Orð dagsins...

... á Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þegar hún sagði í Kryddsíldinni áðan að Samfylkingin hafi aldrei skilgreint sig sem höfuðandstæðing Sjálfstæðisflokksins. Mig er greinilega að misminna eitthvað inntak Borgarnesræða hennar og upphafsfyrirheit Samfylkingarinnar.

Þetta slær út þau ummæli Geirs H Haarde um að hann voni að efnahagslífið fari að fara á betri veg.

Finnst samt Ingibjörg Sólrún skuldi landsmönnum skýringu á því á hvaða tímapunkti hún telji viðræður um samstarf teljist stjórnarmyndunarviðræður og hvenær þær séu það ekki.


Orð dagsins...

... á Hanna Birna Kristjánsdóttir í Silfri Egils áðan, þegar hún kannast ekkert við klofning hjá íhaldinu en minnti jafnframt á að sexmenningarnir hafi komið úr báðum örmum flokksins.

Þetta slær út næst bestu orð dagsins, sem hún átti sjálf þegar hún sagði að það hefði aldrei hvarflað að henni að meirihlutinn myndi springa, jafnvel þótt hún segði stuttu síðar að á sama tíma hefðu verið ýmsar þreifingar í gangi...


Er gjaldmiðilsumræðan að færast á vitrænt plan?

Það er allrar athygli vert að lesa viðtöl við viðskiptaforkólfa þessa dagana. Telja þeir inngöngu í ESB ekki fýsilegan kost, en um leið telja þeir krónuna ekki á vetur setjandi. Ég merki þáttaskil í yfirlýsingum þeirra.

Þetta er afar líkt þeim málflutningi sem við Framsóknarmenn höfum haldið uppi undanfarin ár. Innan flokksins hefur verið rætt um kosti og galla, innan og utan ESB, upptöku evru eða annarra mynta. Umfram allt hefur verið ljóst að slíkar ákvarðanir eigi að taka í styrkleika okkar en ekki í flótta, uppgjöf og ákvarðanatökufælni, eins og maður hefur upplifað málflutning Samfylkingarinnar, en um leið verður að ræða málin af fullri eindrægni, öfugt á við íhaldið og VG.

Það væri mikil fórn sú fórn á fullveldinu sem innganga í ESB væri og afsal á mörgum möguleikum á alþjóðavettvangi og ef tilgangurinn væri sá einn að nýta stöðugleika myntkerfis ESB, Evrunnar, eru fleiri möguleikar en að taka hana upp. Tökum sem dæmi Dani, sem hafa bundið sína mynt við Evru, áður þýska Markið í áratugi og farnast vel með það fyrirkomulag. Ef okkur hentaði ekki það fyrirkomulag lengur eða vildum skipta um mynt hefðum við alla möguleika á að breyta því ef við kysum svo.

Hægt væri að "teika" svissneskan Franka, Dollar, Pund.

Það er á einhverjum svona nótum sem ég teldi farsælast að umræðan færi að þróast og vonandi marka þessi ummæli forkólfanna upphaf þeirrar umræðu á víðum grundvelli.

En umfram allt er ljóst að fyrst þarf að ná stöðugleika í efnahagsmálum, áður en menn geta leyft sér að hugsa til ákvarðanatöku sem þessarar. Því miður virðist núverandi ríkisstjórn ekki vera nægjanlega samlynd til að hún megni það.


Ef björgunarsveitirnar hefðu einkaleyfi á flugeldasölu

...sem mér þætti eðlilegt, væri hægt að koma með svona hugmyndir. En meðan að björgunarsveitirnar þurfa að eiga í samkeppni við íþróttafélög, sem hafa einkaleyfi á lottó og getraunum og fyrirtækjum og einstaklingum, er frekja af verstu sort að ætla þeim að standa einum í því að hreinsa til.
mbl.is Skorað á björgunarsveitirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð í tíma töluð...

Í ágætum pistli sínum kemst Davíð Þór Jónsson svo að orði:

"Hinir göfugu gefa ekki lengur ölmusu þannig að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir, heldur sem fermetrastórar ávísanir á síðum blaða, til að almenningur sjái gæsku þeirra og fyrirgefi þeim okrið og svindlið."

Sem betur fer er þetta ekki algilt, því eðli málsins samkvæmt heyrir maður ekki um hina sem ekki láta taka myndir af sér. Mæli með lesningu pistilsins alls, en hann er að finna á heimasíðu hér


Gleðilega jólahátíð

Þeim sem álpast hingað inn óska ég gleðilegra jóla, með frið í hjarta og sál.

Breyta þarf fyrirkomulagi við skipan dómara

Skipan dómara, sérstaklega hæstaréttadómara, verður að vera hafin yfir allan vafa og almenn sátt þarf að ríkja um ferlið allt.

Ég teldi eðlilegast, þar sem það er Alþingi sem setur þau lög sem dómstólarnir dæma eftir, sé það Alþingi sem hafi síðasta orðið um ráðningu þeirra. Væri hægt að hugsa sér að Alþingi þurfi, með auknum meirihluta, að staðfesta tillögu ráðherra um hver skuli valinn hverju sinni, að fenginni umsögn dómstólanna sjálfra.

Dómstólarnir mega að mínu mati ekki velja sjálfir hverjir koma inn, því það gæti haft í för með sér "einræktun" skoðana innan hópsins og framkvæmdavaldið, sem oft er að lenda í því að þurfa að verjast eða sækja mál fyrir dómstólum, er af þeim sökum vanhæft til að taka þessa ákvörðun einhliða.

Því eru tveir kostir eftir, forsetinn og Alþingi. Ég tel litlar líkur á því að það verði friður um ákvörðun forsetans frekar en ráðherra og með auknum meirihluta þarf í lang flestum tilfellum að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um valið hverju sinni og til starfans veljast þar með menn sem eru óumdeildari en ella væru valdir.

En þar sem forsætisráðherra hefur slegið stjórnarskrárnefndina af, eru litlar líkur á að þessu verði breytt í bráð.


mbl.is Vill haldbetri rök fyrir dómaraskipun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskiljanleg stjórnsýsla í Hvalfjarðarsveit

Mikið hefur verið fjallað um geymslu bensíns í olíubirgðastöð Olíudreifingar í Hvalfirði í fjölmiðlum undanfarið. Hefur sú umræða verið afar einhliða og ósanngjörn.

Er því rétt að eftirfarandi sé til haga haldið:

Olíudreifing sótti um framkvæmdaleyfi til Hvalfjarðarsveitar fyrir breytingum á olíustöðinni, þannig að hægt væri að geyma bensín í henni.

Í tengslum við þá umsókn voru lagðar fram teikningar og greinargerð um framkvæmdirnar og öll öryggismál og umhverfismál stöðvarinnar, þám vöktun stöðvarinnar og mengunarvarnarbúnaði, fyrirbyggjandi ráðstafanir og viðbrögð við óhöppum.

Framkvæmdaleyfi var afgreitt af skipulags- og byggingarnefnd Hvalfjarðarsveitar þann 26. september og var til umfjöllunar í sveitarstjórn 2. október. Þar var óskað eftir frekari upplýsingum um jarðvegsþrær stöðvarinnar. Þær voru veittar og var framkvæmdaleyfi afgreitt á ný úr skipulags- og byggingarnefnd 10. október 2007 og staðfest af sveitarstjórn þann 23. október sl.

Sveitarstjórn hefur ekki óskað eftir því við Olíudreifingu ehf að fá upplýsingar um viðbragðsáætlanir félagsins og Olíudreifing hefur ekki frumkvæðisskyldu þar að lútandi. Munu viðbragðsáætlanir verða kynntar sveitarfélaginu, óski það þess.

Olíudreifing sótti, lögum samkvæmt, um breytingu á gildandi starfsleyfi til Umhverfisstofnunnar þannig að það innifæli einnig bensín. Starfsleyfisdrögin voru auglýst og óskað eftir athugasemdum. Auk þess voru þau send til umsagnar hjá heilbrigðisnefnd og sveitarfélaginu, venju samkvæmt.

Heilbrigðisnefnd Vesturlands gerði ekki athugasemd við drögin.

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd veitti Arnheiði Hjörleifsdóttur formanni nefndarinnar umboð til að skrifa umsögn um starfsleyfisdrögin og var sú umsögn samþykkt í sveitarstjórn þann 23. október sl. Umsögnin var hins vegar ekki kynnt Umhverfis- og náttúruverndarnefnd fyrr en 12. nóvember.

Umhverfisstofnun gaf út breytt starfsleyfi 7. desember og gerði sveitarstjórn um leið grein fyrir afgreiðslu stofnunarinnar á athugasemdum sveitarfélagsins og benti á rétt sveitarfélagsins til að óska frekari upplýsinga og rétt til að kæra ákvörðun Umhverfisstofnunnar til fullnaðarúrskurðar Umhverfisráðherra. Kærufrestur er nú liðinn og hefur Olíudreifing ekki vitneskju um að ákvörðunin hafi verið kærð. Ef rétt er, unir sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar því lögformlega ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfisins og afgreiðslu stofnunarinnar á athugasemdum sveitarstjórnar.

Er stöðin nú með starfsleyfi frá Umhverfisstofnun til geymslu bensíns, gasolíu og svartolíu og eru breytingar á stöðinni í samræmi við útgefið framkvæmdaleyfi sem staðfest er af sveitarstjórn.

Er því með öllu óskiljanlegt að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar álykti nú á móti framkvæmd sem hún samþykkti sjálf fyrir tæpum 2 mánuðum og búið er að leggja í mikinn kostnað við að koma í framkvæmd.


Auðvitað...

telur Árni Mathiesen, dýralæknir og settur dómsmálaráðherra að hann hafi forsendur til að ganga gegn mati matsnefndar valinkunnra lögmanna sem gaf það álit að 3 aðrir einstaklingar væru hæfari en Sjálfstæðismaðurinn Þorsteinn Davíðsson. "Ég er ekki sammála áliti nefndarinnar" er viðkvæðið hjá dýralækninum sem bendir á að hann hafi valdið.

Þetta viðhorf minnir mig á fjármálaráðherra þjóðarinnar sem tekur varnaðarorðum allra greiningardeilda, erlendra matsaðila og Seðlabanka gegn útgjaldaþenslu ríkisins með sama hætti.

Af hverju í veröldinni er verið að borga fyrir svona matsnefndir ef ekkert er hlustað á þær og það eina sem þarf til að meta hæfi dómaraumsækjanda er að hringja upp í Valhöll og kanna hvort viðkomandi sé ekki örugglega á skrá þar?


mbl.is Þorsteinn Davíðsson skipaður héraðsdómari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bónorð á tónleikum Borgardætra

Fór á frábæra jólatónleika hjá Borgardætrum í gærkvöldi.

Andrea, Ellen og Berglind fóru á kostum. Þvílíkir flytjendur og skemmtikraftar. Sönggleðin geislaði af þeim og mikið um skemmtilegheit milli laga.

Eftirminnilegast var þó að á miðjum tónleikunum kom maður upp á svið og bað Andreu Gylfadóttur.

Hún játaðist honum ef hann myndi klára eldhúsinnréttinguna. Hún vissi hvað hann hét, svo líklegast hafa þau nú þekkst eitthvað fyrir tónleikana.

Takk fyrir mig, frábært kvöld.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband