Mun Umboðsmaður Alþingis skila áliti um Árna Matt fyrir þingfrestun?
27.5.2008 | 12:44
Í lok janúar kvörtuðu umsækjendur um héraðsdómaraembætti Norðurlands eystra til umboðsmanns Alþingis vegna embættisfærslna Árna Mathiesen þegar hann sem settur dómsmálaráðherra gekk gegn mati lögbundinnar matsnefndar og réði mann sem var metinn hæfur, meðan þeir sem kvörtuðu voru metnir mjög vel hæfir af matsnefndinni.
Nú eru liðnir fjórir mánuðir síðan Umboðsmaður tók málið til meðhöndlunar og ætti svarið að liggja fyrir, ef miða má við þau álit sem hann hefur sjálfur gefið um málshraða.
Umboðsmaður Alþingis er sú staða sem sett hefur verið á stofn til að fjalla um svona mál, að hafa óháð eftirlit með framkvæmdavaldinu og vigtar álit hans því á við blý í þessari umræðu og greinilegt er á viðbrögðum Árna við þeim spurningum sem hann var spurður, að hann kvíðir niðurstöðu hans.
Hann getur þó ekki farið að draga hæfi hans í efa, því hann hefur sjálfur kosið hann til starfa.
Ef Umboðsmaður metur embættisfærslu hans á þann veg sem almenningsálitið hefur gert, að hann hafi ekki viðhaft eðlilega stjórnsýslu við ráðningu í dómaraembættið og þar með vanvirt dómsvaldið, eina þriggja grundvallarstoða stjórnskipunar lýðveldisins, verður afar áhugavert að sjá hvort Samfylkingin muni taka ábyrgð á setu hans í ríkisstjórn, með því að verja hann vantrausti. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins getur á hvaða tíma sem er skipt honum út, svo það að hann sitji enn er ótvíræð traustsyfirlýsing þess flokks og kemur ekki á óvart. Ef úrskurðurinn liggur ekki fyrir í þessari viku verður ekki hægt að taka þá mælingu fyrr en í haust. Á meðan situr hann sem fastast og safnar lífeyrisréttindum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mér sýnist stjórnvöld litlar áhyggjur hafa af afleiðingum þess að storka samfélaginu með pólitísku siðleysi.
Um það eru mörg dæmin og reyndar ekki öll svo nýleg.
Árni Gunnarsson, 27.5.2008 kl. 13:07
Sæll Gestur.
Mín skoðun er nú sú að viðkomandi aðili sem er sonur fyrrum forsætisráðherra eigi ekki að þurfa að gjalda þess, fremur en njóta að vera sonur hans, og vonandi að álit Umboðsmannsins hafi með það að gera.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 28.5.2008 kl. 02:23
Menn mega alls ekki gleyma þvi, að skv. íslenskum lögum er ráðning héraðsdómara alfarið á valdi ráðherra. Valnefndin er einungis ræaðgefandi og er ráðherra ekki bundinn af áliti hennar. Umboðsmaður og menn almennt geta haft sínar skoðanir á þessu en það er ráðherra sem ræður. Hann getur því ekki hafa brotið nein lög með ákvörðun sinni. Svo einfalt er það.
Júlíus Valsson, 28.5.2008 kl. 08:18
Ráðherra eins og aðrir embættismenn, eru bundnir af stjórnsýslulögum og það er á þeim grunni sem verið er að klaga hann. Að hann hafi ekki viðhaft vandaða stjórnsýsluhætti við sína ákvarðanatöku.
Gestur Guðjónsson, 28.5.2008 kl. 09:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.