Íhaldið á móti breytingum
2.4.2009 | 13:33
Þegar Ísland fékk fyrsta ráðherrann, íhaldsmanninn Hannes Hafstein, árið 1904 fluttist framkvæmdavaldið úr höllum Kaupmannahafnar í heldur íburðarminni húsakynni í Reykjavík.
Valdið fór aldrei lengra. Almenningur hefur síðan þá þurft að leita til Reykjavíkur í stað Kaupmannahafnar, sem er að vísu styttra í burtu, en sjálfsákvörðunarrétturinn er eftir sem áður jafn lítill fyrir almenning.
Þrátt fyrir fullveldið 1918 og stofnun lýðveldisins 1944 hefur stjórnarskrá Danmerkur frá 1874 ekki breyst í neinum meginatriðum, meðan að Danir hafa breytt sinni stjórnarskrá verulega í átt til aukins lýðræðis. Sjálfstæðismenn hafa ætíð séð til þess að þær stjórnarskrárnefndir sem skipaðar hafa verið hafi ekki komist að neinum niðurstöðum um breytingar, nema á smávægilegum tækniatriðum og atriðum sem í raun var skylda að taka upp vegna alþjóðasáttmála.
Það er Sjálfstæðismönnum nefnilega þóknanlegt að hafa óbreytta þá valdstjórn framkvæmdavaldsins og óbreytt fyrirkomulag dómstóla sem þeir hafa skipað í síðustu áratugi og því berjast þeir með oddi og egg gegn öllum breytingum á stjórnarskránni, því það er ógnun við þá valdastöðu sem íhaldsmenn fengu í formi þeirrar embættismannastéttar sem komið var á fót í upphafi síðustu aldar.
Það er í því ljósi sem horfa verður á málflutnings íhaldsins í þessu máli.
Vilja vísa stjórnarskrármáli frá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Gestur, þú ert alveg úti á túni.
Maður kemur ekki með svona fullyrðingar án þess að rökstyðja þær. Hvað er svona ólýðræðislegt í stjórnarskrá Íslands, sem sjálfstæðismenn vilja standa vörð um? Hvaða "paranoia" er þetta í gangi í garð sjálfstæðismanna?
Hvaða söguskýringar ert þú að bera á borð hérna? Í upphafi síðustu aldar snerist málið um hvort framkvæmdavaldið flyttist heim eða væri áfram í Kaupmannahöfn. Hannes og hans menn börðust fyrir því fyrra. Valtýr og félagar vildu hafa það í Danmörku. Þú hefðir kannske fyllt þann flokk á sínum tíma.
Svo hefur stjórnarskráin gengið í gegnum ýmsar breytingar. Þó það sé vissulega tímabært að skoða hana.
Ég endurtek það ég hef sagt á mínu eigin vefriti:
"Stjórnarskráin eru þau lög sem öll önnur lög byggja á. Stjórnarskráin er sá öryggisloki sem kemur í veg fyrir að hægt sé með lagasetningu að ráðast gegn þeim grundvallarmannréttindum og lögmálum sem samfélagið byggir á.
Þess vegna á að vera erfitt og tímafrekt að breyta stjórnarskránni. Sama hvað manni kann að finnast breytingarnar tímabærar, góðar og réttmætar. Það má ekki flana að neinu þegar jafn mikilvægt mál og stjórnarskráin sjálf er til umfjöllunar. Ef stjórnarskrábreytingar væru einfaldar og fljótgerðar er hætt við að ýmislegt gæti gerst í hita augnabliksins.
Þess vegna má ekki kasta til höndunum með umrætt stjórnarskrárfrumvarp."
Emil Örn Kristjánsson, 2.4.2009 kl. 14:39
Jæja,
Hvar hafa framsóknarmenn verið sl. ár? Hversu lengi hafið þið verið við völd og hvað hafið þið ágætu menn ekki gert öll þau ár sem þið hafi verið í ríkisstjórn?
Lokst, Gestur, hverjir voru á móti kjördæmabreytingunni 1959 og jöfnun atkvæðisréttar?
Spyr sá sem ekki veit.
Jónas Egilsson, 2.4.2009 kl. 16:04
Framsóknarmenn vita að hlutirnir hafa ekki verið í lagi og einmitt þess vegna vilja þeir breyta því og halda stjórnlagaþing til að setja þjóðinni nýja stjórnaskrá.
Gestur Guðjónsson, 3.4.2009 kl. 10:17
Gott mál Gestur.
Hins vegar verður að spyrja að forggangi mála nú á meðan 18 þús. manns eru án atvinnu, fyrirtækin rúlla sem aldrei fyrr, bankarnir lána ekki, stýrivextir ALLTOF háir og hafa verið það lengi (v. kolrangrar peningastefnu SÍ) o.s.frv. Hvar er aðgerðarstjórnin sem ætlaði að hafa heimilin og atvinnutækifærin í forgangi?
Þið Framsóknarmenn og þú sjálfur þar með talinn, hafið sakað ríkisstjórnina um aðgerðaleysi og bætið gráu ofan á svart með þessari stjórnarskrár umræðu. Þið gefið eftir "skuldaafsláttinn" sem þið settuð fram og hefði getað hleypt hjólnum af stað á nýjan leik. Þetta er að gerast í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hjólin eru farin að snúast þar aftur.
Ábyrgð ykkar Framsóknarmanna er mikil.
Jónas Egilsson, 3.4.2009 kl. 11:16
Jónas Ábyrgð okkar er mikil, sömuleiðis Sjálfstæðismanna og annarra sem á Alþingi sitja. Stjórnlagaþing myndi einmitt gefa Alþingi starfsfrið að sjá um viðbrögðin við efnahagshruninu og uppbyggingunni meðan Stjórnlagaþing færi yfir grundvallarlöggjöfina.
Gestur Guðjónsson, 4.4.2009 kl. 11:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.