Undirboð á launamarkaði?
19.4.2007 | 22:46
Ég hef verið að spá í því undanfarið þegar umræðan um að útlendingar séu að lækka laun á vinnumarkaði, um hvað sé í raun og veru verið að tala og hver sé hin raunverulega rót þess. Ég veit nefnilega ekki betur en að þessir starfsmenn séu að fá laun samkvæmt taxta, sem samið hefur verið um í samningum aðila vinnumarkaðarins. Nú er ég ekki að tala um starfsemi starfsmannaleiga, sem reyndar er búið að setja mun þrengri ramma.
Getur ekki verið að ástæðan fyrir því að þetta er vandamál sé sú að verkalýðsfélögin hafi litið á launaskriðið sem náttúrulögmál, og ekki einbeitt sér nægjanlega að því að hækka taxtana í samningum til samræmis við rauntaxta? Þess vegna séu taxtarnir í samningunum orðnir úreltir og þegar fólk er ráðið inn erlendis frá, á taxtakjörum, svo mikið ódýrara atvinnurekendum og því ógnun við þau kjör sem launafólk hefur haft undanfarin ár. Er því ekki um að ræða að í stað þess að tala um undirboð, sé verið að tala um ekki yfirboð?
Er ráðlegt að beina olíuskipum á íshafsvæði?
19.4.2007 | 10:12
Þessi frétt um að hundrað bátar selveiðimanna séu fastir í ísnum, fær mann til að minnast þess að fyrir stuttu barst ís inn á Dýrafjörð, þar sem hugmyndir eru að byggja olíuhreinsunarstöð.
Það er mikil pressa á skipum og hreinsistöðvum að ekkert stoppi, hver klukkustund er kostnaðarsöm og því hætt við að skip freistist til að fara í ísvatn, sem hugsanlega getur farið illa. Það var við slíkar aðstæður sem ExxonValdez fór upp á sker. Þótt frumorsök þess slyss hafi verið drukkinn skipstjóri, er ljóst að ef af þessu verður, verður að taka upp leiðsögn um svæðið, svipað og er gert í Noregi.
![]() |
Hundrað bátar selveiðimanna fastir í ísnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |