Dýrin í skóginum eiga að vera vinir

Heill þér áttræðum Steingrímur.

Fyrirlestrar dagsins sýndu svo ekki verður um villst hversu góður og framsýnn stjórnmálamaður Steingrímur Hermannsson er. Ætla ekki að reyna að endursegja þá, en þau voru mörg framfaraverkin sem unnin voru í forsætisráðherratíð hans. Ber það helst að nefna EES samninginn sem var unninn í tíð hans, sem Jón Baldvin fékk að leggja lokahöndina á, þjóðarsáttirnar 1986 og 1990 sem kváðu niður verðbólgudrauginn og sköpuðu þann stöðugleika sem undanfarið hagvaxtarskeið byggir á, auk þess sem staða Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu var styrkt með stofnun embættis ríkisendurskoðanda, Umboðsmanns Alþingis og Umhverfisráðuneytis. 

Í ávarpi sínu til okkar ráðstefnugestanna fannst mér Steingrímur lýsa afar vel af hverju hann var jafn farsæll forsætisráðherra og raun var. Hann bar virðingu fyrir samferðamönnum sínum í stjórnmálunum og leit ekki á þá sem andstæðinga, hlustaði á rök þeirra og hafði sjálfstraust til að viðurkenna að hans skoðanir voru ekki alltaf þær einu réttu, enda hann brúarsmiður sem á fáa sína líka í íslenskri stjórnmálasögu. Í því er fólginn mikill styrkur.

Með það viðhorf er mun auðveldara að ná árangri í samstarfi við aðra stjórnmálaflokka og eitthvað sem þeir stjórnmálamenn sem eru í framlínunni í dag mættu læra af, að dýrin í skóginum eiga að vera vinir.


mbl.is Steingrímur Hermannsson 80
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband