Stórkostleg fjölskylda
22.5.2008 | 01:21
Við sem horfum af hliðarlínunni á þjáningar þessarar fjölskyldu, getum ekki annað en dáðst að því hvernig hún hefur náð að breyta þessum sorglega atburði, sem virðist svo óendanlega tilgangslaus, í eitthvað sem mun vonandi bæta samfélagið sem við lifum í til frambúðar.
Fyrir það vil ég þakka og óska þeim alls hins besta í framhaldinu.
Jónína minnti í minningargrein sinni um stúlkuna á ábyrgð þeirra lækna sem ávísa læknadópi. Minnir það mann enn og aftur á þörfina á að koma á einni samræmdri sjúkraskrá og lyfjaskrá, sem því miður hefur tekið allt of langan tíma að koma á fót. Þar má ekki líða smákóngum að hefta framþróunina.
Grein Ingibjargar verður vonandi minnst sem greinar sem breytti barnaverndarmálum á Íslandi.
Réttur foreldra til barna sinna virðist vera mun sterkari en réttur barnanna til sómasamlegra uppeldisskilyrða. Því þarf að breyta, bæði í lagaumhverfinu og eins í framkvæmd barnaverndarmála sem og hjá dómstólum. Við skulum ekki gleyma því að börnin velja sér ekki foreldra og geta ekki komið fram sem þrýstihópur.
Það er margt sem rennur í gegnum hugann.
Væri til dæmis ekki eðlileg vinnuregla að foreldrar standist einfalt eiturlyfjapróf áður en börn eru skilin eftir án eftirlits þar sem saga eiturlyfjaneyslu er þekkt hjá viðkomandi?
Hvað er eðlilegt við það að fólk sem ekki getur átt börn þurfi að leita erlendis eftir börnum til að hlúa að, veita öryggi og tryggð, þegar fjöldi barna hér á landi eru svikin um það allt saman? Þeir foreldrar sem hafa tekið börn dópista að sér þurfa sífellt að vera að sjá á eftir börnunum til þeirra, bara vegna þess að blóðforeldrarnir, kannski bara annað þeirra, hefur haldist edrú í viku eða svo. Það getur ekki verið gott fyrir börnin að þurfa að búa við þennan hringlandahátt.
Væri "sjálfvirk" forræðissvipting yfir virkum dópistum úrræði sem einhverju myndi skila?
Eiga foreldrar og aðrir aðstandendur alltaf að þurfa að fara sjálfir í gegnum dómstóla þegar barnaverndaryfirvöld hafa kannski öflugri og fljótvirkari úrræði, eins og Dögg Pálsdóttir fer vel yfir í þessari færslu?
Barnaverndaryfirvöld eru ávallt í erfiðri stöðu gagnvart gagnrýni og geta ekki varið sig í málum gagnvart einstaklingum sem hafa sannleikan ekki alltaf í heiðri þegar þeir fara í fjölmiðla og er gott að sjá að Barnaverndarstofa skuli ætla að fara yfir málið, og sem betur fer er búið að koma á fót embætti Umboðsmanns barna sem ætti að sinna eftirliti með eftirlitnu útfrá sjónarhóli barnanna.
Þessi jákvæða nálgun á málið er til mikillar fyrirmyndar og sem betur fer gaf Guð drengjunum þessa stórkostlegu fjölskyldu sem getur annast þá.
Því miður eru ekki allir svo heppnir.
Barnaverndarstofa rannsakar málið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
þessi mál þurfa sífellt að vera í endurskoðun. Ég veit að mál þessarar tilteknu stúlku hafa verið mjög erfið. Frænkur hennar eru að standa sig vel.
Hólmdís Hjartardóttir, 22.5.2008 kl. 03:03
Þetta er hið dapurlegasta mál og enn skelfilegri tilhugsunin um að fleiri börn skuli búa við svipaðar aðstæður þar sem stefnir í ámóta harmleik. Börnin eiga sinn rétt og vernd á þeim rétti og það er hlutverk barnaverndarnefnda að verja rétt þeirra. Í þessu sorglega máli virðist ljóst af fréttum að viðkomandi barnaverndarnefnd stóð ekki sína pligt og það er ekkert sem réttlætir aulaháttinn og vanhæfnina á þeim bæ. Og svo er það klassíski íslenski stjórnsýsluhátturinn ef marka má orð framkvæmdastjóra barnaverndar í Reykjavík, að rannsaka sjálf eigið klúður. Þarna virðist um að ræða algjört og óafsakanlegt stjórnsýsluklúður vegna vanhæfni eða skilningsleysi barnaverndarnefndar á eigin hlutverki. Svona klúður á að sjálfsögðu að sæta lögreglurannsókn en ekki eigin innri rannsókn þeirra sem bera ábyrgð á klúðrinu. En hrokinn í íslenskri stjórnsýslu er slíkur að málin eru gjarnan rannsökuð af þeim meintu brotlegu sjálfum sem auðvitað finna ekkert að hjá sjálfum sér en "harma að þolendur skuli upplifa eða sjá málið á þennan hátt", "því við hjá kerfinu erum untouchable". Eðlilegt framhald þessa sorglega máls er að sjálfsögðu óháð lögreglurannsókn á því hvað brást hjá barnaverndarnefndinni ef það er meinið en ekki sjálfskoðun sem gefur niðurstöðuna "við erum með allt okkar á hreinu".
corvus corax, 22.5.2008 kl. 07:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.