Verðbólgan í raun meiri
27.10.2008 | 09:46
Eins og ég rakti í færslu í gær, á húsnæðisliðurinn ekki heima í neysluverðsvísitölu, enda eru húsnæðiskaup ekki neysla.
Þegar verð á húsnæðismarkaði lækkar, mælist raunverðbólgan lægri en hún í raun er, og því eru áhrif gengishrunsins meiri en þessi mæling segir til um.
Það er gott að það komi hratt fram.
Reyndar væri fróðlegt að sjá hversu mikið hlutfallsleg samsetning vísitölunnar ætti að breytast nú, þegar neysla landsmanna hefur breyst jafn hratt og raun ber vitni á síðustu dögum.
---
Ég ætlaði, þegar mbl myndi fjalla um innkaupaferðir útlendinga hér til lands, að básúnast yfir því að flugfélögin væru að flytja inn útlendinga til að kaupa vörur á gömlu gengi, þannig að höggið verði okkur þyngra en ella. En við nánari umhugsun er þetta bara fínt mál. Það er í rauninni mjög gott að fá útlendinga til að kaupa vörur sem við munum hvort eð er ekki hafa efni á í náinni framtíð, en það eru mest dýrar merkjavörur sem þeir kaupa.
Verðbólgan nú 15,9% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já, en á móti kemur að hækkun vísitölu án húsnæðis frá því að verðbólgumarkmið Seðlabankans voru tekin upp er 42,9% saman borið við 56,1% hækkun vísitölu með húsnæði. Þetta er 30,8% munur sem við höfum greitt fyrir í hærri stýrivöxtum, hærra gengi og hruns efnahagslífs þjóðarinnar.
Marinó G. Njálsson, 27.10.2008 kl. 09:58
Þetta er amk ekki rétti tíminn til að taka húsnæðisverðið úr vísitölunni - því þá mun verðbolga mælast mjög há hérna og skrúfa upp lánin á húsnæðinu. Fyrst húsnæðinu var haldið þar inni í bólunni, þá held ég að við ættum að hafa það þarna á meðan hun springur.
Jónas Tryggvi Jóhannsson, 27.10.2008 kl. 10:33
Jónas, þá ertu bara að falsa hagtölur, eins og Marinó bendir á. Hvenær væri rétti tíminn?
Rétti tíminn er um leið og peningamálastefna og um leið umgjörð Seðlabankans verður endurnýjuð, sem hlýtur að verða innan skamms, ef trúa má Samfylkingunni, en reyndar er hún að hlaupa svo hratt frá allri ábyrgð að maður verður bara hræddur um að troðast undir.
Gestur Guðjónsson, 27.10.2008 kl. 10:37
Getur þú vinsamlegast sagt mér hvað verðbólgan er þá í raun og veru.
Sævar Einarsson, 27.10.2008 kl. 11:05
Ef við drögum húsnæðisliðinn frá er verðbólgan 17,2% í dag.
Gestur Guðjónsson, 27.10.2008 kl. 11:07
Þakka þér fyrir skjót svör, svo skil ég ekki afhverju húsnæði er reiknað inn sem neysla, kannski þarf maður að fara að brjóta niður milliveggi og bæta útí naglasúpuna þegar frammí sækir ...
Sævar Einarsson, 27.10.2008 kl. 11:10
Ég hef vaðið á menn sem hafa unnið í Seðlabankanum með þetta atriði. Þeirra svör eru þau að húsnæðisverð sé ágæt vísbending um væntanlega verðbólgu.
Mikið rétt og gott að menn hafi áttað sig á því samhengi, en það er í rauninni sama hundalógík að setja þessa vísbendingu inn í mælinguna og að veðurfræðingur setji loftþrýstinginn inn í regnmælinguna.
Hann notar loftvogina til að hjálpa sér við að spá fyrir um úrkomu, en loftvogin er ekki úrkoma í sjálfu sér.
Gestur Guðjónsson, 27.10.2008 kl. 11:19
Gestur, verði þessi 30% viðbótarhækkun dregin til baka, þá má mín vegna skipta um mælingaraðferð. Við getum ekki bæði haft 30% inni og sleppt lækkun húsnæðisverð úr mlæingum næstu mánaða.
Annars færði ég rök fyrir þessu öllu í færslu í vor: Verðbólga sem hefði geta orðið
Marinó G. Njálsson, 27.10.2008 kl. 14:40
Það er kannski sú leið sem ætti að fara núna þegar óhjákvæmilegt er að endurskoða peningastefnuna, að leiðrétta neysluvísitöluna afturvirkt og taka húsnæðisliðin út. Þá mælist þetta fyrirsjáanlega verðbólguskot ekki eins harkalega inn í lánin og ella hefði verið. Þá gæti það þýtt að hægt væri að lifa við krónuna og verðtryggingu einhverja mánuði.
G. Valdimar Valdemarsson, 27.10.2008 kl. 15:13
Þetta er líklegast skynsamlegasta leiðin, eins og málum er háttað.
Gestur Guðjónsson, 27.10.2008 kl. 16:01
Styð þá útfærslu að ef húsnæðisliðurinn er dreginn út úr vísitölunni núna, verði það gert afturvirkt, þ.a. það vindist ofan af hækkunum sem orðið hafa á verðtryggðum lánum, einmitt að mestu vegna húsnæðisliðarins að því er okkur var sagt.
Þegar mér varð á að benda á ósanngirnina í því að lánin mín væru að hækka vegna þess að húsnæði væri að hækka á markaði löngu eftir að ég var búinn að kaupa fasteign mína á tilteknu verði, var mér bent á að á sama hátt myndu lánin lækka ef verðfall yrði á húsnæði. Ye, right! Það er ekki einu sinni viðurkennt opinberlega ennþá að húsnæðisverð hér hlýtur að vera hrunið í raun og veru þegar engin raunveruleg sala á sér stað. Hversu mikið vitum við sem sagt ekki ennþá og þar að auki virðist Hagstofan ekki hafa treyst sér til þess að reikna út þessa lækkun, þar sem forsendur til þess skortir, þ.a. enn sjáum við bara hækkun á höfuðstól verðtryggðu lánanna okkar.
Verðtryggingin á sér ekki tilverurétt til frambúðar. Hátt vaxtastig og 2ja stafa verðbólga ekki heldur.
Karl Ólafsson, 27.10.2008 kl. 17:05
Marinó, ég var að lesa þessa færslu aftur sem þú vísar til. Ég las hana á sínum tíma og var þér mjög sammála.
Eiginlega finnst mér að þessi færsla (uppfærð m.t.t. stöðunnar í dag) eigi fullt erindi inn í umræðuna í dag og skora ég á þig að birta hana aftur uppfærða, ef þú hefur ekki gert það þegar. Það er virkilega þörf á aukinni umræðu til mótvægis við þennan endalausa hræðsluáróður um að ekki megi hrófla við verðtryggingunni vegna lífeyrissjóðanna. Menn komast upp með að skauta framhjá þessu umræðuefni eins og Geir H. í viðtali á Stöð2 um helgina þegar hann sagði að sér skildist á ASÍ að það væri ekki hægt að afnema verðtrygginguna vegna áhrifanna sem það hefði á lífeyrissjóðina. Engin rök, bara afgreitt si sona.
Vefritið er með þrjá pistla um verðtrygginguna sem á að heita hlutlaus, en tekur í raun afstöðu með verðtryggingunni. Mér þætti fróðlegt að heyra þína skoðun á þessum greinum Marinó. Greinarnar eru skrifaðar af Agnari Frey Helgasyni og eru frá því 2006:
http://www.vefritid.is/index.php/greinasafn/verdtryggingin-i/
http://www.vefritid.is/index.php/greinasafn/verdtryggingin-ii/
http://www.vefritid.is/index.php/greinasafn/verdtryggingin-iii/
Sjálfur hef ég reynt að koma af stað smá andófi gegn verðtryggingunni á minni síðu, við frekar litlar undirtektir fram að þessu. Það vantar 'momentum'.
Gestur, biðst afsökunar á að ég skuli nota síðuna þína til samskipta við Marinó :-)
Karl Ólafsson, 27.10.2008 kl. 17:21
Karl, færslan en komin inn aftur.
Marinó G. Njálsson, 28.10.2008 kl. 00:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.