Hvað þýðir stunguskóflan í Helguvík?
19.6.2008 | 10:44
Mér finnst enn eitt dæmið um dugleysi íslenskra fjölmiðla að hafa ekki skoðað þessa mynd betur, þar sem þingmaður Suðurlands, Samfylkingarmaðurinn Björgvin G Sigurðsson, nú viðskiptaráðherra var meðal þeirra sem tóku fyrstu skóflustunguna að nýju álveri í Helguvík.
Fín framkvæmd og gott að Björgvin skuli styðja hana, þótt ég voni að stjórnvöld tryggi að þessi framkvæmd muni ekki verða í veginum fyrir Húsvíkingum.
Það er eðlilegt að spurt sé hvort hann sé með þátttöku í þessari athöfn að lýsa yfir stuðningi Samfylkingarinnar við framkvæmdina og hvort fylkingin ætli að styðja þær framkvæmdir sem þarf að fara í til að útvega fyrirtækinu orku, eða hvort yfirlýsingar græna netsins sé til marks um stefnu Samfylkingarinnar.
Eða er Björgvin með þessu að lýsa vilja Alþýðubandalagsarms Samfylkingarinnar í andstöðu við kvennalistaarminn og grænanetsarminn?
Við hverju má búast í framhaldinu?
Til þess að þessi starfsemi geti gengið þarf nefnilega orku, og er eðlilegt að spurt sé hvaðan hún eigi að koma.
Ætla fjölmiðlar að láta viðskiptaráðherra komast upp með að svara ekki þeirri spurningu?
Á að láta það duga að segja eins og sagt var um netþjónabúið að orkan fáist af dreifikerfinu?
Mér þykir eðlilegt að ráðherrann sé inntur að því hvort hann hafi skipt um skoðun varðandi virkjun neðri hluta Þjórsár, sem hann lýsti sig mótfallinn í aðdraganda síðustu kosninga, eða hvort hann sé ósammála borgarfulltrúum Samfylkingarinnar sem slógu Bitruvirkjun umsvifalaust af borðinu eftir álit Skipulagsstofnunar. Orðum og gjörðum fylgir ábyrgð og er eðlilegt að menn séu inntir að því hvað menn séu að hugsa þegar þeir taka þátt í fjölmiðladansinum.
Eins er eðlilegt að spurt sé hvort ráðherran ætli að beita sér fyrir því að aflað verði losunarheimilda fyrir frekari iðnaðaruppbyggingu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.