Hreint loft fyrir alla
18.9.2008 | 09:59
Fyrir utan frábæran söng Foldafugla var mjög skemmtilegt að fylgjast með vistaksturskeppni torfæru og rallökumanna, þar sem þeir reyndu að komast sem lengst á lítranum í ökuhermum sem Landvernd útvegaði. Var munurinn á eyðslu ökumannanna umtalsverður og aksturslagið allt annað en við eigum að venjast í daglegri umferð, þótt ég telji nú að þetta ökulag yrði lítt til vinsælda fallið. Þeir sem náðu bestum árangri voru að silast á 20-30 km hraða.
Grafarvogur og Kjalarnes fékk samgöngublómið afhent sem tákn um að samgöngumál hverfisins fái sérstaka athygli næsta árið. Er það vel til fundið, því lagning Sundabrautar er okkur Framsóknarmönnum mikið kappsmál og er ánægjulegt að sjá hversu mikla pressu búið er að setja á Samgönguráðherra í málinu, þar sem hann virðist samkvæmt viðtali í Kastljósi í gær vera búinn að gefa upp á bátinn að fara innri leiðina, en bendir á hábrú við Klepp sem valkost við Sundagöng, en báðar þessar leiðir eru mun betri kostur fyrir umferðarmynstrið í Reykjavík.
Á föstudaginn er dagur strætó. Opnuð verður hraðleið fyrir strætó á Miklubraut og verður þá enn fljótlegra að taka strætó til og frá miðborginni. Nýr meirihluti í Reykjavík leggur mikla áherslu á eflingu almenningssamgangna, enda fáránlegt annað. Hins vegar setur rekstrarform Strætó bs, í byggðasamlagi með nágrannasveitarfélögunum okkur miklar skorður, eins og nálgunin er á reksturinn í dag. Fara þarf í að endurskilgreina nálgunina þannig að sveitarfélögin kaupi þjónustu af Strætó. Ef ekki næst samstaða um það meðal sveitarfélaganna sem standa að samlaginu, þarf að skoða aðra kosti í því sambandi, því stefnan er skýr. Öflugar almenningssamgöngur eru allra hagur.
Á laugardaginn er svo dagur reiðhjólsins, en aðstaða til hjólamennsku hefur snarbatnað hin síðustu ár, þótt ávallt sé hægt að gera betur, sérstaklega gagnvart þeim sem líta á reiðhjólið sem tæki til að fara í og úr vinnu milli hverfa, en ekki sem holla hreyfingu í tómstundum. Í gangi er sérstakur starfshópur sem fjallar um þetta mál og skilar hann vonandi góðum tillögum innan tíðar, sem hægt verður að vinna áfram með og koma í framkvæmd.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.