Orð dagsins...

...á Óskar Hrafn Þorvaldsson, ritstjóri Vísis:

"Ég harma rangfærslur í fréttinni, sem voru hafðar eftir heimildarmönnum í góðri trú, og bið lesendur sem og það fólk sem var til umfjöllunar í fréttinni velvirðingar á þeim."

Þetta mætti sjást oftar, en þó mætti frekar vera færri tilefni til yfirlýsinga, sem margir gætu orðað nákvæmlega eins og Jón Ásgeir Jóhannesson:

"Uppistaðan í fréttinni er röng og önnur atriði ónákvæm og hún var mér skaðleg. Ekki var haft samband við mig til að staðreyna atriðin í fréttinni, né heldur neinn af starfsfólki mínu og enginn nafngreindur heimildamaður er nefndur. Ég átel fréttaflutning af þessum toga."

Vonandi hefur eignarhaldið á fjölmiðlinum ekkert með þessi virðingarverðu vinnubrögð ritstjórans að gera...


Nýjasta æðið hjá þeim nýríku

Veit ekki hvort þetta er satt, en mér finnst þetta of hlægilegt til að sitja á því.

Þeir nýríku eru stöðugt í blöðunum vegna spjátrungskeppna sinna um flottustu bílana, húsin, snekkjurnar, þoturnar og þyrlurnar. Enginn nýríkur er maður með mönnum öðruvísi en að hafa einkaþjálfara á launum. Það er svosem gott og blessað, enda þurfa menn að vera í formi til að geta notið lystisemdanna.

En í framhaldi af því hefur nýjasta keppnisgreinin bæst við, en það er keppnin um það hver er með hraustasta einkaþjálfarann í sinni þjónustu. Segir sagan að þeir láti einkaþjálfarana sína keppa í hinum ýmsustu greinum til að komast að sannleikanum í því máli og dragi þjálfararnir ekkert af sér í því sambandi!

Hvað ætli verði næst...?


Er Þórunn Sveinbjarnardóttir að koma sér undan erfiðum ákvörðunum?

Mig rak í rogastans þegar ég heyrði í fréttum RÚV að Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sé efins um virkjanir í neðri hluta Þjórsár.

Er hún ekki þar með orðin vanhæf til að taka stjórnvaldsákvarðanir varðandi þessi virkjanaáform?

Það væri ekki mikill pólitískur kjarkur sem það sýndi, ef rétt er, enda hélt ég að hún ætlaði sér að vera vaktmaður náttúrunnar í sínu embætti. En hún virðist vera að dæma sjálfa sig úr leik áður en að stórum ákvörðunum kæmi um framkvæmdirnar svo líklegast er hún að koma sér undan því að verða undir í ríkisstjórn og losna um leið við þann stimpil sem slíkum ákvörðunum fylgdi.


Herferð farin af stað gegn forseta vorum.

Maður hlýtur að spyrja sig af hverju Morgunblaðið og hliðarblöð þess séu nú að velta sér upp úr málefnum forsetaembættisins og leggja málin upp með þessum hætti. Ég get ekki séð annað en að þetta sé hrein herferð í kjölfar tilkynningar Ólafs Ragnars Grímssonar um að hann sæktist eftir endurkjöri. Ef umræðan væri af eðlilegum hvötum runnin hefði hún átt að koma upp í tengslum við fjárlagagerðina, en ekki núna þegar búið er að samþykkja þau.

Það er afar eðlilegt að forsetinn kosti meira núna en áður. Ólafur hefur verið afar duglegur að kynna land og þjóð á alþjóðavettvangi. Mér er til efs að rekstraraðilar netþjónabúa væru á leiðinni hingað ef aðkomu hans hefði ekki notið við. Það eitt borgar þessar 31 milljón sem rekstrarkostnaðurinn hefur aukist, þ.e. ef 1995 hefur verið dæmigert ár fyrir reksturinn meðan frú Vigdís Finnbogadóttir gegndi embættinu.

Kannski hefur þessi dugnaður hans komið niður á heimabrúki embættisins, en ég hef ekki orðið var við annað en að hann sé bara talsvert áberandi í samfélagsmyndinni innanlands og sá stöðugleiki sem hefur verið við stjórn landsins þann tíma sem hann hefur gegn embættinu hefur heldur ekki bundið hann mikið heima.

Forsetaembættið er þjóðinni mikilvægt sem sameiningartákn og málsvari hennar út á við og ef þjóðin hefur einhverja sjálfsvirðingu, verður hún að standa myndarlega að embættinu. Gildir einu hvaða einstaklingur gegnir því. Er þessi herferð Morgunblaðsins og margra Sjálfstæðismanna gegn persónunni Ólafi Ragnari Grímssyni bein árás á það embætti sem hann gegnir og þeim sjálfum til skammar.


mbl.is Æ dýrara í rekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaldhæðni hafnfirskra örlaga

Það er skondið til þess að hugsa að um það bil sem að farið verður að virkja á bestu staðsetningu fyrir osmósuvirkjun á landinu, lokar stór orkunotandi á sama stað, en fram hjá álverinu í Straumsvík rennur einn stærsti grunnvatnsstraumur landsins til sjávar. Hreint vatn sem hægt er að setja nær óhreinsað í osmósuvirkjun, meðan að fara þarf í mikla og dýra hreinsun ef jökulvatn Þjórsár eða Ölfusár yrði virkjað með þessari tækni.


mbl.is Ný virkjunarleið á teikniborðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðuveitingar

Ég vil óska vinkonu minni og sveitunga Sigríði Pétursdóttur á Ólafsvöllum hjartanlega til hamingju með að hafa hlotið fálkaorðuna. Sigríður á að öðrum ólöstuðum lang stærstan hlut í því að hinn íslenski fjárhundur dó ekki út, ræktaði fjölda hunda sem dreifðust um allt land. Er stofninn nú í góðu ástandi í dag. Er hún því vel að viðurkenningunni komin.

Annars hefði ég endilega viljað að forsetaembættið gæfi út stutta kynningu á því starfi sem hver og einn hefur innt af hendi, bara við hin getum dáðst að þeim og samglaðst, því annars er alltaf hætt við að öfundarraddir fá of mikinn hljómgrunn.


Áramótakveðjur

Ég óska öllum nær og fjær gleðilegs nýs ár með þökkum fyrir það gamla, eða eins og áramótaskaupið orðaði það:

Blogg, blogg, blogg, blogg, blogg, blogg, blogg, blogg, blogg, blogg, árið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband