Verðmætar kanínur Steingríms J
4.5.2007 | 11:21
Í Kastljósþætti gærkvöldsins var Steingrímur J Sigfússon í yfirheyrslu.
Kom þar berlega í ljós hve illa ígrundaðar efnahags- og skattatillögur þeirra eru.
Ætlaði hann fyrst að komast upp með að segja að, hækkun grunnlífeyris, niðurfelling gjaldtöku, upptaka gjaldfrelsis í leikskólum, sem eru á forræði sveitarfélaganna, kostuðu 12 milljarða. Hélt hann svo áfram vaðlinum, um strandsiglingar, sem hann heldur fram að sé búið að leggja niður, sem er ekki rétt, innviðafjárfestingar osfrv.
Þáttastjórnendur stóðu sig vel með að láta honum þetta ekki eftir, heldur spurðu hann út í hvað heildarpakkinn kostaði. Með töngum náðu þau út tölunni 20 milljörðum. Fer betur yfir trúverðugleika þeirrar tölu seinna, en leyfum honum njóta vafans.
Skattatillögurnar voru aftur á móti kostulegar. Skattleysismörkin áttu að fylgja lágmarkslaunum, en áttu að hækka ef launin yrðu hærri! Annað hvort er hann jafn vel að sér og Guðjón Arnar var fyrir síðustu kosningar í skattamálum eða hann getur ekki komið þessu almennilega frá sér!
Skattleysismörk hækka ekkert með hækkuðum launum. Þau hljóta og geta ekki annað en verið föst tala. Skattprósentan getur aftur á móti hækkað, en í dag búum við við óendanlega margar skattprósentur sem hækka með hækkuðum launum. Er það innbyggt í kerfi fastrar prósentutölu og persónuafsláttar. Vill hann hækka persónuafsláttinn eftir því sem launin lækka? Ég skil ekki bofs. Læt hann þó njóta vafans og reikna með að hann hafi átt við að 125 þús kr skattleysismörkin og svo stigvaxandi hlutfallsleg skattbyrði, eins og er í kerfinu í dag hafi verið það sem hann meinti.
Uppgjör skallamála, nei skattamála VG er því eins og upplýsingar mínar liggja fyrir í dag þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda 2010 er því:
- 36,7 milljarðar í tekjuauki ríkissjóðs
Til minnkunar þessu kemur
- 29,7 milljarðar í 125 þús kr skattleysi án hækkunar prósentu
- 6 milljarðar í niðurfellingu stimpilgjalds
Þannig að ef er tekið tillit til veltuskattsaukingar (10%) af þessum völdum, hefur ríkissjóður samkvæmt þessu úr 4,6 milljörðum að spila til þessara verkefna sem hann metur sjálfur að kosti 20 milljarða!
Þetta gengur ekki upp og því verður að spyrja hvað ætla VG að hækka skattprósentuna mikið til að eiga fyrir þessu eða ætla þeir að selja kanínur úr töfrahatti sínum?
Þær hljóta að vera verðmætar, því mér reiknast til (forsendur 2006) að hún verði að fara upp í 58% með útsvari til að halda 15 milljarða tekjuauka og 125 þús kr skattleysismörkum.
Ja hérna...