Viðskipti við svoddan blokkir EN ekki aðlid að slíkum yfirþjóðlegum stofnunum, sem hafa BOÐVALD yfir okkur.

Það er afar þreytt,a ð segja að við séum nú þegar búin að missa meydóminn hvað varaðrar afsal réttinda og sjálfsákvörðunarréttar.

EES er ekki óafturkræft en Efnahagsbandalagið er önnur ella.

Miðbæjaríhaldið

hefur hlustað á bæði sjónarmið DAn, Finna, Svía, Breta og að ekki sé nú talaað um Skota.  Mjög ber á þeirri skoðun, meðal rósamra manna að mjög hafi sneiðst um sjálfstæði þar em BOÐVALDI sé óumdeilanlega í Brussels.

Við höfum EEKKERT að segja í Evrópuþingið, með okkar örfáu fulltrúa.

Bjarni Kjartansson, 29.4.2008 kl. 11:49

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Fengum við ekki sjálfstæði 1944 og töpuðum því með aðild að SÞ 1946?

Gunnlaugur B Ólafsson, 29.4.2008 kl. 13:43

7 Smámynd: Heiðar Lind Hansson

Spurningar um sjálfstæði þjóðarinnar og gömlu utanríkisstefnu Íslendinga um "ævarandi hlutleysi" má ekki rugla saman.

Hið "ævarandi hlutleysi" var grunnurinn undir utanríkisstefnu Íslendinga, frá 1918 fram að undirritun herverndarsamningsins árið 1941. Í þessu fólst að landið átti allt sitt undir góðvild þeirra sem höfðu hernaðarleg yfirráð á N-Atlantshafi: Bretar, og síðar Bandaríkjamenn. Samkvæmt þessu var þó ekki um eiginlegt hlutleysi að ræða. Þó svo að íslenskir ráðamenn hafi haft hlutleysið í fyrirrúmi áfram eftir herverndarsamninginn, var það einungis í orði kveðnu, bæði gegn miskilinni þjóðernishyggju innanlands og þýsku hervélarinnar á meginlandi Evrópu. Endalega hvarf svo hlutleysið, þegar Keflavíkursamningurinn var undirritaður árið 1946. Þá var öllum orðið ljóst hvar Íslendingar höfðu skipað sér í sveit.

Ísland verður formlega sjálfstæð þjóð árið 1944. Reyndar varð það svo, að í kjölfar innrásar Þriðja Ríkisins í Danmörku snemma á vori 1940, bjó Alþingi þannig um hnútana, að landið varð sjálfstætt frá Dönum "að svo stöddu" eins og það var orðað þá. Íslendingar eru enn sjálfstæð þjóð, þó svo að megi deila um ýmis atriði. En yfir heildina litið er sjálfstæði landsins klárt.

Af þessu má draga nokkrar ályktanir varðandi fullveldið:

(1) Utanríkisstefna Íslands miðast við stefnu NATO og SÞ. Enginn breyting hefur orðið á því lengi. Þó má finna undantekningar, t.d. afstaða Íslands til sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna.

(2) Ég fæ ekki betur séð en að "lýðræðishalli" sé nú til staðar, vegna EES samningsins. Jón Baldvin hefur orðað það að við séum 66% í ESB. Við tökum við reglugerðum þaðan í gegnum EES og höfum lítið sem ekkert að segja um það. Því má spyrja hvort þetta verði ekki leiðrétt með inngöngu í ESB? (spyr sá sem ekki veit)

Hvað þýðir þetta? Jú, við erum talsvert bundin af yfirþjóðlegum stofnunum en samt sem áður erum við sjálfstæð þjóð. Við getum haft áhrif á ýmis mál gegnum bandalög og við getum líka gengið úr þeim hvenær sem er.

Heiðar Lind Hansson, 29.4.2008 kl. 14:20

8 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ef framsóknarmenn ætla að þvæla meira en gert hefur verið um evrópusambandsaðild án þess að fá niðurstöðu, þá fá þeir þrjá þingmenn í næstu Alþingiskosningum.Auðvitað þarf ekki að kjósa um evrópusambandsumsókn.Það er þess vegna hægt að sækja um strax á morgun.Það var ekki kosið þegar Íslendingar sóttu um aðild að NATÓ, það var ekki kosið þegar sótt var um aðild að EFTA og það var ekki kosið þegar Íslendingar gengu í EES.Það þarf þess vegna ekki að kjósa frekar nú þegar sótt er um aðild.Ef breyta þarf stjórnarskránni þá er hægt að kjósa um það um leið og kosið er um aðild að Evrópusambandinu sem gæti orðið eftir 2-3 ár.

Sigurgeir Jónsson, 29.4.2008 kl. 15:14

9 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Skoðanir Jóns hafa verið kunnar í þessum málum um árabil og geta því vart talizt fréttir.

Hjörtur J. Guðmundsson, 29.4.2008 kl. 16:33

10 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Alex:
Evrópusambandssinnar vilja sjá stjórnvöld lýsa því yfir að þau ætli að sækja um aðild nú því þeir vilja nýta sér efnahagsástandið núna og tímabundna svartsýni fólks í þágu áhugamáls síns. Þeir vilja ekki að fyrst verði lagað til í efnahagsmálunum, sem er forsenda aðildar, því þá er eðlilega ekki eins víst með stuðning fólks.

Hjörtur J. Guðmundsson, 29.4.2008 kl. 16:37

11 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Stefán Bogi:
Hvaðan kemur gríðarleg völd stofnana Evrópusambandsins? Urðu þau bara til úr engu? Nei, þetta eru völd sem áður voru í höndum aðildarríkja sambandsins en eru það ekki lengur, enda flestar stofnanirnar meira eða minna sjálfstæðar gagnvart aðildaríkjunum. Það skiptir engu hvað Danir, Finnar, Svíar o.s.frv. kunna að segja ef það stangast á við raunveruleikann. Og í þessum efnum stæðum við Íslendingar verst að vígi enda fer vægi aðildarríkja Evrópusambandsins innan þess fyrst og síðast eftir því hversu fjölmenn þau eru. Ísland yrði, eins og staðan er í dag, langsamlega minnsta aðildarríkið og með vægi í samræmi við það. Og þetta er hvorki Grýla né hræðsluáróður, þetta eru bara kaldar staðreyndir.

Hjörtur J. Guðmundsson, 29.4.2008 kl. 16:42

12 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sælir strákar!

Ég þekki marga af ykkur í gegnum flokksstarfið í Sjálfstæðisflokknum og verð að hryggja ykkur með því að mitt hjarta slær í takt við hjarta Gests í þessu máli.

Ég er ansi hræddur um að næsti Landsfundur Sjálfstæðiflokksins muni að stóru leyti snúast um nákvæmlega þetta mál. Það er virkilega kominn tími til þess að sjálfstæðismenn taki þessa umræðu og það hefur allt of lengi viðgengist að menn, sem eru sömu skoðunar og ég og Gestur, séum hunsaðir innan flokksins.

Að mínu mati sagði síðasta skoðanakönnun Fréttablaðsins sannleikann í málinu, þ.e.a.s. að meirihluti sjálfstæðismanna sé hlynntur aðildarviðræðum við ESB.  Að hlusta ekki á stærri hluta flokksins - grasrótina - getur haft hættulega afleiðingar, eða allt frá því að kljúfa flokkinn upp í að hrekja félagslegan arm flokksins - stóran hluta flokksins - í opna arma Samfylkingarinnar. Þetta verða menn að íhuga við þessar aðstæður. Það eru ódýr rök að segja að við séum ekki sjálfstæðismenn af því að við séum annarrar skoðunar í þessu máli. Ég hef verið sjálfstæðismaður frá því að ég var unglingur og mitt hjarta mun ávalt slá hægra megin. Draumar Gests um að halda þessu fyrir utan flokkapólitík eru óraunsæri - því miður. Samfylkingin mun nota þetta í næstu kosningum og þá er eins gott fyrir okkur að átta okkur á því að þar skapast mikið hættuástand.

Kær kveðja,

Guðbjörn Guðbjörnsson

Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.4.2008 kl. 19:43

14 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Já Hallur. Og þessi formaður og talsmaður aðildarviðræðna við ESB tapaði stórt, komst ekki
einu sinni inn á þing. Aldrei áður gerst í 100 ára
sögu flokksins að formaðurinn hafi ekki komist
inn á Alþingi Íslendinga......

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 1.5.2008 kl. 01:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband