Er skipulagsferlið ekki að virka?
13.1.2008 | 20:20
Mér finnast þessi hús sem til stendur að rífa á Laugaveginum bænum til lítils sóma og syrgi ekki að þau fari. En það er ekki þar með sagt að það sé sama hvað komi í staðinn. Það verður að styðja það sem í kringum þau eru, sérstaklega Laugaveg 2 sem er fallegt hús sem á sem betur fer að hlífa.
Mér finnst nærtækast að benda á Aðalstrætið sem götu sem vel hefur tekist til með á seinni árum. Hótel Reykjavík Centrum er einstaklega vel heppnuð bygging, jafn vel heppnuð og húsið á móti er illa heppnað.
Ef það yrði rifið og eitthvað smekklegra byggt í staðin, myndi ég klappa.
Að húsafriðunarnefnd skuli nú vilja friða húsin á Laugarveginum á þeim forsendum að húsin sem koma eigi í staðin samræmist ekki götumyndinni bera því vott að einhver hefur sofið hressilega á verðinum í skipulagsferlinu.
Þeir sem ætla sér að byggja á reitnum hafa farið að öllu því sem fyrir þá hefur verið lagt, hafa öll leyfi og fylgt öllum lögum og reglum. Það er því ekki upp á það að klaga og virðast þeir hafa allan rétt sín megin. Sú forskrift sem þeim hefur verið gert að fylgja við hönnun húsanna hefur greinilega ekki verið nógu góð, fyrst húsafriðunarnefnd telur ástæðu til að friða þessa hjalla vegna þess. Húsafriðunarnefnd hefur þannig hiklaust sofið á verðinum, því hún hefur að því að fram hefur komið fengið að veita umsögn um málið á öllum stigum þess, sem og nágrannar og borgin og í rauninni allir þeir sem eru að mótmæla núna, þegar ferlið er í rauninni til enda runnið.
Skipulags- og byggingarlögin gera nefnilega ráð fyrir miklu samráðsferli sem hefur meðal annars þann tilgang að koma í veg fyrir að svona aðstæður komi upp og verður í því ljósi að skoða hvort gera þurfi breytingar á lögum og reglugerðum og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í framhaldinu, því þeir sem vilja framkvæma í borginni verða að geta treyst því ferli.
(Myndunum er stolið af vefnum nat.is)
![]() |
Að draga tönn úr fallegu brosi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |