Framsóknarhjartað slær í takt

Guðni Ágústsson sló góðan takt í dag. Takt sem hjörtu Framsóknarmanna slá nú í. Um leið fór Framsókn að sýna sitt rétta andlit, sem flokkur sem getur fundið skynsamlega leið til lausnar á flóknum viðfangsefnum sem þjóðin þarf að kljást við, eins og spurningin um stöðu Íslands í Evrópu er.

Innan flokksins eru margir sem hafa ekki gert upp við sig hvert beri að stefna, en einnig stjórnarmenn í Heimssýn, samtökum andstæðinga ESB aðildar, formaður Evrópusamtakanna og stjórnarmenn í þeim samtökum. Þannig er alveg ljóst að Framsókn mun aldrei koma fram með niðurstöðu í þessu máli sem allir flokksmenn munu geta fylgt.  Í viðurkenningu á því felst einmitt styrkur Framsóknar, að geta borið virðingu fyrir skoðunum hvers annars og fundið þeirri umræðu skynsamlegan farveg, sem á endanum leiðir til lýðræðislegrar niðurstöðu þjóðarinnar.

Umræðan um framtíðarstöðu Íslands í Evrópu hefur hingað til verið allt of grunn og stjórnast um of tilfinningum og trú. Líklegast vegna þess hve margt er á huldu, forsendur óljósar og staðreyndir á reiki. Hefur hún oft frekar líkst rifrildi manna um ágæti fótboltaliða sinna en vitrænni umræðu um alvarleg málefni.

Upp úr því fari verður umræðan að komast og markar Framsókn með tillögu sinni um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu leið til þess. Umboðið yrði skýrt, markmiðin og viðfangsefnin betur skilgreind og verkefni stjórnmálamannanna þar með einfaldara og vænlegra til árangurs en ella.


mbl.is Þarf að breyta stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þetta er nú ekkert flókið Gestur.Ef Framsóknarflokkurinn segist ekki getað ákveðið það hvort íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið,hvernig eiga þá kjósendur að geta ákveðið það hvort þeir eigi að kjósa Framsóknarflokkinn. Að sjálfsögðu verða Framsóknarmenn að gera það upp við sig hvort þeir eigi að ganga í Evrópusambandið.Þeir geta gert það með kosningu innan flokksins.Það liggur fyrir að formaður og varaformaður eru á sitthvorri línunni hvað Evrópusambandsaðild varðar.Ef Evrópusambandsaðildarumsókn er hafnað þá hlýtu varaformaður að hætta sem varaformaður.Ef Erópusambandsaðildarumsókn er samþykkt þá hlýtur formaður að hætta sem formaður.Framsóknarflokkurinn er búinn að hafa forystu sem er ekki samstíga frá 2001.Það hefur kostað helming af fylgi hans.Mál er að linni.

Sigurgeir Jónsson, 4.5.2008 kl. 09:57

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Í gær urðu framsóknarmenn hjartanlega sammála um að vera ósammála um þetta mál. Um leið var lögð skýr lína hvernig ætti að komast að lýðræðislegri niðurstöðu um þetta mál, án þeirrar skoðanakúgunar sem þú ert að boða Sigurgeir og aðrir flokkar ástunda.

Gestur Guðjónsson, 4.5.2008 kl. 11:20

3 identicon

Nú er ég hættur að skilja þetta Gestur. Fregnir segja að Guðni/flokkurinn hafi opnað að aðildarviðræður, en þú að menn séu sammála um að vera ósammála? Það er ekki glóra í þessu.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 4.5.2008 kl. 16:59

4 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Menn eru að opna á að taka umræðuna og leggja línuna gagnvart því ferli sem umræðan þarf að fara í gegnum. Það er að láta þjóðina ákveða hvort farið verði í aðildarviðræður. Innan flokksins eru menn sem eru harðir aðildarsinnar og harðir andstæðingar aðildar. Tíðindin eru þau að báðir þessir aðilar vilja láta þjóðina taka þessa ákvörðun og munu láta til sín taka í umræðunni, hvor með sinni sannfæringu, þannig að umræðan verði ekki tekin í gíslingu stjórnmálaflokkanna. Afstaða fólks til ESB gengur nefnilega þvert á flokkslínur, ég þekki ESB andstæðinga í Samfylkingunni og ESB sinna hjá VG. Þarf ekki að nefna að margir Sjálfstæðismenn eru á því að ganga beri inn, þótt flokkslínan sé andstæð aðild.

Gestur Guðjónsson, 4.5.2008 kl. 17:29

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hvar finn ég ályktun flokksins um hvernig bregðast skuli við afgreiðslu Mannréttindanefndar S Þ um mannréttindabrot sem innbyggð eru í stjórn fiskveiða?

Ég man það frá þeim tíma er ég var framsóknarmaður að þá áttu hinar dreifðu byggðir hauk í horni þar sem Framsóknarflokkurinn var. 

Árni Gunnarsson, 4.5.2008 kl. 20:20

6 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Hana finnur þú í þeim kafla í grundvallarstefnuskrá flokksins, og í síðustu ályktunum, þar sem fjallar um virðingu fyrir mannréttindindum.

Ef þú lest ályktun miðstjórnar er einmitt talað um að gæta þurfi þeirra hagsmuna sem þú nefnir

Gestur Guðjónsson, 4.5.2008 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband