Kuðungurinn veittur Bechtel
25.4.2007 | 20:37
Var þess heiðurs aðnjótandi að vera skipaður formaður úthlutunarnefndar Kuðungsins, umhverfisverðlauna Umhverfisráðuneytisins.
Við fórum í gegnum þær tilnefningar sem bárust og voru þær afar mismunandi. Þegar ég gerði grein fyrir vali okkar sagði ég meðal annars um Bechtel:
"Óháð því hvaða skoðun menn hafa á álverum og byggingu þeirra, er það einróma mat allra sem hafa kynnst þeirri sýn sem Bechtel hefur á umhverfismál og það verkskipulag sem fyrirtækið viðhefur til að ná þeim markmiðum sem fyrirtækið setur sér, að þar er um að ræða algerlega nýja tíma í verktakastarfsemi á Íslandi.
Hver einasti verkþáttur er metinn með tilliti til hugsanlegra umhverfisáhrifa, öryggis og fleiri atriða, áður en verk hefst og hverjum einasta starfsmanni gerð grein fyrir því til hvers er ætlast af honum og starfsmönnum veitt skýr heimild til að stöðva verk, séu forsendur breyttar á þann hátt að umhverfinu sé ógnað. Öll umgengni er til fyrirmyndar, úrgangur er flokkaður í þeim mæli að aðdáun vekur og fleiri atriði mætti nefna, fráveitu, vatnsveitu.
Allir undirverktakar undirgangast sömu reglur og hljóta kennslu og þjálfun áður en verk hefst, en eru ekki skammaðir eftir að óhapp hefur orðið. Ég veit að margir hafa fussað og sveiað í upphafi, en eftir þjálfun og kennslu sem fyrirtækið veitir er viðhorfið allt annað. Hvert einasta frávik og næstumfrávik er skráð, greint og við því brugðist, þannig að eftir er tekið.
Á þann hátt hefur Bechtel fært íslenskum verktakaiðnaði mikla þekkingu og reynslu á vinnubrögðum, sem eru til mikillar fyrirmyndar og vernda umhverfið, bæta öryggi og á endanum hagkvæmni, þar sem engin tími eða kostnaður fer í súginn vegna mengunaróhappa, vinnuslysa eða annarra tjóna.
Fumlaus og ákveðin vinnubrögð svífa yfir vinnusvæðinu og vonandi verður þessi viðurkenning til þess að vekja athygli sem flestra á þeim góða árangri sem Bechtel hefur náð og aðrir verktakar geta náð, tileinki þeir sér það verklag sem þeir hafa kynnt okkur í starfsemi sinni."
Til hamingju Bechtel
Einmana börn - ábyrgð foreldra og samfélagsins
25.4.2007 | 10:01
Á ráðstefnu sem haldin var í vetur til að hvetja konur til að bjóða sig fram til Alþingis hélt Guðrún Helgadóttir meðal annarra framsögu um sína pólitísku þátttöku. Eins og svo oft áður kom hún kjarnanum í orð á einfaldan og beittan hátt, þegar hún sagði eitthvað á þá leið að konur hefðu í eigingirni sinni rokið út á vinnumarkaðinn þegar þær fengu frelsi til þess, en hefðu skilið börnin og gamla fólkið eftir heima.
Mér finnst þetta lýsa þeim þjóðfélagsbreytingum sem hafa átt sér stað afar vel. Ég vil reyndar ekki kalla þetta eigingirni kvenna, heldur hefur samfélagið ekki brugðist eða getað brugðist nógu hratt við þeirri breytingu að konur hættu að vera húsmæður í fullu starfi, sem sinntu eldri og yngri fjölskyldumeðlimum um leið.
Fjárhagsstaða hins opinbera hefur í gegnum áratugina haft mikið um það að segja að ekki hefur verið bolmagn til, en með sífellt öflugra atvinnulífi sem skapar tekjur í samfélaginu, hefur Grettistaki verið lyft, þótt margt sé enn ógert.
En fleira kemur til.
Þegar við erum með launakerfi sem er með um 80% yfirvinnuálag erum við að refsa þeim sem sinna fjölskyldum sínum með því að vinna eðlilegan vinnudag umfram þá sem ekki gera það eða eiga ekki börn. Yfirleitt eru það konurnar sem svo vinna styttri vinnudag, meðan að karlinn vinnur lengur og aflar því enn meiri tekna. Gæti trúað að þetta skýri stóran hluta af þeim óútskýrða launamun sem er á körlum og konum og því er lækkun yfirvinnuálagsins og tilsvarandi hækkun dagvinnulauna leið til lausnar á því vandamáli um leið og það hvetur foreldra til að vera heima hjá börnunum sínum og verður til að bæta samfélagið í heild sinni og velferð okkar allra.
Framsókn hefur þá stefnu að ríkið eigi að ganga á undan með góðu fordæmi í næstu kjarasamningum og setja þannig línuna fyrir restina af vinnumarkaðinum.
![]() |
Einmana börn auðveld bráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |