Ríkisstjórnin verður að ákveða sig í efnahagsmálum
11.7.2008 | 16:53
Það þýðir ekkert að hanga í fýlu með hendur í skauti. Tími ákvarðana og aðgerða í efnahagsmálum er fyrir löngu kominn og er ríkisstjórnin að kosta okkur almenning stórfé á degi hverjum með aðgerðaleysi sínu, misvísandi yfirlýsingum og ósamlyndi í hverju málinu á fætur öðru.
Stýrivextir eru himinháir og bætist fjármagnskostnaður við hækkanir vegna gengisfalls og hækkun á verði aðfanga. Veikir það samkeppnisstöðuna gagnvart erlendum aðilum, sem þurfa bara að eiga við hækkun á aðföngum. Leiðir það óhjákvæmilega til niðurskurðar á kostnaði, sem á íslensku heitir uppsagnir og þar með atvinnuleysi, eitt mesta böl hvers samfélags.
Grunnurinn að viðsnúningi er að taka stór erlend lán til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann. Það er ekki nóg að tala um að ætla að gera það, það minnkar bara trúverðugleikann og virkar í snaröfuga átt ef það er svo ekki gert jafnharðan.
Styrking gjaldeyrisvaraforðans mun styrkja krónuna og minnka þar með verðbólguþrýsting, sem aftur er forsenda lækkunar stýrivaxta.
Seðlabankinn þarf að gefa út að stýrivextir muni lækka um leið og verðbólga fer að mælast eitthvað lægri en hún mælist núna og muni halda áfram að lækka, t.d. með því að gefa út að á meðan vaxtalækkunarferlið vari muni raunstýrivextir vera ákveðin tala, t.d. 1%. Ef stýrivextir eru neikvæðir er hætt við að fjármagnseigendur flýi í stórum stíl með inneignir sínar úr krónunni sem ylli enn frekara falli á gengi hennar, sem ynni á móti lækkun verðbólgunnar, þannig að það þarf að sjálfsögðu að fara með varúð í því ferli.
Maður hlýtur að spyrja sig af hverju sé ekki fyrir löngu búið að gera þetta og getur maður ekki komist að annarri niðurstöðu en að það sé vegna þess að Geir H Haarde, Árni Mathiesen, Davíð Oddsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Björgvin G Sigurðsson geti náð samkomulagi.
Davíð stendur staðfastur með okurstýrivöxtum sínum og ber við trúverðugleika, sem Geir eyðileggur jafnóðum með yfirlýsingum um aðgerðir sem svo er ekki farið í og á eftir fylgir viðskiptaráðherra sem talar niður íslensku krónuna og þar með íslenskt efnahagslíf í hvert sinn sem hann fær tækifæri til þess.
Endurskoðun peningamálastefnunnar er algert forgangsatriði og gagnsæi við stjórn peningamála. Það myndi að sjálfsögðu kosta að skipta þyrfti um í brúnni í Seðlabankanum og til þess virðist Geir ekki hafa kjark til að fara í, meðan að Samfylkingin virðist tilbúin í þá aðgerð.
Skemmst er einnig að minnast þess að Björgvin G Sigurðsson hefur tekið jákvætt í hugmyndir Gylfa Magnússonar, dósents að meiri fagmennsku sé þörf við stjórn Seðlabankans.
En með áframhaldandi aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar virðist hörð lending og atvinnuleysi vera óumflýjanleg.
Framsókn: Seðlabankinn taki erlent lán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:54 | Facebook
Athugasemdir
Hvað með skattana Gestur ?
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 12.7.2008 kl. 00:51
Til að fyrirtækin geti lifað af og greitt laun og skatta þurfa þau lausafé.
Til að koma hreyfingu á lánsfjármarkaðinn og gera fyrirtækjum kleyft að starfa áfram þarf að skapa trúverðugleika í efnahagslífinu. Til þess þarf ríkisstjórnin að gera það sem hún hefur sagst ætla að gera. Taka lán og endurskoða peningamálastefnuna.
Meðan ríkisstjórnin gerir ekkert nema að áuka á lausafjárkreppuna þarf ekkert að spá í sköttum. Það verða litlar eða engar tekjur að taka skatt af.
Skammtímabreytingar í einstökum skattaliðum breyta litlu þar um. Afar einfaldað.
Gestur Guðjónsson, 12.7.2008 kl. 01:24
Ríkissjóður er skuldum vafinn, þrátt fyrir áróður um hið gagnstæða. Erlend staða hans er neikvæð um 323 milljarða (yfirlit seðlab. um stöðu þjóðarbúsins í lok 1. ársfj. 2008) og varla er hann skuldlaus innanlands heldur. Hvernig á slíkt fallít batterí að geta fengið lán upp á hundruði milljarða? Hvaða heilvita bankastjóri heldurðu að fari að moka slíku fjármagni í jólasveina á borð við Davíð Oddsson, Halldór Blöndal (formann bankaráðs seðlabankans, Árna Mathiesen og Geir Haarde sem koma endalaust af fjöllum og ekkert mark er á takandi? Einmitt.
Bæði flugrekstur og fiskiskipafloti er þar að auki á leiðinni á hausinn vegna hækkandi eldsneytisverðs og lenda óhjákvæmilega á framfæri skattgreiðenda fyrr eða síðar. Það er enn frekari lántökuþörf sem hangir yfir.
Baldur Fjölnisson, 12.7.2008 kl. 16:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.