Nýr stjórnmálaferill að hefjast

Við glæsilega innkomu Valgerðar í utanríkisráðuneytið var eins og hún væri að hefja nýjan stjórnmálaferil. Kom hún sterk inn í ráðuneytið með nýjar og ferskar áherslur sem mér sýnist arftaki hennar í stól utanríkisráðherra ætli að taka sér til fyrirmyndar. Það er vel.

Valgerður hætti pólitískum ráðningum á sendiherrum, eftir að 10 ráðningar á 11 mánuðum hjá Davíð Oddssyni settu íslenska utanríkisþjónustu í algera sérstöðu hvað varðar fjölda pólitískt ráðinna sendiherra og setti á oddin þau mál sem við sem örríki í alþjóðasamstarfinu getum skipt máli í, friðargæslu, þróunarsamvinnu og áframhaldandi góð samskipti við nágrannaríkin og bandalagsþjóðir.

Valgerður er heiðarlegur og raunsær stjórnmálamaður með hjartað á réttum stað, sannur Framsóknarmaður sem mun reynast vel sem varaformaður við endurheimt fyrri krafta.


mbl.is Valgerður gefur kost á sér í embætti varaformanns Framsóknarflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afslætti Norðlingaölduveitu fagnað of snemma?

Ingibjörg Sólrún hefur riðið á skýi Bleikjunnar í gær og fyrripart dagsins, takandi við fögnuði og þökkum frá þeim sem hafa barist fyrir friðun Þjórsárvera. Dagurinn er ekki liðinn, þegar raunveruleikinn kemur í ljós og innihaldslítil orðbólga Samfylkingarinnar afhjúpast.

Geir H Haarde, sem er handhafi þjóðlendunnar, hinn formlegi "landeigandi" Þjórsárvera og þarf sem slíkur að samþykkja friðlýsinguna, hefur sagt að orðalag stjórnarsáttmálans slái Norðlingaölduveitu ekki út af borðinu.

Orðalagið er þannig að hann getur alveg staðið á því. Svæðið sem Norðlingaölduveita myndi færa á kaf væri kannski hægt að halda fram að sé ekki votlendi, en orðalag sáttmálans miðar eingöngu við votlendi, ekki landslagsheildina. Hann veit líka sem reyndur stjórnmálamaður að maður brýtur ekki lög í stjórnsýsluákvörðunum. Ríkisstjórnin væri nefnilega að brjóta lög ef Þjórsárverin yrðu friðlýst í trássi við skipulag svæðisins og vilja heimamanna. Þess vegna fellur þessi hluti stjórnarsáttmálans um sjálfan sig ef Geir vill standa á sínu og beitir sér ekki við að telja flokksbróður sínum, oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps og sveitunga viðskiptaráðherra, hughvarf.

Það var vegna þessa vilja heimamanna sem Framsókn gat ekki friðlýst svæðið og fékk á sig gráan stimpil Framtíðarlandsins að launum, en Samfylkingin grænan, af órökstuddum ástæðum.

Fjallaði um þetta í aðdraganda kosninga á eftirfarandi hátt


Fréttaflutningurinn er ekki réttur

Bruninn er ekki í olíuhreinsistöðinni í Mongstad, heldur í olíubirgðastöð Vesttank. Þessir geymar eru staðsettir eitthvað frá hreinsistöð Statoil. Stöðin meðhöndlar úrgang sem fellur til hjá olíuborpöllunum í Norðursjó, ekki hráolíu. Þetta er því algerlega óskyldur og ósambærilegur rekstur við rekstur olíuhreinsunarstöðvar eins og verið er að skoða byggingu á á Vestfjörðum.

Svona fréttaflutningur er með ólíkindum.


mbl.is Mikill bruni í olíuhreinsunarstöð skammt frá Bergen í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða einkunn gefur Framtíðarlandið Samfylkingunni núna?

Mér til sárra vonbrigða flokkaði Framtíðarlandið Framsókn sem gráan flokk fyrir kosningar. Framtíðarlandið hefur engan rökstuðning gefið fyrir þeirri flokkun sinni, en samtökin eyddu hundruðum eða milljónum króna í níðáróður um Framsókn, Sjálfstæðisflokkinn og Frjálslynda fyrir kosningarnar. Kostnaður sem ekki verður talinn með í kostnaði VG, Samfylkingarinnar og Íslandshreyfingarinnar þegar uppgjör auglýsingakostnaðar framboðanna verður gert opinbert.

Ég skora því á Framtíðarlandið að samtökin geri grein fyrir þeirri flokkun sinni og einnig skoðun sinni á Samfylkingunni eftir að stjórnarsáttmálinn liggur fyrir, án nokkurs stóriðjustopps, frekar harðari framgangs virkjanamála en Framsókn lagði til með Íslandskorti sínu.


Þjórsárver friðuð - fyrsta verk ráðherra að ganga gegn vilja eigin sveitunga

Þótt ég fagni því sjálfur að friða eigi Þjórsárver, hlýtur það að vera undarleg tilfinning fyrir Björgvin G Sigurðsson frá Skarði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, nýbakaðan viðskiptaráðherra að vera ráðherra í ríkisstjórn sem hefur það á sinni stefnuskrá að ætla að ganga fram gegn stefnu eigin sveitarstjórnar sem hefur óumdeildan skipulagsrétt innan eigin sveitarfélagsmarka. Hann ætlar sem sagt að virða sjálfstæði eigin sveitar að vettugi.

Það er einnig kúnstugt að handhafi þjóðlendunnar, Geir H Haarde, var fyrir mánuði á móti því að þetta yrði gert og beitti áhrifum sínum gegn því að Jónína Bjartmarz gæti friðlýst svæðið, bæði með vísun í þessarar andstöðu heimamanna og ekki síður eigin andstöðu. Nú hefur Geir sem sagt skipt um skoðun og lendir í leiðinni í því að vera með stefnu gengur þvert gegn stefnu flokksbróður síns, oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Ríkisstjórnin ætlar greinilega sínu fram, sama hvað tautar og raular, óháð stjórnsýslulögum og skipulagslögum.


mbl.is Orðið ljóst að Norðlingaölduveita verður ekki byggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkavæðing Landsvirkjunar komin í ferli

Í stjórnarsáttmálanum segir:

"Tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja."

Þetta þýðir með öðrum orðum að einkavæðing Landsvirkjunar er komin á dagskrá. Báðir formennirnir hengja sig í útskýringuna. "verður ekki einkavætt á kjörtímabilinu" Þetta orðalag "á kjörtímabilinu" þýðir ekkert annað en að kjörtímabilið verður notað til að koma Landsvirkjun í sölubúning og koma af stað umræðu um nauðsyn þess að selja hana. Hlutafé ríkisins er í höndum Sjálfstæðisflokksins og þar með stefnumótun fyrir fyrirtækið, forstjórinn er Sjálfstæðismaður og að ári einnig stjórnarformaðurinn.

Stefna Sjálfstæðisflokksins er skýr, og þetta orðalag sýnir að Samfylkingin hefur gefið Landsvirkjun eftir, orku iðra og fallvatna landsins, í skiptum fyrir ráðherrastólana.

Fagra Ísland hvað?


mbl.is Íslendingar taki forustu í baráttu gegn haf- og loftmengun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón segir af sér - uppbygging framundan

Maður sér talsverða samfellu með sögu hins flokksins sem Jónas frá Hriflu stofnaði, Alþýðuflokksins, þessa dagana. Sá flokkur hefur gengið í endurnýjun lífdaga í Samfylkingunni og nú er komið að Framsókn. Atlaga Halldórs að borginni var hrundið við Rauðavatn, en nú safnast liðið saman á Brúnastöðum til að undirbúa næstu atlögu. Sú verður mun öflugri, enda hefur þessi niðurstaða þjappað flokknum mun meira saman en ég hefði þorað að vona. Auðvitað eru einhverjir armar enn að dinglast út í loftið, en massi flokksmanna er búinn að fá nóg af þeim átökum og því munu þessir armar visna og nýtt fólk taka við. Til þess þarf tíma.


mbl.is Jón Sigurðsson segir af sér formennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bleikjan mynduð

Ágúst Ólafur varaformaður Samfylkingarinnar fær ekki ráðherradóm, Björgvin G Sigurðsson er tekinn fram fyrir hann, en viðskiptaráðuneyti er "búið til" fyrir hann. Ágúst Ólafur getur ekki verið sáttur við það.

Kristján Möller fær að opna Siglufjarðargöng og framfylgja því sem síðasta ríkisstjórn var búin að ákveða að gera í samgöngumálum og klára Grímseyjarferjuna, en ekki að bæta fjarskiptakerfið og efla ferðaiðnaðinn. Össur fær þau verkefni í stað viðskiptamálanna sem hann missir úr iðnaðarráðuneytinu. Held að það sé góð breyting fyrir hann og ég sé Össur baða sig í ljósi góðra verka sem undirbúin hafa verið í ráðuneytinu í tíð Jóns og Valgerðar.

Þórunni spái ég velgengni í umhverfisráðuneytinu, sem er afar vel mannað ráðuneyti, en hvað stendur í sáttmálanum í utanríkismálum verður spennandi að sjá.

En meginfréttin og meginþungi vinnu þessarar ríkisstjórnar verður á Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún hefur ástundað góð vinnubrögð í stjórnarandstöðu, hrósað þegar tilefni hefur verið til sem hefur gefið henni meiri vigt þegar hún gagnrýnir, en málaflokkurinn er gríðarstór og mikið lagt á vinnusama konu, meðan að aðrir ráðherrar fá mun léttari verk.

Hlakka til að sjá málefnasamninginn


mbl.is Þrjár konur og þrír karlar ráðherrar fyrir Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn fetar varlega af stað

Geir H Haarde fer greinilega varlega við ráðherraveitingar sínar. Spurning hvort það sé merki um að titringur sé innan Sjálfstæðisflokksins vegna stjórnarsamstarfsins. Það kæmi mér aftur á móti ekki á óvart breytingar yrðu gerðar á kjörtímabilinu ef traust milli flokkanna og meiri sátt náist innan Sjálfstæðisflokksins um stjórnarsamstarfið. Sjálfstæðisflokkurinn er að bæta við sig tveimur ráðuneytum, eða einu og hálfu, Landbúnaðar- og Heilbrigðisráðuneyti. Tryggingaráðuneyti verður þá líklegast sameinað Félagsmálaráðuneytinu, sem er eðlileg ráðstöfun, fyrst það var ekki sameinað Fjármálaráðuneytinu.

Mannavalið er ótrúlega líkt því sem ég spáði í þessari færslu, Sturla fer út fyrir Guðlaug Þór. Nú er spennandi að vita hvort mannavalið hjá Samfylkingunni verði eitthvað í líkingu við það sem ég spáði fyrir kosningar. Steinunn Valdís gæti komið á óvart.


mbl.is Guðlaugur Þór verður heilbrigðisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlilegast að sameina alla Árnessýslu í eitt sveitarfélag

Þegar ákvörðun var tekin um að leggja niður sýslurnar og efla sveitarstjórnirnar, tel ég að skammsýnismistök hafi verið gerð. Farsælla hefði verið að auka vægi sýslunefndanna og gera sýslurnar að leiðandi nærþjónustustjórnsýslustigi en nýta gömlu sveitarfélögin sem "hverfaeiningar" sem nýst gátu fyrir íbúatengingar.

Sýslurnar eru til frá alda öðli sem menningarlegt og samfélagslegt fyrirbæri en þessir óskapnaðir sem hafa verið stofnaðir undanfarin ár ekki. Það er sífellt að koma betur og betur í ljós núna þegar fjallað er um að flytja fleiri verkefni til sveitarfélaganna að þau litlu eru allt of hamlandi fyrir þessa eðlilegu þróun.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur einnig virkað hamlandi í þessari þróun þar sem sveitarfélög tapa á því að sameinast í gegnum regluverk þeirra.

Þess vegna á ekki að vera með neinn smámunaskap í þessu, heldur sameina öll sveitarfélög í Árnessýslu.


mbl.is Vilja sameina Árborg og Flóahrepp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband