Skjótt skipast veður í lofti - Guðni hættir
17.11.2008 | 17:57
Eftirmæli Guðna sem stjórnmálamanns eru góð, þótt Framsókn hafi ekki komist á flug með hann sem formann. Hann tók við Landbúnaðarráðuneytinu á tímum þar sem kratískur harmakór hafði talað landbúnaðinn niður með þeim hætti að djúp gjá hafði myndast milli bænda og neytenda.
Þá gjá brúaði Guðni með framgöngu sinni og bjartsýni.
Hver talar illa um íslenskan landbúnað í dag?
Það gera ekki nema örfáir kratar.
Það blésu margir vindar á miðstjórnarfundi Framsóknar um helgina. Að þeir vindar myndu feykja Guðna af stóli kom mér á óvart, en krafan um breytingar er sterk í öllu samfélaginu - það skynjaði Guðni greinilega, þrátt fyrir að hann hafi í rauninni ekkert til saka unnið sem ráðherra, þá sat hann í ríkisstjórn sem er nú að ósekju dæmd mjög hart, en stjórnmálin eru ekki sanngjörn. Það ættu þau að vita sem gefa kost á sér í stjórnmálabaráttu.
Það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif þetta hefur á stöðu annarra þeirra sem eru í forystu í dag. Hvaða pressu setur þetta á Geir H Haarde, sem var fjármálaráðherra í síðustu ríkisstjórn og efnahagsmálaráðherra á þeim tíma sem viðvörunarljós kreppunnar fóru að blikka, en aðhafðist ekkert? Þorgerður Katrín er í erfiðri stöðu eftir umræðuna um að maður hennar þurfi ekki að standa við skuldir sínar við Kaupþing, meðan almenningur þarf að standa við sínar skuldbindingar. Forysta Samfylkingarinnar lofaði öllum öllu allstaðar fyrir síðustu kosningar og hafa ekki sýnt ábyrga framkomu síðan þau settust í ríkisstjórn. Ábyrgð bankamálaráðherra er mikil, sem og starfandi utanríkisráðherra, sem söng það falskt að bretar réðust á okkur, lag sem kannski var ágætt, en söngtæknin var hörmuleg. Valgerðar Sverrisdóttur, sem nú tekur við formennsku í Framsókn, bíður það verkefni að útskýra gjörðir sínar meðan hún var viðskiptaráðherra, hvort og þá hvað hún hefði getað gert til að koma í veg fyrir hrunið. Ef hún fær að útskýra sitt mál ætti hún að fá að njóta sannmælis, en það er spurning hvort reiðin í samfélaginu sé henni um megn. Steingrímur J er algerlega andstæður ESB aðild, þvert á stuðning meginþorra stuðningsmanna VG.
Það má segja að við lifum á áhugaverðum tímum.
Reiðin í samfélaginu er mikil enda er fólk sem hefur ekkert gert af sér að lenda í miklum vandræðum, lánin hækka vegna vísitölubindingar og gengishruns og eignaverð lækkar.
Framsókn lagði til ákveðnar lausnir í því sambandi núna um helgina, enda flokkur sem talar í lausnum. Að þeim sem skulda vísitölulán verði gert kleyft að taka lán fyrir vísitöluhækkun næstu 12 mánaða og flytja það lán afturfyrir.
Það er þörf á Framsókn við stjórn landsins.
![]() |
Horft á eftir farsælum forystumanni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |