VG fellir tjöldin

Eftir hádegisviðtalið á Stöð 2 í dag við Steingrím Joð er maður algerlega bit. Slík er stefnu- og prinsippfesta flokksins núna þegar allar kýr á Alþingi virðast vera yxna.

Í stað þess að tala um algert stóriðjustopp án undantekninga, sem var aðalkosningamál hreyfingarinnar, baular hann nú um það sem er tæknilega og lagalega mögulegt að stoppa og Helguvík er amk undir, með virkjunum á Reykjanesi og í Neðri-Þjórsá. Ekki var í eitt einasta skipti minnst á neina slíka fyrirvara í málflutningi þeirra í einum einasta þætti sem ég fylgdist með í kosningabaráttunni og fylgdist þó með mörgum.

Hann hefur sem sagt tekið upp nákvæmlega sömu stefnu og Framsókn sýndi á Íslandskorti sínu, sem þó var með Þeistareyki á stefnuskránni til að tryggja framkvæmdina á Bakka á Húsavík.

Kjósendur VG hljóta að finnast þeir hafa keypt köttinn í sekknum núna og hafa slæmt bragð í munninum, nú þegar Steingrímur er farinn að semja við sjálfan sig í beinni útsendingu og kastar stefnufestu sinni fyrir róða til að komast í stjórn.


Bloggfærslur 16. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband