Óábyrgt bull

Eins og bretar séu ekki þegar búnir að valda okkur nægum skaða.

Ef við slítum stjórnmálasambandi við þá, er allt eins víst að þeir telji sig vera komna með afsökun til að taka herskyldi því sem þeir eiga eftir að taka af íslenskum eignum í bretlandi.

Gullvarasjóðinn, Baug, Alfresca og svo getur maður haldið lengi áfram.

Menn eru ekki með öllum mjalla þegar menn leggja þvílíka vitleysu til.

Við eigum að gæta okkar hagsmuna, mótmæla, höfða mál og beita öllum þeim þrýstingi sem við getum, en ekki fara fram með þessum hætti.

Það hittir okkur sjálf verst fyrir og lengir þann tíma sem mun taka okkur að byggja upp traust á alþjóðavettvangi.


mbl.is Af hverju slitum við ekki stjórnmálasambandi við Breta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldmiðilskreppa - Seðlabankinn algerlega rúinn trausti

Frétt um vandræði Ögurvíkur á Vísi.is eru alveg hreint með ólíkindum.

Westminster Bank í Bretlandi tekur ekki mark á reikningi sem fyrirtækið á í Seðlabanka Íslands!!!!!!

Hvað er að gerast?

Það er ekki nóg með að fyrirtækin á Íslandi geti ekki nálgast tekjur sínar erlendis frá, heldur komast þau heldur ekki í sjóði sína á Íslandi.

Það ríkir alger gjaldmiðilskreppa á Íslandi.


mbl.is Mjög róttæk viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af mönnum og músum

Viðtal Björgvins G Sigurðssonar í Kastljósi í gær fannst mér stórgott.

Sú eldskírn sem hann hefur fengið í þessum hamförum hefur greinilega brætt af honum skvap óábyrgrar yfirlýsingagleði og galgopaháttar.

Hann kom fram sem traustur stjórnmálamaður, orðvar og ábyrgur. Vonandi heldur hann áfram á sömu braut. Fyrir vikið hlýtur hann frekar traust en stundarvinsældir.

Því miður hafa formaður, varaformaður og staðgengill formanns Samfylkingarinnar ekki komið fram með sama hætti og uppskáru skammir eins mentors flokksins, Ágústs Einarssonar, fyrir vikið í gær.

En Björgvin verður að losa um íslenskar krónur í fjármálakerfinu í dag, á gjalddaga staðgreiðslu, svo fyrirtæki geti staðið í skilum með hana og aðrar skuldbindingar sínar. Annars er hætta á fjöldagjaldþroti stöndugra fyrirtækja, sem eru okkur svo verðmæt í dag.


mbl.is Skynsamleg ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðin að nýju Íslandi

Eftirfarandi grein eftir mig, Bryndísi Gunnlaugsdóttur formann SUF og Friðrik Jónsson, formann Framsóknarfélags Akraness, birtist í Fréttablaðinu í morgun: 

Þungbært áfall síðustu viku hefur gert okkur það ókleift að halda úti sjálfstæðri mynt. Fyrir hrunið var eðlilegt að skoða og meta alla kosti til hlítar. Gjaldmiðilsskýrsla Framsóknarflokksins sýndi með rökum að kostirnir voru í raun aðeins tveir, en nú blasir aðeins einn kostur við að okkar mati. Upptaka evru í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu er eini raunhæfi valkosturinn í núverandi stöðu ef Ísland á áfram að vera hluti af innri markaði Evrópu.

Atburðir undanfarinna tveggja vikna, meðal annars árangurslaus málaleitan Seðlabankans hjá Englandsbanka og Evrópska seðlabankanum, sýna svo ekki verður um villst að varnaglar og stoðkerfi EES-samningsins eru ekki fullnægjandi hvað varðar frjálsa fjármagnsflutninga.

Sá kostnaður sem mun falla á ríkissjóð í kjölfar atburða síðustu daga, liggur ekki fyrir, en ekki er óraunhæft að ætla að hann geti numið allt að þúsund milljörðum króna. Heilli billjón.

Það er jafnmikið og talið var að þyrfti að hafa í gjaldeyrisvarasjóði til að styðja við krónuna og íslenskt efnahagslíf fyrir hrun fjármálakerfisins. Eftir hrunið er ljóst að gjaldeyrisvarasjóðurinn þarf að vera enn stærri hlutfallslega. Krónan hefur verið auglýst sem mynt sem ekki er hægt að standa á bak við, sérstaklega í kjölfar misheppnaðrar tilraunar Seðlabankans í síðustu viku til að festa gengi krónunnar. Líklega þarf gjaldeyrisvarasjóðurinn af þessum sökum að vera þreföld þessi upphæð, en sérfræðingar kunna betur að meta það.

Einungis vaxtakostnaðurinn af slíkri upphæð, auk þess taps sem er að falla á okkur núna, yrði að lágmarki 100 milljarðar á ári, eða allt að 10% af landsframleiðslu fyrir hrun. Það er að því gefnu að Ísland fengi yfirhöfuð slíka fjármuni að láni til lengri tíma.

Ísland hefur þannig tæplega efni á því til frambúðar að vera með slíka fjármuni liggjandi um leið og greiða þarf niður reikninginn eftir hrunið. Að auki þarf að halda áfram að greiða annan rekstur, s.s. heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfið. Óhugsandi er að aðild að ESB verði Íslandi svo kostnaðarsöm.

Því leggum við til eftirfarandi:

  1. Íslendingar taki boði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) um aðstoð. Í þeirri aðstoð felst m.a. að sjóðurinn mun koma í kjölfarið með verulega fjármuni sem munu styrkja gengi krónunnar og færa það til meiri stöðugleika. Rætt hefur verið um að sjóðurinn, ásamt öðrum aðilum, geti komið með allt að 8-9 milljarða evra að láni hingað til lands. Æskilegt væri að samhliða yrði gerður samningur við Evrópska seðlabankann um að hann samþykki að gengi krónunnar yrði tímabundið fest við evru og hann gefi yfirlýsingu um stuðning sinn við það fyrirkomulag.
  2. Einn eða fleiri af nýju bönkunum verði seldir erlendum banka.
  3. Farið verði í mikla atvinnuuppbyggingu og sköpuð störf fyrir þá sem nú hafa misst vinnuna. Ívilnandi möguleikar gagnvart erlendum fjárfestum verði nýttir til hins ítrasta, en verðmætin í starfsfólkinu og hagsmunir af takmörkun atvinnuleysis eru svo mikil að það er réttlætanlegt.
  4. Sótt verði um aðild að ESB hið fyrsta og samningur um aðild lagður í þjóðaratkvæði. Fordæmi benda til þess að við getum haldið fiskimiðunum fyrir okkur, eins og Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins hefur rakið. Stjórnmálaleiðtogar og æðstu embættismenn sambandsins hafa þegar lýst yfir vilja til samninga um þetta efni.
  5. Samtímis verði þjóðaratkvæðagreiðsla um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá Íslands.
  6. Strax í kjölfar aðildar verði Ísland aðili að gengisstöðugleikasamkomulagi ESB (ERM) og bindi þannig varanlega gengi krónunnar við evru innan ákveðinna vikmarka. Þegar skilyrði Maastricht verða uppfyllt, gerist Ísland aðili að Evrópska seðlabankanum, evra verður tekin upp sem lögeyrir á Íslandi og hægt verður að greiða IMF aftur lán sitt - með þökkum.
  7. Einn eða fleiri af bönkunum yrðu á ný boðnir þjóðinni í dreifðri sölu.
  8. Með þessu verður Íslendingum gert kleift að endurheimta að fullu sitt traust á alþjóðavettvangi, þó það gæti tekið einhver ár.

Að öðrum kosti er líklegt að traust okkar muni seint, ef nokkurn tímann, endurheimtast og við sætum verulegum takmörkunum í alþjóðaumhverfinu. Afleiðingar þessa yrðu þær að lífskjörum hér mun hraka þannig að helst verði hægt að bera þau saman við þróunarlönd. Að auki mun flest okkar besta fólk og bestu fyrirtæki flýja land. Það yrði stærsta tjónið til frambúðar.

Höfundar eru félagar í Framsóknarflokknum.


Bloggfærslur 15. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband