Þorgerður Katrín vill fara Framsóknarleiðina í Evrópumálum

Þau tíðindi gerðust í kvöld að varaformaður Sjálfstæðisflokksins Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir viðurkenndi að sú leið sem Framsóknarflokkurinn hefur varðað í Evrópumálum, sé sú skynsamlegasta og boðar að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að styðja þá leið.

Þessu lýsti hún yfir á innanfélagsfundi Sjálfstæðisflokksins í kvöld. RÚV var undarlegt nokk mætt á fundinn og rennir stoðum undir uppnefnið Bláskjár, en hingað til hafa innanflokksfundir stjórnmálaflokkanna ekki verið teknir upp, nema þegar einhver stórtíðindi hafa átt sér stað.

Þótt það sé hárrétt hjá henni að tvöföld kosning sé skynsamlegasta leiðin, er það athyglisvert að hún telji það í ljósi þess að hún hefur ítrekað og sífellt sagt, nú síðast í Silfri Egils, að Sjálfstæðismenn telji ekki skynsamlegt að ganga í ESB. Af hverju ætti þá að kjósa ef hún er svona staðföst í þeirri trú?

Er það vegna þess að hún hefur verið að tala þvert gegn eigin sannfæringu?

Hvernig er hægt að taka mark á slíkum stjórnmálamönnum?


mbl.is Hefur áhyggjur af borgarmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Gestur!

Ég les oft pistlana þína og er þeim yfirleitt sammála.

Það sem ég skil ekki alveg er að þú gagnrýnir Þorgerði Katríni - og þar með líklega Sjálfstæðisflokkinn - fyrir að hafa skipt um skoðun varðandi hugsanlega ESB aðild.

Ég hef einmitt verið að skoða mína afstöðu varðandi þetta mál undanfarin 1 - 1 1/2 ár og komist að þeirri niðurstöðu, að við þyrftum hugsanlega að skoða þetta mál betur. Er það rangt að endurskða skoðun sína eða skipta um skoðun, þegar forsendur breytast.

Hvað yrði þá um alla framþróun?

Kær kveðja, Guðbjörn Guðbjörnsson

Guðbjörn Guðbjörnsson, 14.5.2008 kl. 22:30

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sæll Guðbjörn.

Það er rétt að hún er að lýsa skynsamlegri leið. Þeirri sömu og Framsókn hefur varðað og það er hárrétt að allir hafa rétt til að skipta um skoðun.

"Man har et standpunkt indtil man tager et nyt" eins og maðurinn sagði.

Það sem vekur þessi viðbrögð hjá mér er sú fortakslausa andstaða sem hún hefur talað fyrir alveg fram á síðustu daga og lengi í þessu máli að við höfum ekkert inn að gera og málið sé ekki á dagskrá, hefur sem sagt fylgt flokkslínunni sama hvað á dynur, óháð eigin sannfæringu, því ég trúi ekki að hún hafi vaknað í morgun og skipt um skoðun meðan hún tannburstaði sig. Slíkt hlýtur að hafa aðdraganda.

Það er sem sagt málflutningur hennar undanfarið, fyrir kvöldið í kvöld sem ég er undrandi yfir, en ég fagna málflutningi hennar í kvöld.

Vonandi kemst umræðan upp úr skotgröfum Evrópusamtakanna og Heimsýnar, sem hafa bæði gert sig sek um að gera andstæðingnum upp skoðanir og taka umræðuna þaðan og vera með rangfærslur, sem hafa dregið mikið úr trúverðugleika alls málflutningsins, sem er á stundum vandaður og góður, en það þarf ekki mikið til að það falli allt í skuggann.

Gestur Guðjónsson, 14.5.2008 kl. 22:47

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Gestur

Það eru nú nokkrar gloppur í þessu bloggi þínu.

1. Halldór Ásgrímsson opnaði gluggann í Framsókn varðandi Evrópuumræðuna. Guðni Ágústsson var alfarið á móti. Þessi afstaða Halldórs klauf Framsóknarflokkinn í herðar niður. Hvar er þá stefna Framsóknarflokksins í málinu?

2. Þorgerður telur að taka eigi umræðuna og telur jafnvel skynsamlegt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Þ.e. að þjóðin fái að segja beint skoðun sína á málinu. Hún hefur sínar efasemdir, en vill samt sem áður að þjóðin fái að kjósa um dæmið. Það virðist ofar þínum skilningi að hún getur verið einnar skoðunar en samt talið að þjóðin fái að kjósa um málið. Finnst þér sem það sem Framsóknarmanni vera of lýðræðisleg aðferð?

Sigurður Þorsteinsson, 15.5.2008 kl. 00:00

4 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sæll Sigurður

Í Framsókn hafa verið skiptar skoðanir um ESB. Í flokknum er formaður Evrópusamtakanna og Bjarni Harðar er í stjórn Heimsýnar. Ég býst við að meirihluti flokksmanna sé, eins og ég, ekki búinn að gera upp við sig hvað sé best að gera. Forsendur skorti til að taka þá ákvörðun. Flokkurinn hefur verið heiðarlegur gagnvart þeirri stöðu og hlotið háðsglósur frá einmitt Þorgerði Katrínu vegna þess, um að Framsókn viti ekkert hvert hún vilji í ESB umræðu, núna nýlega á Alþingi. Framsókn veit einmitt hvað hún vill, upplýsta skynsamlega umræðu, sem leiðir til skynsamlegrar ákvörðunar og skynsamlegrar niðurstöðu.

Guðni telur enn að Íslandi sé betur borgið utan ESB. Guðni hefur aftur á móti, eins og Halldór áður sem telur að heimurinn muni breytast þannig að hagsmunum okkar muni betur komið innan ESB en utan, ekki haldið því fram að Framsókn sé búin að komast að hinni einu sönnu niðurstöðu um málið, heldur að málið þurfi að vera á dagskrá og umræðuna þurfi að þroska, enda breytast aðstæður sífellt.

Guðni og Framsókn hefur fundið umræðunni farveg. Góðan farveg sem Þorgerður sér snilldina í og vill nú stela þeim fjöðrum. Það er allt í lagi að hún taki undir þá aðferðafræði, en það kemur ekki á óvart að hún reyni að skreyta sig annarra fjöðrum, sbr það þegar hún ætlaði að fara að eigna Friðrik Sophussyni fæðingarorlofslögin, skilgetið afkvæmi Páls Péturssonar.

Ég er alveg sammála henni um að þjóðin eigi að fá að segja sinn hug í málinu. Algerlega og það er sama niðurstaða og Framsókn hefur komist að, að undangenginni þroskaðri umræðu.

Gestur Guðjónsson, 15.5.2008 kl. 00:17

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hvernig "veit" ÞKG, að þetta sé "skynsamleg" leið, jafnvel "sú skynsamlegasta", ef hún sjálf hefur "efasemdir"? Hvernig getur hún talið þjóðina vera lengra komna í upplýsingu um málið heldur en þingmennina? Hvað veit hún í raun sjálf um málið? Ef það ert takmarkað, hvernig þykist hún þá þess umkomin að telja sig vita, hver sé "skynsamlegasta leiðin"? Eða er hún bara eins og fyrri daginn í pólitískum hráskinnaleik?

Hafðu svo ekki þessa ofurtrú á "snilldinni" í Framsókn, Gestur, þú hlýtur að gera þér grein fyrir því, að Guðna var ýtt út á þetta forað af fámennri klíku innsta hrings miðstjórnarmanna flokksins – sem eru EKKI í takt við almenna kjósendur hans.

Jón Valur Jensson, 15.5.2008 kl. 01:37

6 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Held að það séu skiptar skoðanir um ESB í öllum flokkum. Aðalatriðið er að taka upp umræðuna, fara yfir kosti og galla, en líka skoða aðrar leiðir t.d. eins og að semja um norsku krónuna eða taka upp dollar. Vonandi breyta einhverjir þingmenn um skoðun við þá umræðu, vegna þess að þessi umræða á fremur að vera á faglegum nótum, en sem trúarbrögð. 

ÞKG getur að sjálfsögðu talið málsmeðferð skynsamlega þótt hún hafi efasemdir um ESB.  

Fjölmiðlar þurfa að verða vettvangur fyrir misamunadi skoðanir til þess að ákvarðanatakan í lokin verði vitræn.

Sigurður Þorsteinsson, 15.5.2008 kl. 06:19

7 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Jón Valur og Sigurður: Það er einmitt málið, að við höfum ekki forsendur til að taka afstöðu. Þeir aðilar sem hafa þóst hafa tekið afstöðu þegar, eins og t.d. Samfylkingin og íhaldið hingað til geta ekki hafa gert það á grundvelli þess sem fyrir liggur.

Þess vegna er gott að hafa efasemdir, en skoða þó málið með opnum huga. Það hlýtur að vera gjaldmiðilsmálið sem mun vega þyngst í jákvæða átt, en efinn um yfirráðin yfir auðlindunum og sjálfsákvörðunarréttinn á móti.

Þessar appelsínur og epli verður að meta.

Gestur Guðjónsson, 15.5.2008 kl. 09:11

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Íslendingar væru þá fyrsta þjóðin til að ganga í ESB vegna evrunnar og leggja auðlindir sínar undir! En hvers vegna skyldi það nú vera, að Bretar og Danir taka ekki upp evruna? Og veiztu nema sumar þjóðirnar eigi eftir að varpa henni frá sér? Og væri upptaka hennar til þess að fá verðmeiri gjaldmiðil? Nei, þeir, sem til þekkja, segja, að við yrðum fyrst að byrja á því að lækka okkar eigin verðmátt gagnvart umheiminum, sem fæli vitaskuld í sér e..k. gengissig/fall. Og síðan værum við búnir að binda trúss okkar við þennan gjaldmiðil og gætum aldrei lagað hann sjálf til að fá hærra verð fyrir útflutningsafurðir okkar.

Það hafa oft verið mjög verulegar gengisfellingar á Íslandi, m.a. á 6.–8. áratug 20. aldar, og Ísland alltaf rétt úr kútnum, þannig að stuttbuxnastrákarnir ættu bara að slappa af, horfa til þeirra fordæma og sjá til, hvernig efnahagslífið aðlagar sig að þessu. Eitt er víst, að útflutningsgreinar og ferðamennsku-atvinnugreinin eiga eftir að hagnast mikið á nýlegu gengissigi.

Jón Valur Jensson, 15.5.2008 kl. 10:41

9 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Jón Valur. Þetta eru akkurat spurningar sem við verðum að leita svara við áður en við tökum upplýsta ákvörðun. Mér vitanlega hefur sú vinna, að fá vel grunduð svör við þeim, ekki farið fram. Hugsanlegt lokagengi krónunnar væri einmitt eitt þeirra atriða sem skipta miklu máli.

Það er það sem þarf að gera. Að fengnum þeim svörum er hægt að meta og taka ákvörðun um það hvort beri að sækja um eður ei. Ákveði þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu/skoðanakönnun að ekki beri að sækja um, á hún að fá frið fyrir spurningunni í ca áratug eftir það.

Gestur Guðjónsson, 15.5.2008 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband