Ábyrg stjórn borgarinnar
1.11.2008 | 15:27
Nú stendur borgin og önnur sveitarfélög landsins frammi fyrir gerbreyttu rekstrarumhverfi.
Snarminnkaðar útsvarstekjur, minnkuð lóðasala og skil á lóðum setja stór strik í allar fjárhagsáætlanir um leið og fyrirsjáanlegt er að þörf fyrir velferð snareykst.
Það er því afar gott skref sem Óskar Bergsson og Hanna Birna stigu með sínum borgarstjórnarflokkum þegar þau buðu minnihlutaflokkunum í þá vegferð að fara í gegnum öll svið borgarinnar, veltu við öllum steinum, þannig að hægt sé að bregðast við þessu með stofnun aðgerðarhóps um fjármál borgarinnar.
Varnarlínan er dregin við að ekki eigi að segja upp starfsfólki, ekki eigi að draga úr grunnþjónustu og ekki eigi að hækka gjöld á grunnþjónustu.
Sú vinna er á lokametrunum og verður kynnt innan skamms.
Til hliðar við þá vinnu eru svo stofnframkvæmdir sem munu byggja á aðgengi að lánsfé.
Með því að leggja áherslu á mannaflsfrekar framkvæmdir er borgin því að forgangsraða hárrétt og er að koma fram af ábyrgð í breyttu samfélagi.
Ég er stoltur af því að taka þátt í þessari vinnu og leggja mitt af mörkum til hennar. Mér er til efs að annað meirihlutamynstur í borginni hefði þolað að fara í svona vinnu.
![]() |
Reykjavík íhugar framkvæmdir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samfylkingin flýr í árásir á Davíð Oddsson
1.11.2008 | 11:57
Aðferð Samfylkingarinnar til að hlaupast undan ábyrgð og fela eigin axarsköft þessa dagana er að ráðast á Davíð Oddsson.
Verið er að innleysa það að öllum sé ljós persónuleg óvild Ingibjargar Sólrúnar og Davíðs. Þessu ímyndarstríði er áfram haldið til að reyna að halda umræðunni frá öðru.
Nú síðast segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir í Markaðnum að reka ætti Davíð Oddsson fyrir að leiðrétta lygar ráðherra ríkisstjórnarinnar. Hún sleppir því algerlega að nefna það að Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar fór greinilega rangt með í ræðustól á Alþingi.
Skiptir það engu máli?
Það er ódýrt að segja að ráðning Seðlabankastjóra sé á könnu forsætisráðherra og þar með sé það ekki mál Samfylkingarinnar. Samfylkingin er í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og ef Samfylkingin telur að Davíð sé slík orsök vandans og brottvikning hans sé forsenda allra framfara, sem ég ætla ekki að leggja mat á núna hvort sé rétt, ber henni skylda til að hóta stjórnarslitum ef það gerist ekki.
Það á ekki að gerast í fjölmiðlum, heldur við ríkisstjórnarborðið. Í trúnaði.
Allt annað er lýðskrum og það ósamlyndi sem Samfylkingin er að róa að með þessum hætti er þjóðinni stórskaðlegt.
Ríkisstjórnin á að fara að ráðleggingu Jóns Sigurðssonar fv. formanns Framsóknar: Við eigum að standa saman og viðurkenna okkar ábyrgð.
![]() |
Ingibjörg segir Davíð skaða orðsporið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |