Er búið að semja um vopnahlé í ríkisstjórninni?
6.9.2008 | 00:40
Þögn Samfylkingarinnar í leiðréttingarbaráttu ljósmæðra hefur komið mér afar spánskt fyrir sjónir í ljósi síendurtekinna yfirlýsinga ráðherra hennar og beinlínis árása á samstarfsflokkinn og ráðherra hennar undanfarið þegar erfið og umdeild mál hafa komið upp. Formaður flokksins segir að engin kreppa sé, svo rök fjármálaráðherra um að nú séu ekki aðstæður í þjóðfélaginu til að leiðrétta kjör ljósmæðra halda varla í hennar eyrum og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að þrýsta á um að semja, enda er leiðréttingin í samræmi við stjórnarsáttmálann.
Ég get bara séð eina líklega skýringu á því.
Eftir fylgistap Sjálfstæðisflokksins í síðustu Gallupkönnun og fylgisaukningu Samfylkingarinnar hefur Geir H Haarde farið til Ingibjargar Sólrúnar og sagt hingað og ekki lengra. Ef samstarfið eigi að halda áfram þurfa ráðherrar Samfylkingarinnar að hætta ráðast á Sjálfstæðisflokkinn í hvert skipti sem tækifæri gefst.
Nú þurfi vopnahlé, annars missi forysta Sjálfstæðisflokksins stuðning við áframhaldandi samstarf meðal flokksmanna.
Þau skilaboð hefur formaðurinn borið áfram til ráðherra sinna og þeir hlýða, minnugir þess að ISG hefur að því að ég hef heyrt opna heimild til að víkja ráðherrum, kjósi hún svo að gera. Undarlegt lýðræði það ef rétt er.
Reyndar hefur kvennahreyfing Samfylkingarinnar ekki fengið boðin, sem og ritstjóri vefsíðu þeirra, sem birti mótmæli kvennahreyfingarinnar.
Þau vonast líklegast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn taki ekki eftir mótmælunum, bara þeir kjósendur sem kusu flokkinn út á jafnréttisáherslur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.