Hlandið kólnar... aftur
12.6.2008 | 13:10
Fyrstu raunverulegu merki þess að ríkisstjórnin væri í einhverjum tengslum við raunveruleikann í efnahagslífinu birtust 28. mars þegar forsætisráðherra gaf yfirlýsingu á ársfundi Seðlabankans um að styrkja þyrfti bankann og hefja vinnu í að endurskoða peningamálastefnuna, með aðkomu vísustu manna, innlendra og erlendra. Fram að því höfðu ráðherrar básúnað hvað þeir fylgdust vel með. Komið hefur í ljós að það hefur verið það eina sem þeir hafa gert, ekkert hefur verið undirbúið og menn töluðu í kross, sem minnkaði enn tiltrú á markaðnum, með tilheyrandi tjóni fyrir efnahagslífið. Brást markaðurinn ágætlega við þeim tíðindum og hlýnaði, en þegar í ljós kom að ekkert átti að gera, féll allt í sama farið og krónan með. Endurskoðunarnefndin hefur enn ekki verið skipuð, hvað þá meira.
Næstu lífsmörk voru 16. maí þegar Seðlabankinn gerði tímabundna gjaldmiðilsskiptasamninga við þrjá norræna seðlabanka. Var það ágætt svo langt sem það náði, ekkert fylgdi eftir og nýtti ríkisstjórnin ekki það til að láta hné fylgja kviði og allt kólnaði aftur.
Síðustu lífsmörk ríkisstjórnarinnar voru svo undir lok þings, þegar heimild til 500 milljarða lántöku var veitt. Markaðurinn brást vel við en aftur kólnaði, þegar í ljós kom að ekkert fylgdi í kjölfarið. Engin lántaka eða neitt.
Ekkert hefur hins vegar verið gert og þau jákvæðu áhrif sem hvert og eitt af þessum skrefum hefur haft hefur ekki verið nýtt og því stendur ríkisstjórnin nú með ískalt hland í skónum, ráðalaus. Hún reynir að bera sig vel og segir að þetta hafi sparað henni pening í formi vaxta, en er ekkert að spá í að umbjóðendur hennar, almenningur borgar brúsann með himinháum vöxtum og hríðfallandi gengi.
Ef hlustað hefði nú verið á viðvaranir Framsóknar, sem Seðlabankinn hefur tekið undir að öllu leiti og fleiri í haust og aðgerðir undirbúnar og kynntar af myndugleik, þannig að hvert skrefið fylgi því næsta og styrki það.
Það er eins og ríkisstjórnin vilji stöðva hjól efnahagslífsins og ná fram atvinnuleysi til að minnka kaupmátt, atvinnurekendum til hagsbóta og auka samkennd launþega, sem Samfylkingin heldur líklegast að muni gagnast henni. En þá þarf hún að fara að tala máli þeirra, sem hún hefur ekki gert.
Himinháir vextir gagnast bara þeim sem eiga peninga, en ekki þeim sem skulda. Það er kannski rétt að horfa á aðgerðir og aðgerðaleysi manna í því ljósi.
Háir stýrivextir farnir að bíta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sammála þér Gestur það er engu líkara en að það sé verð að knýja fram einhverjar fyrirfram ákveðnar aðstæður með góðu eða illu
Jón Aðalsteinn Jónsson, 14.6.2008 kl. 12:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.