Sala Landsvirkjunnar kemur ekki til greina

Landsvirkjun hefur ekki greitt raunverulegt gjald, auðlindagjald, fyrir sín virkjanaleyfi enda hefur verið víðtæk sátt um að afl stóru fossanna sé þjóðareign og eigi þeir að mala allri þjóðinni gull . Sama mætti segja um háhitann, hann eigi að blása í sín hljóðfæri, almenningi til heilla.

En þegar farið er að fjalla um sölu á Landsvirkjun til einkaaðila vaknar fjöldin allur af spurningum. Er eðlilegt að sumir einkaaðilar en ekki aðrir eigi að njóta þess að eiga í fyrirtæki sem nýtur ríkisábyrgðar á lánum, eða er ætlunin að Landsvirkjun fjármagni sig upp á nýtt án ríkisábyrgðar? Er víst að Landsvirkjun sé eins aðbært fyrirtæki án ríkisábyrðar á lánum? Hvað ætli fáist fyrir Landsvirkjun þá?

Er eðlilegt að einkaaðilar fái afhentan hlut í auðlindum sem eru í dag sameign þjóðarinnar? Nóg hefur verið fjallað um aðgengið að fisknum í sjónum, sem þó er auðlind sem einkaaðilar gerðu að þeim verðmætum sem hún er með atorku sinni og var úthlutað með hefðarréttinn að leiðarljósi við upptöku kvótakerfisins. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða.

Á hvaða verði á að verðleggja virkjanaheimildirnar svo sanngjarnt sé? Er rétt að miða við verðmæti þeirra tímabundnu orkusölusamninga sem eru í gildi í dag? Hvað ef hrein sjálfbær orka hækkar enn frekar í verði í kjölfar næsta skuldbindingatímabils Kyotobókunarinar? Hvað ef nýir orkugjafar finnast og orkuverð hrynur? Hvað ef kjarnorka verður bönnuð á alþjóðavísu í kjölfar einhvers hörmulegs slyss? Hvers virði er það land og þau náttúruvætti sem fórnað hefur verið fyrir þessa orku? Hver á að meta það og á hvaða forsendum? Hvernig á að endurmeta eignarnám sem gert hefur verið hingað til á grundvelli almannahagsmuna sem yrðu einkahagsmunir við sölu?

Það er alveg ljóst að stór hluti verðmæta Landsvirkjunnar og í rauninni tilvist fyrirtækisins er fólgin í því að það er og hefur verið almannafyrirtæki sem hefur í krafti almannahagsmuna haft aðgengi að náttúrunni með allt öðrum hætti en einkafyrirtæki hefði nokkurn tíma haft og verður ekki séð annað en að fjármálaráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn verður að útskýra sitt mál mun betur áður en hugsanlega verður hugað að því að halda lengra á þeirri braut sem varaformaður flokksins hefur lýst.

Vanti Landsvirkjun fé og vanti lífeyrissjóðina fjárfestingakosti, er hægur leikur fyrir Landsvirkjun að gefa út skuldabréf til þeirra. Það nær markmiðum fjármálaráðherra án þess að fórna gullgæs þjóðarinnar. 


mbl.is Vill skoða sölu á hlut í Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgi Bjartrar framtíðar

Það er áhugavert að skoða hvaðan fylgi hinna einstöku flokka er að koma og af hverju. Eðlilega er meirihluti kjósenda ekki mikið að færa sig á milli flokka, enda hlýtur einhver einn flokkur að standa best eða oftast fyrir þær lífsskoðanir sem kjósandinn hefur.

Í einhverjum tilfellum kjósa menn samt aðra flokka en lífsskoðanaflokk sinn. Þá m.a. vegna persóna í öðrum flokkum sem þeir heillast af eða að einhver í eigin flokki hugnast ekki viðkomandi. Einnig getur slíkt framhjáhald verið refsing vegna frammistöðu flokksins.

Þegar fylgi Bjartrar framtíðar, míns flokks, er skoðað, sést að umtalsverður hluti þess kemur frá Samfylkingunni. Það hefur verið túlkað sem svo að Björt framtíð sá krataflokkur, sem hann er ekki. Björt framtíð er frjálslyndur flokkur, sem okkur hefur þótt vanta í íslensk stjórnmál. Sést þetta kannski best á því að íhaldið, kratar og framsókn hafa fyrir kosningar klætt sig í frjálslynd föt til að ná í þessa landlausu kjósendur, verandi nokkur vissir um sitt grunnfylgi.  

Evrópuáherslur Samfylkingarinnar hafa líklegast valdið því að margir þessara kjósenda hafa endað með að kjósa þann flokk í fyrri kosningum, enda alþjóðasamvinna órjúfanlegur hluti frjálslyndis. Einnig eru frelsi og svigrúm grundvallarhugtök frjálslyndis, svo ætla mætti að margt frjálslynt fólk sé einnig í Sjálfstæðisflokknum, sem var stofnaður við sameiningu íhaldsflokksins og frjálslynda flokksins á sínum tíma. Einnig er margt frjálslynt fólk í Framsókn, sem hefur snúist í grundvallaratriðum frá frjálslyndi frá 2009, en sá flokkur missti talsvert af því fylgi yfir til Samfylkingar í síðustu kosningum, svo minna fór beint á Bjarta framtíð af Framsókn en annars hefði verið, sem og að fylgisaukning Framsóknar letur fólk eðlilega við að skipta um flokk. 

En frjálslynda fylgið hefur sem sagt verið víða og er enn, svo vaxtarmöguleikar Bjartrar framtíðar eru umtalsverðir, en aðalatriðið fyrir Bjarta framtíð er að halda áfram að vera sönn í frjálslyndinu, alveg eins og hinir flokkarnir eiga að einbeita sér að því að vera góðir jafnaðarmannaflokkar, íhaldsflokkar og sólsíalistaflokkar

 


Vinnulag við fjárlagagerð

Það er með öllu ólíðandi að fyrirtæki og einstaklingar þurfi að bíða fram að áramótum til að vita hvað gera eigi ráð fyrir í skattheimtu, þegar fjárlög eru samþykkt.

Ábyrg fyrirtæki eru löngu búin að gera allar áætlanir fyrir komandi ár, og ef óvissuþættirnir eru miklir, verður að skilja eftir afgang til að mæta óvæntum útgjöldum.  Eins og breytingar á mörkuðum og gengisáhætta væri ekki nóg, þá er ríkið með sínum vinnubrögðum að bæta enn á óvissuna.

Öll óvissa dregur úr fjárfestingu og hækkar verðlag og vexti sem er jú mælikvarðinn á áhættuna í samfélaginu.

Þessu verður að breyta og á Alþingi að ganga frá tekjuöflun komandi árs að vori. Um leið yrði dýpri og einbeittari umræða um efnahagsmál, þar sem útdeilding gæða og barátta fyrir óskalista færi fram síðar. Þá er líka vitað hver ramminn um útgjöldin er fyrir komandi ár og ekki hægt að freistast til að láta undan útgjaldaþrýstingi með hækkun skatta.

Sömuleiðis verður ríkið að gera það sem það hefur þegar skikkað sveitarfélögin að gera, það er að vinna langtímafjárhagsáætlun.

Allt minnkar þetta vesen og sóun og gerir hlutina einfaldari og hagkvæmari.

Vilji er allt sem þarf. 


Landsbyggðaskattur

Segjum sem svo að ríkinu sé fært að sækja fé í þrotabú bankanna.

Þá er ekki hægt að segja annað en að það sé skattfé.

Segjum svo aftur sem svo að farið verði í skuldaleiðréttingar og stórum hluta eða öllu af því fé verði nýtt í þær, en ekki í niðurgreiðslu ríkisskulda og innviðauppbyggingu.

Þá verður þessum skatti útdeilt á SV horninu að langmestu leiti.

Þannig að þessi ráðstöfun er klárlega landsbyggðaskattur 


Verðbólguleiðin?

Flöt niðurfærsla skulda er í raun peningaprentun, sem kemur til baka sem verðbólga, því eitthvað þurfa lánveitendurnir sem fá greitt inn á höfuðstólana að gera við uppgreiðsluféð. Það getur ekki endað annarsstaðar en úti í hagkerfinu, sem er lokað og þegar uppfullt af peningum án verkefna. Verðbólgan kemur svo verst við þá sem síst skyldi, launþega og þá sem skulda verðtryggt, sem aðgerðin var jú einmitt ætluð sérstaklega!
 
Fyrir þá sem skulda verðtryggt, er huggun í því að vita að húsnæðisverðið mun koma upp, enda er það sterklega tengt byggingakostnaði sem aftur er ágætlega lýst í vísitölunni.
Þannig að það er stóra verkefnið að gera fólki kleyft að standa í skilum.
 
Bráðavandinn er sem sagt greiðsluvandi, en skuldavandinn er langtímavandi sem best er átt við með stöðugleika og nothæfri mynt.
 
Þannig að ef það er virkilega hægt að gera sér mat úr snjóhengjunni, verða menn að spyrja sig hvort rétt sé að nýta hann í skuldaniðurfærslu, frekar en lækkun skulda ríkisins eða í verkefni tengdum innviðum eða t.d. Landspítalabyggingu. Svona einskiptisinnkomu á ekki að nota í rekstur, heldur fjárfestingu.
 
Ég er í það minnsta mest umhugað um stöðugleikann. 

Blindir og vanhæfir gullkálfsdansarar

Í miðju Landsdómsmálinu þykir mér tvennt standa uppúr: blindni og vanhæfi.

Það væri freistandi að segja að allir hafi verið blindir og látið glepjast og allir hafi verið vanhæfir i ljósi þess að heimsmyndin sem búið var að byggja upp í kringum gullkálfinn var byggð á sandi.

Nei. Flest allt af því sem aflaga fór er afleiðing af því að bankarnir héldu lánshæfismati sínu við einkavæðinguna, bankarnir voru metnir sem væru þeir enn ríkisbankar. Í raun skipti ekki máli hverjum bankarnir voru seldir, fyrir hvaða verð eða hvort yfirhöfuð hafi verið greitt fyrir þá. Sú vitfirring sem nú er komið í ljós að hafi grasserað í bönkunum hefði náð að skjóta rótum, svo lengi sem lánveitendur, fullir af lausafé sem þurfti að koma í vinnu, höfðu trú á þeim í krafti lánshæfismatsins og veittu nánast ótakmarkað lánsfé. Sú blindni sem geislar gullsins sló samfélagið hefði aldrei orðið, hefðu bankamennirnir þurft að ávinna sér traust á hefðbundinn hátt, hefðu þeir einfaldlega þurft að standa sig á eigin verðleikum.

Hitt sem stendur upp úr í mínum huga, en er þó ekki afgerandi, er opinberun vanhæfis Davíðs Oddssonar sem Seðlabankastjóra. Farsæll stjórnmálaferill, orðheppni, sjálfstraust, ákveðni og sterk nánd gerðu það að verkum að samstarfsmenn hans virðast ekki hafa náð að hemja hann, lögfræðinginn, við stjórn Seðlabankans.

Ef sakast ætti við Geir Haarde fyrir nokkurn hlut, væri það að halda hlífiskyldi yfir Davíð, en það er samt ekki orsakavaldur hrunsins og getur seint verið refsivert, heldur varð það bara til að auka áfall ríkissjóðs í hruninu vegna óskynsamlegra ákvarðana sem engin virðist hafa þorað að mótmæla, þ.e. Glitnisyfirtakan og Kaupingslánveitingin.

Svo er bara fyndið eða kannski frekar hjákátlegt hversu allir þykjast nú hafa séð hrunið fyrir í ljósi aðgerðarleysis þeirra og áframhaldandi lánveitinga.


mbl.is Össur: Davíð taldi þá glæpamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver verða eftirmál þingsályktunartillögunnar?

Nú liggur fyrir að Alþingi mun taka afstöðu til þess hvort draga eigi ákæru á hendur Geir H Haarde til baka.

Verði ályktunin samþykkt og ákæran dregin til baka, mun það valda miklum viðbrögðum í samfélaginu, sagt verður að stjórnmálastéttin verndi sjálfa sig og ekki kæmi mér á óvart að mótmæli brytust út í framhaldinu. Staða Geirs og hinna ráðherrana sem til stóð að ákæra yrði algerlega í lausu lofti. Í raun var hann sviptur ærunni með því að ákæra hann, en það er erfitt að sjá að afturköllun ákærunnar muni gefa honum hana aftur.

Verði ályktunin felld, eru Alþingismenn komnir í athyglisverða stöðu, sérstaklega þeir sem skipt hafa um skoðun í málinu. Veltur það á því hvort Geir verður fundinn sekur eða verði sýkn saka.

Verði Geir sýknaður, verða þeir sem vildu ákæra ásakaðir um að hafa ástundað nornaveiðar. Það er reyndar svo stór hópur að það mun líklegast ekki hafa mikil áhrif á einstaka þingmenn. Hin þrjú sem undir voru í upphafi eru þá líklegast laus allra mála.

Verði Geir fundinn sekur eru þeir sem skipta um skoðun í verulega vondum málum sem og þeir sem greiddu atkvæði taktískt í upphafi, þeir Helgi Hjörvar og Skúli Helgason. Um leið verður staða Ingibjargar Sólrúnar, Árna Mathiesen og Björgvins G Sigurðssona afar afkáraleg. Þau hafa ekki getað svarað til saka, ekki varið sig, komið með málsbætur, en verða óhjákvæmilega dæmd um leið, í hugum fólks. Með réttu eða röngu.

Reyndar tel ég líklegast að Landsdómur mun telja Geir hafa sýnt vanrækslu, hann muni fá ákúrur fyrir vanrækslu. Hvort Landsdómur meti að hann hafi sýnt af sér refsivert athæfi veit ég ekki, tel það ólíklegt. Þar með verður dómurinn ekki til þess að setja niður né gera upp stjórnmálalegan hluta hrunsins, heldur enn eitt eldsneytið í umræðubálið og þau hin þrjú í rauninni í sömu eða svipaðri stöðu.

En vonin er kannski að Landsdómur komi með vel rökstuddan dóm, sem getur leiðbeint samfélaginu við að gera upp hina stjórnmálalegu hlið hrunsins, vel stutt rannsóknarskýrslu Alþingis.


mbl.is Frávísun felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hengjum ekki bakara fyrir smið

Í þessu saltmáli mega menn ekki missa sjónar á aðalatriðum og enda á því að hengja bakara fyrir smið

Ábyrgðin er fyrst matvælafyrirtækjanna sem notuðu saltið.

Varan er greinilega merkt iðnaðarsalt, ef myndir sem birtar hafa verið í fjölmiðlum eru réttar, þannig að í móttökueftirliti matvælafyrirtækjanna ætti þetta að uppgötvast, hafi þeir sem pöntuðu fyrir viðkomandi fyrirtækis klikkað í innkaupum.

Ölgerðin ber fyrst ábyrgð, hafi hún afgreitt þetta salt sem annað en það sem það er. Þar hlýtur lýsing á reikningi að vera skýr. Merkingar vörunnar eru amk alveg skýrar, séu myndir sem birtar hafa verið í fjölmiðlum af viðkomandi vöru.

Eftirlitsaðilum er ekki ætlað að finna svona lagað. Þeim er ætlað að fylgjast með því að fyrirtækin hafi kerfi sem uppgötva svona lagað.

Ef umræðan spinnst upp í að menn fari fram á að eftirlitsaðilar nái að koma í veg fyrir svona lagað í sínu eftirliti, hvernig samfélag yrði það, hvaða heimildir þyrftu eftirlitaðilarnir að hafa, hversu marga starfsmenn þyrfti til að sinna því eftirliti og hversu mikið myndi það kosta?

Viljum við búa í samfélagi þar sem eftirlitsiðnaðurinn nær öllum svona málum?

Nei.


mbl.is MS innkallar fimm vörutegundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangtúlkun Jóhönnu og Samfylkingarinnar á Rannsóknarnefndarskýrslunni

Sífellt og endalaust tönglast Jóhanna Sigurðardóttir á því að ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir hrunið eftir 2006.

Þetta er ekki rétt. Rannsóknarnefnd Alþingis segir:

"Þegar bankakerfið var orðið allt of stórt miðað við stærð íslensks hagkerfis þurftu stjórnvöld að bregðast við. Grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi á árinu 2006 til þess að eiga möguleika á að koma í veg fyrir fall bankanna án þess að það kæmi verulega niður á verðmæti eigna þeirra."

Þetta er það eina sem nefndin segir. Hún segir hvergi að því að ég best veit, að ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir hrunið eftir árið 2006.

Á þetta hengir Jóhanna sig á að ábyrgð hrunsins sé alfarið á höndum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Engin rök hef ég heyrt frá henni. Bara þessa röngu fullyrðingu.


mbl.is Ekki sammála Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegar nornaveiðar í gúrkutíð

Á Íslandi er þingræði, sem byggir á þrískiptingu valds, löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds.

Gegnir hver afar mikilvægu hlutverki. Löggjafinn að móta stefnu í gegnum lagasetningu og aðrar ákvarðanir eins og þingsályktunartillögur, þám að ákvarða skatta og ákveða meðhöndlun opinbers fjár, sem framkvæmdavaldið svo framkvæmir samkvæmt laganna hljóðan. Ef upp kemur ágreiningur um túlkun laga sem löggjafinn setur, kemur svo til kasta dómstóla.

Sjálfstæði hvers hluta frá hinum er afar mikilvægt, enda ekki á annan betri hátt hægt að sporna gegn spillingu og gerræði ríkisvaldsins.

Það er það sem Gylfi Magnússon reyndi að gera í sínu svari, að halda sig við sitt hlutverk sem hluta framkvæmdavaldsins og halda sig frá því að gera eitthvað sem er dómsvaldsins.

Hann gerði það klaufalega, en fyrirspyrjandinn, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem kjörin er á löggjafarsamkomuna, virðist ekki bera gæfa til að virða þessa grundvallar hlutverkaskiptingu ríkisvaldsins, með því yfirhöfuð að spyrja ráðherra út í hugsanlegt lögmæti samninga milli aðila úti í bæ.

Í rauninni er verið að ýta undir og hvetja til gerræðis ráðherranna með því að ætla þeim að kveða upp þá úrskurði sem fyrirspyrjandinn óskaði eftir.

Það getur ekki vitað á gott.


mbl.is Segir Gylfa hafa afvegaleitt þingið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband