Er ríkisstjórnin sprungin?
27.10.2008 | 15:14
Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Í því felst að framkvæmdavaldinu ber að framfylgja þeirri stefnu sem löggjafarvaldið, Alþingi, setur henni.
Sú stefna er sett fram í stjórnarsáttmála, sem stjórnmálaflokkar, tveir eða fleiri, gera með sér og þingflokkar og viðkomandi trúnaðarstofnanir innan stjórnmálaflokkana samþykkja.
Sá samningur er bindandi, því ráðherrar sitja í trausti þess að ekki sé samþykkt á þá vantraust og er stuðningur samstarfsflokka gegn vantraustsyfirlýsingu grundvallaður á þeim samningi.
Nú lýsir einn ráðherra í ríkisstjórn Íslands, þar sem hann kemur fram sem ráðherra, að Ísland eigi að sækja um aðild að ESB. Ekki að ég sé ósammála honum, en ráðherra getur talað þannig heima hjá sér og einnig sem þingmaður á Alþingi, með vísan í stjórnarskrá, en þegar ráðherra kemur fram sem ráðherra er hann bundinn af þeim stjórnarsáttmála sem sú ríkisstjórn sem hann situr í er mynduð um.
Það að Björgvin G Sigurðsson tali með þessum hætti er því vantraustsyfirlýsing við þá ríkisstjórn sem hann situr sjálfur í og ber honum þar með að segja af sér ráðherradómi.
Nema ríkisstjórnin sé í raun sprungin, en beðið sé með andlátstilkynninguna, sem ég held reyndar að hafi verið lýðnum ljóst um nokkurn tíma að sé tilfellið, því Samfylkingin notar hvert tækifæri til að hlaupast undan ábyrgð, tala gegn ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og öllum þeim stjórnarathöfnum sem hugsanlega geta skapað óvinsældir.
Sá stjórnmálalegi óstöðugleiki sem þessi framkoma Samfylkingarinnar gagnvart samstarfsflokknum og þjóðinni allri skapar er það síðasta sem við þurfum nú.
Girðið ykkur í brók, snúið bökum saman og vinnið ykkur út úr verkefnunum.
Uppgjörið kemur svo seinna.
Ísland endurskoði ESB-afstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já, þegar þeir eru ekki með kaskeiti ráðherrans, til dæmis þegar þeir eru á Alþingi, eru þeir jú alþingismenn. Eins á almennum fundum oþh.
En ekki þegar þeir koma fram fyrir hönd þjóðarinnar sem ráðherrar.
Gestur Guðjónsson, 27.10.2008 kl. 16:44
Í fyrsta lagi er stjórnarsáttmálin einfaldlega plagg um stefnu ríkisstjórnarinnar miðað við þá framtíðarsýn, sem menn hafa á því kjörtímabili, sem í hönd fer. Þegar sú framtíðarsýn reynist ekki rétt, svo ekki sé talað um þegar hún hreinlega hrynur eins og hér hefur gerst þá þurfa menn að ræða um það hvernig menn taka á því. Við slíkar aðstæður er sjálfsagður hlutur að taka stjórnarsáttmálan til endurskoðunar og tala um hluti, sem ekki er þar að finna eða tala um að hætta við að gera eitthvað, sem er í stjórnarsáttmálanum.
Í öðru lagi er ekkert að því að einstaka ráðherrar virði þær skoðanir sínar, sem ráðherrar, að þeir vildu gera hlutina öðruvísi en um er kveðið í stjórnarsáttmálanum. Það er allt annað en að raunverulega framkvæma eitthvað gegn stjórnarsáttmálanum án þess að semja um slíkt við samstarfsflokkin eða samstarfsflokkana. Ráðherrar hafa líka skoðanafrelsi eins og aðrir og það meira að segja þegar þeir koma fram, sem ráðherrar.
Ég hef ekki trú á því að þessi stjórn springi áður en við höfum komist fyrir vind í því krísuástandi, sem við búum við núna. Til þess held ég að báðir stjórnarflokkarnir séu of ábyrgir. Ég sé hvorugan þeirra fyrir mér bæta stjórnarkreppu ofan á bankakreppu. Hins vegar get ég alveg séð það fyrir mér þegar við erum komin fyrir vind að deilan um ESB geti farið að reyna verulega á þetta stjórnarsamstarf ef Sjálfstæðismenn vilja ekki einu sinni ræða það hvort breyttar aðstæður kalli á breytta afstöðu til ESB aðildar.
Sigurður M Grétarsson, 27.10.2008 kl. 18:07
Sigurður, það má vel vera að endurskoða þurfi stjórnarsáttmálann og vonandi verður það gert. En meðan hann er í gildi, eiga ráðherrar að tala miðað við hann, þegar þeir koma fram sem ráðherrar.
Hvað þeir gera þegar þeir eru ekki að tala sem ráðherrar er annað mál. Þar eru þeir frjálsari.
Vonandi verður ekki stjórnarkreppa í kjölfar bankakreppunar
Gestur Guðjónsson, 27.10.2008 kl. 20:50
Ég sé einfaldlega ekkert að því þegar allar forsehndur fyrir stjórnarsáttmála eru komnar í uppnám að ráðherrar ræði það opinberlega hvernnig þeir telji að bregðast skuli við því þó ekki sé búið að breyta stjórnarsáttmálanum, sem slíkum.
Jafnvel þó svo sé ekki er ekkert að því að ráðherrar segi frá þeim skoðunum sínum að þeir telji að gera þurfi annað en stjórnarsáttmálin segir svo fremi, sem þeir fari eftir honum í sínum stjórnarathöfnum. Stjórnarsáttmáli er engin stjórnarskrá. Ráðherrar hafa málfrelsi eins og aðrir. Það er einfaldlega ekkert að því að þeir telji að það eigi að gera eitthvað þó það sé ekki í stjórnarsáttmálanum að gera það.
Sigurður M Grétarsson, 27.10.2008 kl. 23:01
held að við verðum að vera sammála um að vera ósammála um þetta atriði. Ég tel einfaldlega að þegnar landsins og önnur lönd þurfi að vita hvar þau hafa stjórnvöld, hvert þau stefni og hvað sé í vændum.
Þegar menn geta ekki farið að einföldustu fundarsköpum verður fundir að hreinu fuglabjargi og ekkert kemur út úr slíku nema pirringur.
Það sama á við um stjórnskipun landsins og þar með ríkisstjórn.
Gestur Guðjónsson, 27.10.2008 kl. 23:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.