Trúverðugleiki umfjöllunar Morgunblaðsins um Glitnismálið
1.10.2008 | 23:06
Miðað við frásögn Þorsteins Más Baldvinssonar stjórnaformanns Glitnis, var hann ekki að fara upp í Seðlabanka að biðja formlega um þrautavaralán, heldur að ræða við Davíð Oddsson, seðlabankastjóra um þá möguleika sem voru í stöðunni, eftir að þýskur banki hafði neitað að veita meira fé til Íslands, eftir að Seðlabankinn hafði fengið lán í þessum sama banka og sá hafði vísað Glitnismönnum á Seðlabankann.
Það samtal endar með þeim hætti að nú stefnir í að ríkissjóður sé að eignast umtalsverðan hluta lífeyrissjóða landsins, þeirra sem fjárfest höfðu í Glitni, eða, ef bankinn nær að bjarga fjármögnun fyrir hlutafafundinn í næstu viku, að Íslendingar eru nær örugglega að missa bankann úr landi.
Mér er ofarlega í huga hvort fjármálaráðherra hafi kórrétta frásögn Seðlabankastjóra af samtali þeirra Þorsteins, fyrst hann lætur hafa eftir sér ávirðingar um að Glitnir hafi ætlað sér að misnota Seðlabankann.
Á sama hátt hlýtur maður að spyrja sig hvort umfjöllun Agnesar Bragadóttur um málið sé sama marki brennt, eins og hún lét í kvöld, en hún kom mér ekki fyrir sjónir sem óháður, faglegur blaðamaður í viðtali Íslands í dag í kvöld.
Kemur með fullyrðingar sem Sigurður G Guðjónsson biður hana um að rökstyðja, sem hún gerir ekki og slær allt sem hann segir út sem bull og vitleysu.
Agnes getur ekki, ef hún vill láta taka sig alvarlega, blammerað svona og slegið út af borðinu öðruvísi en að hafa fyrir því heimildir.
Við skulum ekki gleyma því að nýr ritstjóri Morgunblaðsins rak hana, en að fenginni skipun Björgúlfanna, var hún ráðin aftur og starfar nú, ekki undir ritstjóravaldi Morgunblaðsins.
Hvaða trúverðugleiki hefur umfjöllun hennar í ljósi þess að Björgúlfur Thor, beinn eða óbeinn vinnuveitandi hennar, fer upp í Stjórnarráð seint að kvöldi til að tala við Geir H Haarde, "um ekki neitt sérstakt"?
Hún verður í það minnsta að sýna heimildir fyrir sínum málflutningi ef ég á að geta trúað hennar skrifum.
Í þessari stöðu er gott að vita til þess að það eru einhverjir fleiri fjölmiðlar í landinu, þannig að maður getur borið saman frásagnir og fréttir.
![]() |
Átti að misnota Seðlabankann? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Svörtuloft berjast við vindmyllur
1.10.2008 | 12:56
Það er mikil þörf á því að endurskoða peningamálastjórn Seðlabankans hið fyrsta. Innbyggð villa í henni hefur orðið til þess að nú er hún komin í öngstræti sem þarf að vinna úr.
Húsnæðisverð var óeðlilega lágt árin fyrir 2003 þegar bankarnir fóru inn á markaðinn og buðu húsnæðiseigendum gull og græna skóga, yfir 100% lán, hækkaði húsnæðisverð og leiðréttist að hluta en vegna afskaplega auðvelds aðgengis að fjármagni hafi yfirverð myndast, sem nú er að leiðréttast.
Vegna þess að húsnæðisverðið er ranglega tekið með í vísitölumælingunni á Íslandi, sem mældist af þeim sökum verðbólga, sem ekki var raunveruleg. Áhrif húsnæðisverðs er rauða línan á meðfylgjandi mynd, en verðbólgan sú bláa.
Seðlabankinn reyndi að ráðast gegn þessari verðbólgu með stýrivaxtahækkunum, sem auðvitað virkuðu ekki, þar sem ekki var um þenslutengda verðbólgu að ræða, heldur mæliskekkju. Allt tal um áhrif stjóriðjuframkvæmda eða þvíumlíkt á verðbólguna er því bara hjóm eitt.
Þetta ástand varði allt fram yfir áramótin 2006, er verðbólgan fór að verða af öðrum ástæðum, þá að talsverðu leiti vegna stýrivaxtanna sjálfra og hráefnisverðshækkana, matvæla, eldsneytis oþh.
Þessi mikli vaxtamunur jók eftirspurn eftir íslenskum krónum og dældist ódýrt erlent lánsfé inn í hagkerfið, sem fjárfestar nýttu til að gíra upp fjárfestingar sínar.
Þennan vítahring höfðu yfirvöld ekki dug til að vinna sig úr af hræðslu við að gengið félli, þrátt fyrir að allir aðilar hefðu gert sér grein fyrir að það væri of hátt skráð og sú gengisfelling væri óumflýjanleg, með því verðbólguskoti sem því fylgdi.
Nú höfum við um langan tíma verið í gíslingu þessa ástands. Hávextirnir eru sjálfir stór orsök verðbólgunnar, enda fjármagn stór hluti kostnaðar fyrirtækja, sem eiga engra annara kosta völ en að velta þeim kostnaði út í verðlagið.
Nú þegar alþjóðleg fjármálakreppa líður yfir fellur þessi spilaborg, gengið leiðréttist mjög hratt, sem veldur raunverulegri verðbólgu, sem Seðlabankinn getur í raun ekki brugðist við, þar sem stýrivextirnir eru þegar orðnir of háir og lækkun þeirra handvirkt þýddi að raunstýrivextir yrðu neikvæðir sem gengur náttúrulega ekki upp.
Það er í þessu ljósi sem verður að horfa á þennan sjálfskapaða efnahagslega harmleik í dag.
![]() |
Krónan á enn eftir að veikjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvar er Össur?
1.10.2008 | 10:37
Í veikindum Ingibjargar Sólrúnar var það Össur Skarphéðinsson sem fékk umboð hennar til að ráða þeim ráðum sem Sjálfstæðisflokknum þóknaðist að leyfa Samfylkingunni að vera með í.
Ekki Björgvin G Sigurðsson, bankamálaráðherra, sem virðist nú gegna hlutverki upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, ekki Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður og ekki Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður. Þeim var öllum stillt upp gagnvart orðnum hlut, teknum ákvörðunum.
En hví í ósköpunum er Össur ekki spurður um málið?
Hann er jú ekki vanur að halda aftur af sér sé hann spurður.
Að hjálpa þeim sem þurfa hjálp
1.10.2008 | 09:18
Aðgerðir lögreglunnar beindust að þeim sem ljúga til um uppruna, nafn og aðstæður, eru með fölsuð skilríki, segjast ekki hafa skilríki, eyðileggja þau við komuna, svo þau geti búið frítt hér á meðan mál þeirra er í vinnslu, hugsanlega með von um að fá óréttmæta stöðu flóttamanna.
Asylum shopping er mikið vandamál í flóttamannamálum, þar sem verið er að misnota það góða kerfi sem flóttamannassamningurinn hefur komið á.
Umsækjendur fara á milli landa, sækja um landvist sem flóttamenn, búa þar um hríð á kostnað viðkomandi ríkis, en áður en búið er að úrskurða, draga þeir umsóknina til baka eða flýja land og dúkka upp í næsta landi og sækja aftur um landvist sem flóttamenn og svo koll af kolli.
Til að reyna að stemma stigu við þessu var svokallað Dyflinarsamkomulag II gert, þar sem tekin eru fingraför af hælisleitendum og þau borin saman við gagnagrunn sk. EURODAC til að stytta þetta ferli eins og kostur er.
Á heimasíðu Útlendingastofnunnar er nýjasta ársskýrslan frá 2004. Þar kemur fram að 76 sóttu um hæli og var 63 umsóknum lokið á árinu. 15 umsóknir voru dregnar til baka eða að viðkomandi fór úr landi án þess að draga umsóknina til baka og af þeim 31 sem var synjað voru 10 tilhæfulausar. 17 voru sendir til fyrsta komulands á grundvelli Dyflinarsamnings I og Norðurlandasamningsins.
Af þessum 76 umsóknum fóru aðeins 7 í efnislega afgreiðslu þannig að einungis 10% af þeim sem sóttu um hæli komu til greina sem hugsanlegir flóttamenn. Það verður að kallast mikill minnihluti ekki satt?
Nú hefur komið fram hjá Útlendingastofnun, að fjórir hælisleitendanna höfðu umtalsverðar fjárhæðir í fórum sínum og með gilt dvalarleyfi. Hvað er þetta annað en Asylum shoppers?
Maður með franskt vegabréf er hælisleitandi.
Maður með þungan sænskan refsidóm á bakinu. Er hann einstaklingaur sem við viljum inn í landið?
Auðvitað er það ömurlegt fyrir það fólk sem er ekki að reyna að svindla á kerfinu að þurfa að sæta innrás eins og þeirri sem gerð var í Reykjanesbæ. En hvaða öðrum ráðum er hægt að beita ef rökstuddur grunur er til staðar?
Við eigum að axla okkar ábyrgð í flóttamannamálum. Við höfum verið að gera það svo eftir hefur verið tekið, nú síðast á Akranesi og eigum við að gera meira af því. Það er okkur til sóma og því fólki, sem án nokkurs vafa eru flóttamenn, vonandi til hamingjuauka og til að auðga íslenskt þjóðlíf.
![]() |
Drógu umsóknir til baka eftir húsleit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |