Var innfjarðarferja skoðuð sem möguleiki?

Með göngum undir Hrafnseyrarheiði er Arnarfjörðurinn eftir sem farartálmi milli norður- og suðursvæðisins á Vestfjörðum. Hægt væri að koma á ferjusiglingum milli Hrafnseyrar og Bíldudals, amk meðan að möguleiki á göngum undir fjörðinn eða fyrir hann væru skoðuð, ákvörðuð, hönnuð, boðin út og byggð.

Tíðar ferjusiglingar yfir Arnarfjörð, sem er stutt sigling, kæmu svæðunum í afar gott vegasamband með til þess að gera litlum tilkostnaði, amk ef miðað er við göng.

Samgöngubætur þarf að gera á milli þessara staða óháð því hvort olíuhreinsistöð verður byggð eður ei og það sem fyrst.


mbl.is Jarðgöng undir Arnarfjörð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið stríð í Sjálfstæðisflokknum?

Manni gæti sýnst að það hafi brotist út opið stríð innan Sjálfstæðisflokksins.

Sexmenningarnir í borginni vildu nýta sér REI-málið til að grafa undan Villa og koma honum á endanum frá, gengu á fund Þorgerðar og Geirs og klöguðu hann fyrir einleik. Það virkar þannig á mann að þau viljað fá leyfi flokksforystunnar til að víkja honum til hliðar en ekki fengið. Restin er öllum ljós, alger trúnaðarbrestur varð, meirihlutinn sprakk og sexmenningarnir földu sig á bak við meinta prinsippafstöðu Sjálfstæðisflokksins í samvinnu hins opinbera og einkaaðila. Vildu sjá hugarfóstur Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, REI, feigt til að bjarga sér.

Geir stóð sem sagt ekki með þeim í að vilja koma Villa frá og eftir standa sexmenningarnir með svartapétur fyrir að hafa gloprað völdunum í borginni úr höndum sér.

Nú er Landsvirkjun Power stofnuð, nánast sama uppstilling og REI, sem sexmenningarnir töldu algerlega á móti prinsippum Sjálfstæðisflokksins. Geir H Haarde kemur í fréttir og segir stofnun fyrirtækisins algerlega í samræmi við stefnu flokksins og sker þar með úr um að í hans huga séu fullyrðingar sexmenninganna um prinsipp Sjálfstæðisflokksins í REI málinu úr lausu lofti gripnar og staðfestir skilning flestra á samþykktum síðasta landsfundar flokksins. Hálmstrá sexmenninganna er sem sagt brostið.

Gagnsóknin frá Davíðsarminum kom nánast samstundis aftur: "Selja Landsvirkjun". Gamalkunnugt stef, sem vekur sterk viðbrögð víða og fælir fjölda atkvæða frá og hefur því verið vandlega falið í gegnum árin.

Þessi málflutningur kemur Geir afar illa og kemur honum í varnarstöðu í núverandi stjórnarsamstarfi. Þegar við bætist að Framsókn og VG eru algerlega á móti sölu Landsvirkjunnar og það væri mjög á móti almennri stefnu Frjálslyndra að vilja selja Landsvirkjun, hefur Sjálfstæðisflokkurinn fáar undankomuleiðir ef þessar raddir verða háværari. Hann málast út í horn og skilur Geir eftir í þröngri stöðu.

Við það getur Geir ekki unað lengi og fróðlegt að sjá hver þróunin verður og hvernig hann og Davíð spila næstu leiki. Það er að minnsta kosti ekki mikill jólabragur á Sjálfstæðisflokknum þessa dagana.

Uppfært 00:19: Sé að Borgar Þór, sonur Geirs svarar Gísla Marteini og Morgunblaðinu fullum hálsi í grein á Deiglunni. Þetta er líklegast bara rétt að byrja...


Af stefnufestu Sjálfstæðisflokksins

Ég er afar ánægður með stofnun Landsvirkjun power. Þetta gefur LV möguleika á að keppa um starfsfólk sitt og annarra með samkeppnisfærum launum og skilgreinir hlutverk móðurfélagsins betur, sem eiganda og rekstraraðila raforkuvera.

En ég hélt satt best að segja að Samfylkingin hefði einkarétt á vindhanagangi í stjórnmálum. Svo virðist svo sannarlega ekki vera og finnst mér sorglegt hve fljótt íhaldið virðist vera að læra af þeim. Sexmenningarnir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins sögðu að það væri grundvallarmál að blanda ekki saman opinberum rekstri og áhættusömum útrásarverkefnum þegar REI málið kom upp.

Undir það tóku forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins á Alþingi, þeir sömu og mæra stofnun Landsvirkjun Power í dag. Ef það er ekki vindhanagangur, veit ég ekki hvað það er.

Vissulega var afar óhönduglega að REI málinu staðið og vonandi læra Landsvirkjun Power-menn af því máli, en það breytir ekki því að hugmyndin að baki fyrirtækinu er góð. En aðalröksemd Sjálfstæðisflokksins í gagnrýni sinni á REI málið var að þetta væri prinsipp og að þeirra eigin hugmynd hefði í prinsippinu ekki verið góð. Sama prinsipp og nú er fagnað í tilfelli Landsvirkjunar.

Maður er alveg hættur að átta sig á þessu, hver er nú stefnufestan?


mbl.is Sóknarfæri til framtíðar eru í útlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við hverja er Landsvirkjun að ræða?

Yfirlýsingar Landsvirkjunar um að þeir standi í viðræðum við landeigendur koma mér spánskt fyrir sjónir. Ég veit ekki til þess að margir Skeiðamenn hafi fengið erindi eða heimsókn frá þeim. Það á kannski bara að tala við einhverntíma seinna, t.d. eftir að virkjanirnar eru byggðar, eins og gert var fyrir austan?

Þetta eru undarleg vinnubrögð svo ekki sé meira sagt.


mbl.is Viðræðum við landeigendur við Þjórsá haldið áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðrið í Bandaríkjunum hefur áhrif á verðbólguna á Íslandi

Þetta þýðir ekkert annað en að heimsmarkaðsverð á gasolíu (e:diesel) mun hækka talsvert, enda kynda Bandaríkjamenn í miklum mæli með gasolíu. Það hefur það í för með sér að þeir straumar í verðbólgunni sem Geir H Haarde fannst vera að snúast eru ekkert að snúast, enda hefur heimsmarkaðsverð á gasolíu bein áhrif á verðbólguna hér á landi.

Enn ein ástæða til þess að það hefði verið rétt að hlusta á varnaðarorð framsóknarmanna við fjárlagagerðina. Verðbólguhraðinn er ekkert að minnka og þörfin á aðhaldssömum fjárlögum er enn að koma í ljós.

Niðurstaða: Hærri stýrivextir, hækkun neysluvísitölu, allt til hækkunar á útgjöldum skuldugra húsnæðiseigenda, meðan sparifjáreigendur maka krókinn. Þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku fátækari.


mbl.is Vetrarhörkur í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegna fréttar Stöðvar 2 um birgðastöðina í Hvalfirði

Ég starfa sem umhverfis- og öryggisfulltrúi Olíudreifingar og vil nýta þennan vettvang til að koma eftirfarandi á framfæri vegna fréttar Stöðvar 2 í kvöld um olíubirgðastöðina í Hvalfirði:
  • Viðskiptaaðili  Olíudreifingar í þessu tiltekna máli er finnska ríkisolíufyrirtækið NESTE.  NESTE er virt félag sem hefur m.a. vottað gæðakerfi og hefur hlotið viðurkenningu fyrir sína umhverfis- og öryggisstefnu.  Fulltrúar NESTE komu hingað til lands oftar en einu sinni til að fylgjast með og taka út þá viðhaldsvinnu sem unnin var í birgðastöðinni Hvalfirði.  Öll framkvæmdin hlaut því viðurkenningu þeirra ásamt opinberra aðila.  NESTE hefur m.a. þá sérstöðu að reka eigin skip með finnskri áhöfn þar sem þeir vilja halda utan um öryggismálin alla leið. 
  • Skipið var aldrei í hættu við bindingu á þriðjudaginn og losun á miðvikudaginn var. Um þessar aðgerðir hefur félagið, í samvinnu við Siglingastofnun, sett stífar reglur um við hvaða veðuraðstæður taka megi skip í legufæri, hvenær megi hefja dælingu, hvenær henni skuli hætt vegna veðurs og hvenær eigi að leysa skip úr legufærum. Sömu reglur segja til um hversu marga dráttarbáta eigi að nota við þessar aðgerðir
  • Bryggjan sem um ræðir er ekki hrörleg og uppfyllir allar þær kröfur sem gerðar eru til hafnarmannvirkja. Stór olíuskip leggjast ekki að bryggjunni, heldur í legufærum utan við bryggjuna. Öryggismál og vöktun uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til hafnarverndar og hefur viðurkenningu Siglingastofnunar þar að lútandi. Stöðug vakt er á bryggjunni þegar skip er við bryggjuna eða í legufærum.
  • Olíubirgðastöðin hefur starfsleyfi frá Umhverfisstofnun til geymslu bensíns. Fyrir útgáfu þess voru allir þeir geymar sem notaðir eru til geymslu bensíns skannaðir og viðgerðir og eru í fullkomnu lagi.
  • Olíudreifing og forverar hafa rekið olíubirgðastöðina í Hvalfirði og tekið þangað fjölda skipa af ýmsum stærðum.   Til staðar er því mikil reynsla bæði hjá starfsmönnum félagsins sem og hjá þeim lóðsum sem Olíudreifing hefur notið þjónustu frá við móttöku og afgreiðslu skipa við þessar aðstæður.  Olíudreifing hyggst halda þessari starfsemi áfram enda er það meginverksvið félagsins að taka á móti, geyma og dreifa eldsneyti. 
  • Það er ekki á vitorði Olíudreifingar að Faxaflóahafnir hafi sent stjórnvöldum umkvörtun vegna starfsemi félagsins í Hvalfirði.  Rétt er að Faxaflóahafnir beindu því til yfirvalda að sett yrði lóðsskylda á skip sem sigldu um Hvalfjörð.  Sú ábending snerti Olíudreifingu ekkert þar sem að skip á vegum félagsins hafa alltaf notið þjónustu lóðs þegar um önnur skip en skip félagsins eiga  í hlut.  Lóðsskylda breytir því engu um vinnutilhögun Olíudreifingar við móttöku olíuskipa í Hvalfriði.

Í hvaða stjórnarsamstarfi er Helgi Hjörvar?

 Rakst á afar furðulega grein eftir Helga Hjörvar í 24 stundum í morgun. Skrifar hann þar um þær framfarir sem orðið hafa í kjörum öryrkja og aldraðra síðan Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn tóku við völdum og þvílíkur munur það sé frá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Framsóknarflokksins. Breytingarnar sem hann mærir svo mjög bæta reyndar aðallega kjör þeirra sem hafa fyrir nokkuð trygga framfærslu en koma að afar litlu gagni fyrir þá lífeyrisþega sem verst standa, ef nokkuð. Þeir gagnast sem sagt lítið þeim sem komu seint inn í lífeyrissjóðakerfið og sitja núna uppi án uppsafnaðra réttinda. Það er tímabundinn nokkuð vel skilgreindur vandi sem tak þarf sértækt á. Það er ekki gert með þessum aðgerðum.

En þessar söguskýringar Helga er eitthvað það vitlausasta sem ég hef séð lengi og er þó af nógu að taka. Ég veit ekki betur en að Davíð Oddsson hafi hætt sem forsætisráðherra fyrir að rúmum þremur árum síðan og í ríkisstjórn fyrir rúmum tveimur árum. Við honum tók Geir H Haarde, fyrst sem utanríkisráðherra og svo sem forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Helgi skrifar um fyrri ríkisstjórn annaðhvort af fáránlegri fávísi eða með hreinum fölsunum um fyrri ríkisstjórn, nema hann upplifi Sjálfstæðisflokkinn það sundraðan að hann telji sig geta vísað til ákveðinn fylkinga innan hans?

Það er augljóst hvað Helgi er að fara með þessum söguskýringum sínum. Hann vill sýna fram á að framfarir hafi orðið vegna nýrrar ríkisstjórnar en vill um leið ekki horfast í augu við þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn var í þeim báðum og þorir ekki að styggja hina nýju vini sína. Þetta er hvorki heiðarlegur né drengilegur málflutningi og alþingismanninum til mikillar skammar.


Miklir möguleikar í olíuleitarþjónustu - en það þarf fleira til

Það væri gaman að sjá þetta svæði vaxa og dafna í tengslum við svona þjónustu, en það er alveg ljóst, þótt nú sé blessunarlega búið að ákveða að byggja nýtt varðskip, að það þarf amk eitt skip í viðbót, ef ekki tvö, ef farið verður í vinnslu olíu þarna norðurfrá. Nýjustu fréttir frá Noregi sýna okkur svo ekki verið ur um villst að það þarf mikinn viðbúnað fyrir olíuvinnslu í Norður-Atlantshafinu.

Sem betur fer erum við þátttakendur í Kaupmannahafnarsamkomulaginu um gagnkvæma hjálp Norðurlandaþjóðanna í viðbrögðum við olíumengunarslysum, en þegar við værum farin að vinna sjálf olíu þýðir ekki að vera súkkulaði.


mbl.is Vilja veita aðstoð vegna olíuþjónustumiðstöðvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þenslufjárlög samþykkt

Geir H Haarde og Björgvin G Sigurðsson halda því fram að nýsamþykkt fjárlög séu aðhaldssöm og stuðli að stöðugleika. Ég er ekki hagfræðimenntaður, eins og fjármálaráðherra og þar að auki ómenntaður í söng, en þennan fagurgala um fjárlög sem hækka ríkisútgjöld um 18% myndi ég kalla öfugmælavísu og það falskt sungna. Verðbólgan var færð handvirkt niður í vor með lækkun matarskattsins og ef tekið er tillit til þess er verðbólgan um og yfir 8%. Ætti ríkisstjórnin að hafa það í huga.

Geir segir strauma vera að snúast og í trausti þeirrar óskhyggju leyfir hann ráðherrum ríkisstjórnarinnar að standa í nammikistunni og moka til hægri og vinstri. Það er erfitt að sjá að húsnæðisverð sé að lækka, þótt hækkunin sé hugsanlega að hægja á sér, olíuverð á ekki eftir að lækka og miðað við launakröfur verkalýðshreyfingarinnar er ekki að sjá neina liði vísitölunnar haga sér eins og hann óskar sér. Það er auðvitað freistandi að standa í nammimokstri, enda tók núverandi ríkisstjórn við góðu búi, en eins og horfur eru, staðfestar af nýjustu verðbólgutölum, sem fjárlagavinnan tekur ekkert tillit til, er þetta algert ábyrgðarleysi og kemur verst niður á þeim sem skulda mest.

Það er einnig aumkunarvert að lesa hjá viðskiptaráðherra að ríkisstjórnin beiti aðhaldi og fresti framkvæmdum þegar hægt er að lesa svart á hvítu að fjárlögin geri ráð fyrir tugmilljarða aukningu í framkvæmdum í samgöngumálum. Það er eins og þeir hafi ekki lesið fjárlögin yfir áður en þau voru samþykkt, enda meira og minna ekki til staðar meðan umræðan um þau fór fram.

Það verður fróðlegt að sjá ráðherrana útskýra áframhaldandi verðbólgu í vor og ekki síður næsta haust, þegar næstu fjárlög verða tekin fyrir. Verst hvað lærdómurinn verður öllum almenningi dýr.


Verkalýðshreyfingin leggur til 48% skatthlutfall

 Ég skrifaði fyrir stuttu um hversu vafasamar þáverandi tillögur Starfsgreinasambandsins um tvö skattþrep væru.

Nú eru komnar enn einar tillögurnar, sem munu koma lægst launuðu stéttunum verst, eins undarlega og það kann að hljóma. Tillögurnar ganga út á að tekinn verði upp 20.000 kr aukapersónuafsláttur fyrir þá sem hafa undir 150.000 kr á mánuði og lækki hann þannig að hann falli alveg út þegar 300.000 kr mánaðarlaunum er náð.

Það skattkerfi sem við búum við í dag er þannig skrúfað saman að þegar skattleysismörkum er náð, greiðast um 35% af hverri krónu umfram það í skatt. Það er lágt hlutfall og hvetjandi.

En hinn stiglækkandi persónuafsláttur veldur því að af hverri krónu sem launamaður sem er með milli 150 og 300 þúsund á mánuði fer, auk 35% skatthlutfallsins, 13% í skerðingu persónuafsláttar. Þannig er verkalýðshreyfingin að leggja til 48% skattprósentu fyrir þá sem eru á þessu tekjubili.

Það þykja mér ekki góðar tillögur. Betra væri að leggja til hækkun persónuafsláttar og viðhalda einfaldleikanum og hvatanum í skattkerfinu með lægri skattprósentu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband