Keisarinn er nakinn!!!
19.10.2008 | 15:48
Það hafa margir kallað þetta hingað til, en núverandi ríkisstjórn hefur ekkert gert í málinu. Líklegast vegna þess að ríkisstjórnin er ekki síður ber.
Davíð sagðist í Kastljósviðtalinu örlagaríka hafa margvarað við ástandinu.
Ef rétt er að seðlabankastjóri vari við tilteknu ástandi og ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks bregst ekki við, þýðir það tvennt:
- Seðlabankastjóri nýtur ekki trúnaðar og hefði því átt að segja af sér sjálfur, fyrst ekki er hlustað á hann. Það átti við nú en ekki síður fyrir hrun.
- Ríkisstjórnin hefur verið enn meira sofandi á verðinum en mann grunaði. Aðvörunarorð seðlabankastjóra eiga að fá menn til að taka til hendinni. Þar er ábyrgð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks mikil.
Seðlabankastjóri fór svo langt út fyrir hlutverk sitt í því viðtali og stórskemmdi hagsmuni Íslands með hætti sem lengi verður í minnum haft. En munum samt eitt:
Össur Skarphéðinsson, þá starfandi utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra, hafði kveðið jafnvel enn fastar að orði daginn áður.
Hans ábyrgð er ekki síður mikil.
![]() |
Jón Baldvin: Seðlabankastjóri þvælist fyrir á strandstaðnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Við verðum að hafa gjaldmiðil
19.10.2008 | 10:28
Vinur minn lagði til á dögunum að við tækjum upp lató-hagkerfið. Það nyti meira trausts en krónuhagkerfið.
Það er alveg rétt hjá honum. Við verðum að hafa gjaldmiðil. Meðan enginn vill taka við því sem við köllum íslenska krónu í dag með eðlilegum hætti, höfum við ekki gjaldmiðil.
Menn fá ekki eðlileg kjör í viðskiptum og erfitt að sjá hvernig íslenskt atvinnulíf fái yfirhöfuð þrifist án gjaldmiðils.
Við getum einungis endurheimt gjaldmiðil, með því að tengja okkur öðrum gjaldmiðli með gengissamningi, og það fæst enginn til þess nema við semjum við IMF um aðkomu þeirra, sem aftur er grundvöllur aðkomu annarra lánveitenda.
Sú aðkoma er einungis tímabundin, svo á þeim stutta tíma sem slík aðstoð varir, þarf að finna gjaldmiðilsmálum varanlegan farveg. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að eina færa leiðin til frambúðar er að taka upp evru og það þýðir að við verðum að sækja um inngöngu í ESB.
Ef við hlustuðum á heimastjórnarmannahluta stjórnmálaflokkanna og héldum í krónuna lítt sem ekkert breytta og án framtíðarsýnar um sterkan seðlabanka, mun dollara og evruhagkerfi þróast mun víðtækar hér á landi en áður.
Öll fyrirtæki sem hafa gjaldeyristekjur, munu reyna að greiða sín útgjöld í þeim gjaldmiðli, enda mun betri kjör í boði hjá þeim sem bjóða innfluttar vörur, sem gætu jú greitt vörur án gengisáhættu og svo koll af kolli. Þetta er þegar hafið í talsverðum mæli, en mun aukast verulega og munu fyrirtæki vafalaust þróa leiðir fljótt til að minnka áhættu sína.
Launþegar munu einnig vilja fá greitt í erlendum gjaldmiðli eins og kostur er, en meðan íslenska krónan er lögeyrir hér á landi, verður að reikna launin í íslenskum krónu, til að hægt sé að gera upp skatta og skyldur. Sömuleiðis mega opinberir starfsmenn ekki fá greitt í öðru en lögeyri.
En margir á einkamarkaði munu efalaust þrýsta um að fá samt greidd laun í erlendum gjaldmiðli sem aftur mun þróa dollarabúðir eins og við höfum séð í Rússlandi, Kína og víðar. Þeir sem fengju hluta launa sinna í erlendri mynt myndu auk þess geta fjármagnað húsnæði sitt á lægri vöxtum, án gengisáhættu.
Þar með yrði þjóðinni skipt í þá sem hafa möguleika og þá sem ekki hafa þá. Það er óhugsandi í mínum huga.
Hægt er að koma í veg fyrir þessa skiptingu þjóðfélagsins með því að taka upp fasttengingu og í framhaldinu að taka upp nýja mynt.
![]() |
Ákvörðun á allra næstu dögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)