Hver er stefna Guðlaugs Þórs í heilbrigðismálum?

Guðlaugur Þór Þórðarson komst í krappan dans í Silfri Egils í dag. Hann vék sér undan því að svara Siv Friðleifsdóttur um hvert hann stefndi með heilbrigðiskerfið. Það vekur tortryggni að ekki sé svarað skýrt um hvort einkavæðing heilbrigðiskerfisins sé á dagskrá.

Björgvin G Sigurðsson reyndi að koma honum til hjálpar með því að benda á að stjórnarsáttmálinn væri í gildi, en þar kvæði um jafnt aðgengi óháð efnahag. En í stjórnarsáttmálanum stendur einmitt að auka eigi útvistun verkefna, sem er það sem þarf til að Guðlaugur geti undirbúið að koma stefnu Sjálfstæðisflokksins til framkvæmda, þar sem segir meðal annars:

"Sjálfstæðisflokkurinn vill viðhalda almannatryggingum og að heilbrigðisþjónusta sé að mestu greidd úr sameiginlegum sjóðum.  Fundurinn telur að breyta þurfi kerfi sjúkratrygginga á þann veg að ljóst sé að um raunverulegt tryggingakerfi sé að ræða þar sem menn njóta skilgreindra réttinda til þjónustu sem þeir hafa greitt fyrir með sérstökum iðgjöldum. Skilgreina þarf lágmarkssjúkratryggingu svo að einstaklingarnir viti hver trygging þeirra er. "

og:

"Æskilegt er að settar verði reglur um hámarksbið og að skilgreindur verði réttur sjúkratryggðra til að leita annað eftir þjónustu."

Ég feitletraði það sem ég staldraði við. Reyndar staldraði ég mest við það sem ekki stóð í samþykktinni. Í stefnu Sjálfstæðisflokksins stendur nefnilega hvergi að tryggt skuli jafnt aðgengi að heilbrigðiskerfinu. Er að í samræmi við annað sem í stefnunni stendur.

Sjálfstæðisflokkurinn vill að sjúklingar taki verulegan þátt í heilbrigðisþjónustunni. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart úr þeirri áttinni, enda átti Framsókn í stöðugu stríði við íhaldið um þátttökugjöldin í síðustu ríkisstjórn.

En það er orðalagið um lágmarkssjúkratryggingu sem maður staldrar helst við, þegar það er sett í samhengi við stefnu flokksins um rétt sjúklinga til að leita annað eftir þjónustu. Það að segja að sjúklingar eigi að fá að leita annað eftir þjónustu ef sú þjónusta sem ríkið veitir á grundvelli lágmarkssjúkratryggingarinnar dugar ekki, þýðir ekkert annað en að það sé stefna Sjálfstæðisflokksins að hægt verði að fara til einkaaðila með lágmarkssjúkratryggingatékkann frá Tryggingastofnun og bæta því við sem einkarekni spítalinn eða stofan setur upp og borga sig þannig fram fyrir biðröðina ef einhver skilgreind markmið um hámarksbið nást ekki.

Það er að fara af braut jafns aðgengis allra að heilbrigðiskerfinu, óháð efnahag.

Orðið lágmarkssjúkratrygging felur í sér að eitthvað skuli vera til sem er umfram lágmarkið, ef menn greiða hærra iðgjald en þann 4.500 kr á mann á mánuði, óháð aldri, sem heilbrigðiskerfið kostar í dag. Þá líklegast í einkarekinn sjúkrasjóð.

Til að koma þessu vonda kerfi á laggirnar þarf að koma sem mest af verkefnum út úr spítölunum til að tryggja rekstrargrundvöll einkaspítala, minnka afkastagetu ríkiskerfisins og koma á ástandi biðraða og sveltis sem mun svo kalla á frekari einkavæðingu og í leiðinni aukið fylgi við skilgreininguna um hámarksbið, sem verður líklega verkefni næsta kjörtímabils, en á þessu kjörtímabili virðist ætlunin að undirbúa jarðveginn.

Þegar er búið að skipa nefnd til að skilgreina hverju er hægt að henda út úr Landsspítalanum í fyrstu umferð, undir forystu Vilhjálms Egilssonar.

Þetta er í algerri andstöðu við stefnu Framsóknar og komst íhaldið aldrei neitt í þessa átt í tíð síðustu ríkisstjórnar, svo það er ekki skrítið að formaður Flokksins lýsi því glaður yfir að nú sé hægt að gera breytingar á heilbrigðiskerfinu sem aldrei hefði verið hægt að gera í samstarfinu með Framsókn.

Guðlaugur Þór virðist sem sagt vera á þeirri leið sem flokkssamþykktir hans segja til um, óháð því sem stjórnarsáttmálinn segir til um. Mun Samfylkingin kyngja því eins og öllu öðru?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Humm Gestur, viltu meina að Framsóknarflokkurinn hafi ekki við sína setu í ráðuneytinu samþykkt einkavæðingu ákveðinna sérsviða þar sem almenningur þarf að kosta þjónustuna ?

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 5.5.2008 kl. 01:48

2 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Ég reyndi að fylgjast með Silfri Egils í dag.  Siv héltfyrstu ræðuna. Svo kom að Guðlaugi þór, og Siv hélt áfram að rausa eins hún væri undir áhrifum lyfja.  Hú spurði Guðlaug margra spurninga, og þegar Guðlaugur reyndi að svara, þá hélt Siv áfram frammígrípingunum og hávaða svo ekkert heyrðist í Guðlaugi.  Að spyrja svona spurninga og leyfa viðmælanda ekki að svara vegna frammígrípinga, heita;  AÐDRÓTTANIR.

Sigurbjörn Friðriksson, 5.5.2008 kl. 02:01

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég spurði Ármann Kr. Ólafsson á bloggi hans hvort Sjálfstæðisflokkurinn stefndi að einkavæðingu og vitnaði í eftirfarandi tilvitnun í ályktun landsfundar: 

Lagt er til að sjálfstæðum aðilum verði í auknum mæli gefið færi á að taka að sér verkefni á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu og að kostir einstaklingsframtaks verði nýttir á þessu sviði.

Má þar t.d. nefna góða reynslu af samningum um einkarekna heilsugæslu.

Hann hefur ekki svarað því skýrt. Orðaskipti okkar má lesa hér.

Theódór Norðkvist, 5.5.2008 kl. 11:43

4 Smámynd: Sævar Helgason

Ég verð nú að minna á mjög mikilvægt mál sem Guðlaugur heilbrigðisráðherra var að sigla í höfn.

Þetta mál er samningur við hjartalækna , en Siv fv heilbrigðisráðherra missti það mál úr böndunum í sinni tíð ,fyrir um tveimur árum síðan.

Þessi gernigur Sivjar íþyngdi lasburða,öldruðum og efnalitlum hjartasjúklingum mjög og jók kostnað og fyrirhöfn úr öllu hófi.

Nú hefur Guðlaugur heilbrigðisráðherra bætt úr þessum slæmu mistökum fv. heilbrigðisráðherra.

 Hafi hann þökk fyrir.

Sævar Helgason, 5.5.2008 kl. 14:32

5 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Gmaría:Jú það voru stigin ákveðin skref þar sem gerðir voru þjónustusamningar um framkvæmd ákveðinna þátta. Hefur það aðallega verið við sjálfseignarstofnanir sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, en einnig í einhverjum tilfellum aðra, t.d. í Salarhverfinu, sem var tilraun til að sjá hvernig rekstrarformið kæmi út. Skýrslu um niðurstöðu þeirrar tillögu var skilað til núverandi heilbrigðisráðherra, en af einhverjum ástæðum hefur hún ekki verið birt.

Sigurbjörn, þetta er því miður sá stíll sem Egill Helgason vill hafa á sínum þætti, amk lætur hann óheft rifrildi líðast.

Theodór. Þetta er enn uggvænlegra en ég hugði.

Sævar: Það er aldrei eins, þá tveir deila. Ég ekki ekki nánari atvik í þessari samningagerð, en stundum vill hún dragast úr hófi.

Gestur Guðjónsson, 5.5.2008 kl. 15:23

6 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Gmaría, það er aðallega í ljósi þeirrar stefnumótunar sem íhaldið hefur sem frekari einkavæðing undir þeirra stjórn er varhugaverð.

Gestur Guðjónsson, 5.5.2008 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband