1, 2 og glansbæklingur á kostnað borgarbúa
13.7.2008 | 23:49
Fékk þennan líka fína bækling inn um bréfalúguna fyrir helgina, en þar voru kynntar þær framkvæmdir sem til stendur að fara í á grundvelli verkefnisins, 1, 2 og Reykjavík.
Vefurinn 1, 2 og Reykjavík er til hreinnar fyrirmyndar sem tól fyrir okkur borgarbúa að hafa samband við borgina, en hér er því miður verið að kynna gamalt vín á nýjum belgjum og hafa áhugasama borgarbúa sem hafa tekið þátt í verkefninu að háði og spotti.
Ég fæ nefnilega ekki betur séð en að fyrir löngu hafið verið búið að ákveða að fara í megnið af þeim verkefnum sem þarna eru kynnt. Reglubundin viðhaldsverkefni gatna og lóða og svo verkefni sem Umhverfis- og samgönguráð hafði þegar ákveðið að fara í meðan ég sat í því í upphafi kjörtímabilsins í tengslum við Grænu skrefin góðu. Fjölgun ruslabiða, lagfæring og lagning hjólreiðastíga, göngustígagerð, endurnýjun og fjölgun bekkja, vatnshanar og fjölgun flokkunarstöðva fyrir úrgang.
Auðvitað eru einhver verkefni sem koma ekki úr Grænu skrefunum eða eru reglubundin, lögbundin viðhaldsverkefni, minna væri nú, en þau eru sorglega fá og er því greinilegt að hér er meiri auglýsingamennska en raunverulegur vilji til að bregðast við ábendingum borgarbúa um hvað mætti betur fara í borginni.
Það er góð búmennska að nýta hlutina vel, en er ekki full mikið að láta prenta glansbækling fyrir margar milljónir til þess eins að reyna að lappa upp á laskaða ímynd með endurnýttum fyrirætlunum um aðgerðir sem löngu er búið að ákveða að ráðast í?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2008 kl. 00:32 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gestur
Efalaust myndi flest það sem fram kom í 1,2 og Reykjavík verða framkvæmt einhvern tíma. Stóri munurinn er sá að nú er unnið samkvæmt forgangsröðun íbúa. Þeir sem sitja í ráðhúsinu og taka ákvarðanir um forgangsröðun framkvæmda í hverfum eru oft lítt upplýstir um vilja íbúa. Nú er vilji íbúa ljós, hið minnsta þeirra sem nýttu sér tækifærið. Margt af þessu kann að virðast sjálfsagt, en engu að síður hefur það ekki verið gert þrátt fyrir mýmargar ábendingar íbúa gegnum tíðina. Nú eru slíkar óskir hins vegar opinberar og erfiðara að bera við þekkingarskorti.
Vatnshanar voru engir í Grænu skrefunum og fall ekki undir lögboðin eða reglubundin verkefni- hér er verið að uppfylla óskir gangandi og hlaupandi. Upplýsinga- og fræðsluskilti á útsýnisstaði eru það ekki heldur og svo má lengi telja.
Varðandi Grænu Skrefin má ekki gleyma því að Grænu skrefin byggðu að miklu leyti á ýmsum tillögum sem komið höfðu fram í kosningabaráttu vorið 2006 ekki hvað síst hjá F-lista og að einhverju leyti VG. Tímasetning Grænu skrefanna angaði af atkvæðaveiðum B og D í aðdraganda alþingiskosninga.
En ég er sammála þér um bæklinginn, hefði fremur kosið að sjá þá aura fara í kaup á plöntum, meiri ruslahirðu við göngustíga, áningarstaði og bekki í brekkur fyrir þá sem erfiðara eiga um gang og svo framvegis.
Ásta , 14.7.2008 kl. 10:23
GÖNGUM LENGRA, HJÓLUM MEIRA
Göngu- og hjólreiðastígurinn frá Ægisíðu upp í Elliðaárdal verður breikkaður, upphitaður og vatnshönum þar fjölgað.
Grænu skrefin var pólitísk yfirlýsing um hluti sem setja átti í framkvæmd. Framkvæmd á hlutum sem hafði staðið til í heillangan tíma hjá R-listanum en var sett í framkvæmd. Frítt í strætó hafði t.d. staðið til heillengi en var ekki sett í framkvæmd.
Gestur Guðjónsson, 14.7.2008 kl. 10:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.