Samkynhneigðir
10.8.2007 | 00:47
Nú ætla ég að skrifa hvað mér finnst um homma og lesbíur. Mér finnst þau barasta allt í lagi. Ég er stoltur af því að búa í samfélagi þar sem lagaumhverfið mismunar þeim ekki og samfélagið sjálft er smám saman að verða þannig að það er fólki ekki óyfirstíganlegt að koma út úr skápnum. Einhversstaðar heyrði ég að há sjálfsmorðstíðni ungra karlmanna væri að einhverjum hluta hægt að rekja til þeirra sálarkvala sem það olli þeim sem vissu ekki "hvað væri að þeim". Ef þá var farið að bjóða í grun að það væri samkynhneigð gátu þeir ekki hugsa sér að lifa því lífi og ekki heldur að lifa lífi inni í skápnum hafi menn valið þá leið að farga sér.
Það er hryllingur til þess að hugsa og vonandi tekst okkur að hreinsa síðustu agnúana af samfélaginu og viðhorfi okkar sem búum í því, þannig að lífið fyrir utan skápinn virðist öllum þeim sem eru samkynhneigðir þess virði að lifa því.
Frábært starf UMFÍ
5.8.2007 | 19:26
Á Höfn í Hornafirði eru nú um sjö þúsund manns á Unglingalandsmóti, þar af eru þúsund krakkar að keppa. Ég veit ekki hvaða forvarnir geti verið betri en þetta, að stunda íþróttir og holla samveru í stað þess að vera kannski að sukka á einhverri útihátíðinni. Því seinna sem krakkar byrja að drekka því minni líkur eru á því að þau eigi í vandræðum með drykkju og vímuefni seinna meir. Það væri gaman ef einhver myndi slá á það hvað svona samkoma skilar samfélaginu miklu fjárhagslega, fyrir utan þann þroskaauka sem svona starf skilar þeim sem þátt taka.
Takk Hreiðar !
2.8.2007 | 10:39
Ég er sérstaklega ánægður með Hreiðar Má að greiða sína skatta á Íslandi. Það er margt hægt að gera fyrir þá peninga. Aftur á móti finnst mér umhugsunarefni að Bakkavararbræður, Jón Ásgeir, Björgólfur Thor og fleiri af þeim sem hampað er sem mest sem dæmi íslenska kaupsýslumenn sem eru að meika það, skuli ekki greiða sína skatta hér.
Þeim er auðvitað frjálst að búa þar sem þeim sýnist og greiða skatta þar, en er kannski eitthvað í íslenska skattaumhverfinu sem væri hægt að bæta til að þeir "sjái sér fært" að búa á Íslandi og greiða sínar skyldur til samfélagsins? Það væri jú óskaplega gott að fá nokkur hundruð milljónir aukalega til sameiginlegra verkefna eða til lækkunar skatta á aðra.
Af hverju leyfa yfirvöld áfengisauglýsingar?
1.8.2007 | 12:04
Um bæinn keyra bílar þrælmerktir tegundum sem ekki er til í áfengislausri útgáfu óáreittir. Nefni sem dæmi eðaldrykkinn Jägermeister, hinar ýmsu rauðvíns- og bjórtegundir sem ég held að séu ekki til í léttútgáfu, eins og bjórinn sem bruggaður er úr íslensku byggi.
Þær sektarupphæðir sem heimilt er að beita í þessum málum eru í dag svo lágar að umboðsaðilar virðast meta fjölmiðlaumfjöllunina um málareksturinn verðmætari en sektirnar, fyrir utan auglýsingagildi sjálfra auglýsinganna, þannig að þeir auglýsa bara og borga sektirnar á staðnum.
Yfirvöld hafa ekki beitt þessum sektarákvæðum um langan tíma og því eru þau í rauninni að leyfa áfengisauglýsingar.
Ég held að eina leiðin til að koma þessu til lífs er að setja inn í lögin um ÁTVR ákvæði um að ef umboðsaðili hefur gerst brotlegur við þetta auglýsingabann, megi ÁTVR ekki selja vörur frá viðkomandi aðila. Sektarvopnið, amk með þeim upphæðum sem í gangi eru í dag, er ekkert að virka.