Ekki einn dag!!! - firringin alger
5.8.2008 | 21:09
Stórundarleg yfirlýsing forsætisráðherra um að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar hefði nú aldeilis borið árangur kom strax fram í hækkuðu skuldatryggingaálagi bankanna. Markaðurinn er ekki lengi að gefa sín skilaboð og bankarnir og almenningur í framhaldinu er látin borga fyrir vantrúna á efnahagslífi sem leitt er af þessari dæmalausu ríkisstjórn.
Auðvitað snýst viðskiptajöfnuðurinn þegar fyrirtæki landsins fá ekki fjármögnun fyrir daglegum rekstri og allar fjárfestingar stöðvast, hvort heldur er rekstrarmuna- eða fastafjármunafjárfestingar!
Er það eitthvað að stæra sig af að fyrirtæki landsins séu komin í stóra stopp?
Það getur ekki þýtt annað en atvinnuleysi og það er aldeilis eitthvað að monta sig af !
Fyrr en seinna fer þetta einnig að koma niður á útflutningi og getur vöruskiptajöfnuðurinn vart farið annað en í sama farið eða hvað?.
Nú áðan bætti formaður iðnaðarnefndar um betur með því að lýsa því yfir að úrskurður umhverfisráðherra um að álver, flutningur og orkuvinnsla álversins eigi að fara í sameiginlegt umhverfismat í stað tefði Bakkaverkefnið ekki um einn dag.
Ekki einn einasta dag.
Þessu heldur hún fram, þótt fyrir liggi að með úrskurði ráðherra sé ljóst að ekki er hægt að hefja tilraunaboranir til að kanna hve mikla orku er að hafa á svæðinu, fyrr en búið er að ljúka umhverfismati á álveri, sem aftur þarf að vita hve mikla orku fær áður en hægt er að ljúka hönnun á!
Af hverju segir Samfylkingin ekki eins og er og viðurkennir að hún vilji ekki álverið á Bakka, ef það er stefna flokksins?
Eða er það Alþýðubandalagið og Kvennalistinn sem eru á móti, meðan að Þjóðvaki og Alþýðuflokkurinn er fylgjandi atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, en þessar fylkingar nái ekki samkomulagi og því sé hringlandinn alger?
Ef það er ekki tilfellið verður Samfylkingin að koma með trúverðugar skýringar á því hvernig komið verði í veg fyrir seinkun um einn einasta dag og hvernig hún ætli að tryggja hagstæða orkusölusamninga, þegar búið er að úrskurða alla mögulega samkeppnisaðila um orkuna út af borðinu.
Sömu spurningu verður Sjálfstæðisflokkurinn einnig að svara, því hann styður jú ríkisstjórnina alla og í því felst að hann verji ráðherra hennar vantrausti.
Sjálfstæðismenn geta ekki skotið sér undan ábyrgð.
Álag bankanna hækkar enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:10 | Facebook
Athugasemdir
Gestur.... ég veit ekki hvort þú ert að gera þér upp að skilja þetta ekki.... nú skal ég útskýra þetta þannig að meira segja fúll frammari skilji.
1. Samfylkingi styður byggingu álvers á Bakka við Skjálfandaflóa.
2. Gangsetning álvers tefst ekki um einn einasta dag einfaldlega vegna þess að það er ekki meiningin að þarna hefjist vinnsla fyrr en 2012 og fullum afköstum náð 2015. Það er nægur tími til að klára þetta umhverfismat fyrir tilsettan tíma. ( Þessar dagsetningar eru að vísu óstaðfestar því Alcoa hefur ekki gefið það út með endanlegum hætti að þeir ætli af stað með þessa framkvæmd... þó svo líkurnar hafi aukist síðustu misseri )
3. Framsóknarmenn eru að mála skrattann á vegginn því þeir þurfa mál til að reyna að hífa sig úr 9% en gremst að sjá að þetta mál er stormur í vatnsglasi
Jón Ingi Cæsarsson, 5.8.2008 kl. 21:29
1. Það er gott að heyra að Samfylkingin ætli sér ekki að standa við Fagra Ísland.
2. Það er ekki hægt að hefja tilraunaboranir á orkuvinnslusvæðinu fyrr en umhverfismati álversins er lokið með öllum þeim kærum og úrskurðum sem því fylgir. Það umhverfismat er ekki byrjað og mun taka í það minnsta ár ef ekki meir. Þau tímaplön sem verkefnið fylgdi byggðu á því að tilraunaboranirnar yrðu framkvæmdar næsta sumar. Það er ljóst að af því verður ekki og því er hætt við að öllu verkefninu seinki um eitt ár. Samfylkingin þarf að útskýra hvernig þetta hangir saman. Hvar hægt sé að flýta verkþáttum, nema hún ætli að leyfa umhverfismatinu fara einhverjar skemmri leiðir. Ég ætla rétt að vona að það sé ekki tilfellið.
3. Það er sorglegt að sjá að Samfylkingarmönnum líkja atvinnuuppbyggingu á landbyggðinni við storm í vatnsglasi.
Gestur Guðjónsson, 5.8.2008 kl. 21:38
Innilega sammála þér Gestur en það er eitt sem að er að vefjast fyrir mér. Er ekki verið að fara í þetta mat til þess að ákveða hvort eigi að leyfa framkvæmdina. Hvernig er þá hægt að segja að þetta tefjist ekki neitt Bitruvirkjun er til dæmis dæmi um hlut sem ekki stóðst mat. Og ef fyrirfram er gefið að framkvæmdin standist mat til hvers að eiða kostnaði í það. Það er einfaldlega hægt að gera kröfur um frágang umgengni og mengun eða það finnst mér. Er í raun ekki bara verið að draga lappirnar til að eyðileggja framkvæmdina.
Jón Aðalsteinn Jónsson, 5.8.2008 kl. 21:47
Gestur... þú veist ekkert um Fagra Ísland ef þú telur að eitthvað í því tengist álveri á Bakka..... hvet þig til að kynna þér málið.... annars get ég líka útskýrt það fyrir þér ef þetta er eitthvað erfitt
Jón Ingi Cæsarsson, 5.8.2008 kl. 22:19
Átt að lesa aðeins meira....
tilraunarboranir hafa verið á Þeistareykum í nokkur ár.... nú standa yfir boranir við Bjarnarflag og nýlokið er borun tilraunaholu við Kröflu.... vestast og nyrst á svæðinu nær Leirhnjúki... þá er eftir boranir í Gjástykki en þar er um að ræða síðasta valkost í þessum fjórum stöðum sem um er rætt.
Það væri ráð að þú kynntir þér mál betur. Annars er ég að fara á Þeistareyki í fyrramálið.... ég skal senda þér mynd af tilraunaborunum þar ef þig langar til að sjá.....
Það er rausið í Framsóknarmönnum sem er stormur í vatnsglasi.... svo aðeins sé lagfærður hjá þér útúrsnúningurinn.
Jón Ingi Cæsarsson, 5.8.2008 kl. 22:24
Er ekki verkfræðingurinn í þér alveg með það á hreinu ,að heildarmat áætlaðra framkvæmda af þeirri stærðargráðu sem þarna er fyrirhuguð ,frá borholu til byggingar álvers, sé gott mál ? Gestur.
Það er síðan framsóknarmaðurinn í þér sem er að láta málið bögglast fyrir sér... þessvegna eru þessi vandræði.
Sævar Helgason, 5.8.2008 kl. 22:32
Jón Aðalsteinn, jú ég hélt að það þyrfti að meta þetta og taka ákvarðanir.
Jón Ingi. Fyrsti punktur Fagra Íslands hljóðar:
Þannig að með því að lýsa yfir stuðningi við Bakka nú, t.d. með framlengingu viljayfirlýsingarinnar, sem Össur Skarphéðsinsson stóð að, er verið að ganga gegn þessu, því ekki rammaáætlun er jú ekki lokið.
Ég er ágætlega inni í framgangi mála á Þeistareykjum og veit að það er búið að gera nokkrar holur, en frekari boranir krefjast umhverfismats, sem munu tefjast allt að einu ári, sem verður að ljúka áður en samið er. Það er algerlega óábyrgt að semja um orkusölu og hönnun á álveri byggt á ágiskun á þeirri orku sem til ráðstöfunar er, en vegna þessa úrskurðar er orkusalinn jú þvingaður til að selja bara þessu álveri orkuna, amk til að byrja með.
Brot á viljayfirlýsingum er líklegast bara stormur í vatnsglasi í huga Samfylkingarmanna. - því miður.
Sævar. Ég er ekki ósammála heildarmati á þeim þáttum sem eiga saman, eins og ég hef áður rakið. Orkuvinnsluna í eitt og orkunotkunina og tengda starfsemi saman í annað. En hvað þýðir þetta heildarmat. Það hefur umhverfisráðherra ekki getað útskýrt fyrir framkvæmdaaðilum.
Gestur Guðjónsson, 5.8.2008 kl. 22:48
Það er alveg sama hvernig ráðamenn burðast við að bera fram ríkisstjórnarstefnuna, hún er einn dag suður og annan norður, sitt á hvað.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 6.8.2008 kl. 02:02
Eimitt.... taktu eftir "frekari" þessi grein nær ekki til álvers á Bakka og það hefur komið fram í umræðum 1000x þó svo þú hafir ekki tekið eftir því.
Þú kannski veist ekki að búið er að bora bæði við Kröflu og borinn er nú staddur ofan Bjarnarflags og er að vinna ??
Mér sýnist að þú sér bara almennt á móti að mál fari í umhverfismat og er því haldinn daufblindu Framsóknarmanna í umhverfismálum... þannig að það þýðir ekkert að ræða það við þig... kannski ættir þú að átta þig á að þessi Framsóknardaufblinda er að drepa flokkinn þinn því kjósendur vilja ekki kjósa jafn óábyrga stjórnmálamenn og þarna ráða ríkjum.
Jón Ingi Cæsarsson, 6.8.2008 kl. 07:48
Jón Ingi, Samfylkingin auglýsti á allt annan hátt fyrir kosningar og var til þess tekið sem persónulegrar skoðunar Kristjáns L Möller að hann styddi Bakkaálverið. Sem betur fer hefur sú skoðun orðið ofaná, þegar í stólana var komið. Nema hugsanlega hjá utanríkisráðherra og umhverfisráðherra.
Nei ég er alls ekki á móti mati á umhverfisáhrifum, tel það afar mikla og góða framför (sett í lög í stjórnartíð hvaða umhverfisráðherra?) og tók virkan þátt í stuðningi við Ólaf Örn og fleiri góða Framsóknarmenn í Eyjabakkadeilunni, þar sem málið snérist einmitt um hvort framkvæmdin ætti að fara í umhverfismat eður ei. Það er jú ekki tilfellið hér.
Hérna voru menn búnir að sammælast um ramma um að meta umhverfisáhrif orkuöfluninnar og flutninganna samtímis og svo orkunotkuninnar samtímis. Á þann hátt hefði orkuseljendur getað kastað Alcoa út í hafsauga, vildi fyrirtækið ekki greiða rétt orkuverð, sem Þórunn er búin að koma í veg fyrir í raun, því ef upp úr slitnaði nú, þýddi það margra ára seinkun á öllum verkefnum á svæðinu.
Gestur Guðjónsson, 6.8.2008 kl. 09:44
Því miður verður að segjast eins og er- Framsóknaflokkurinn (eða ráðamenn hans) hafa keyrt virkjanamál þjóðarinnar í þá keppu sem málin eru komin í. Allur atgangurinn varðandi Kárahnjúka ævintýrið skipti þjóðinni í tvær fylkingar - og þegar við fáum að sjá mynd Ómars Ragnarssonar er hætt við að enn betur komi í ljós - gerræðið og nauðgun landsins. Að fá 15 þús. manns úr öllum stigum þjóðfélagsins í mótmælagöngu- sýndi alvarleik málsins. Stór hluti þjóðarinnar treystir ekki Landsvirkjun til að umgangast landið varðandi virkjanir - eftir atganginn. Og Hellisheiðarvirkjun er víti til varnaðar- slíkur er óskapnaðurinn- þar er traustið líka fyrir bí. Í báðum þessum tilvikum komu framsóknar menn mjög við sögu og ábyrgð- stjórnarformenn þeirra í hvoru dæminu fyrir sig . Landsvirkjun og Orkuveitunni voru framsóknarmenn.
Þessvegna er þetta bullandi vantraust- og fylgi við að allt sé grandskoðað í heild sinni varðandi allt sem lýtur að virkjanamálum. Yfirgangurinn við Þjórsá er með ólíkindum af hálfu Lndsvirkjunar.
Framsóknarflokkurinn nánast þurrkaðist út í síðustu kosningum vegna þessa- og nær sér sennilega aldrei.
Forystu í orkufyrirtækjum okkar verður að stokka upp og fá alveg nýtt fólk inn - fólk með nýjar hugmyndir og virðingu fyrir landi og þjóð...
Sævar Helgason, 6.8.2008 kl. 17:04
Get tekið undir margt sem þú skrifar um atganginn í umræðunni, Sævar. Bloggaði einmitt um Hellisheiðarvirkjun um daginn, sem ég er nokkuð viss um að hafi verið ein meginástæða þess að Bitruvirkjun var mótmælt jafn harkalega og raun bar vitni, sem endaði í því áliti Samkeppnisstofnunar sem það fékk á endanum.
Ég var andstæðingur þess að sökkva Eyjabökkum, enda hægt að ná í orkuna án þess að fórna náttúru Eyjabakka, en fylgjandi Kárahnjúkavirkjun. Við skulum átta okkur á því að Eyjabökkum var þyrmt vegna þess að blessunarlega var farið í fullnaðarvirkjun á svæðinu í einum áfanga.
Ég tel að það hafi verið bylgjan sem vaknaði í Eyjabakkamálinu, þar sem til stóð að komast undan umhverfismati, hafi einmitt valdið því að Kárahnjúkabylgjan hafi orðið svona sterk. Hefðu menn hagað sér eins og menn og farið að gildandi lögum í Eyjabakkamálinu, en ekki reynt að halda í drep í lagakróka í því máli, er ég sannfærður um að meiri sátt hefði verið um Kárahnjúkana, þar sem farið var að gildandi lögum í einu og öllu.
Þannig að þvermóðska fyrirtækjanna hefur kostað mikið traust og traust er gull. Er nokkuð viss um að það hefði ekki verið mikill munur á, hvort Össur eða einhver íhaldsmaðurinn hefði verið í iðnaðarráðuneytinu á þeim tíma.
Gestur Guðjónsson, 6.8.2008 kl. 18:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.