Skjótt skipast veður í lofti - Guðni hættir

Eftirmæli Guðna sem stjórnmálamanns eru góð, þótt Framsókn hafi ekki komist á flug með hann sem formann. Hann tók við Landbúnaðarráðuneytinu á tímum þar sem kratískur harmakór hafði talað landbúnaðinn niður með þeim hætti að djúp gjá hafði myndast milli bænda og neytenda.

Þá gjá brúaði Guðni með framgöngu sinni og bjartsýni.

Hver talar illa um íslenskan landbúnað í dag?

Það gera ekki nema örfáir kratar.

Það blésu margir vindar á miðstjórnarfundi Framsóknar um helgina. Að þeir vindar myndu feykja Guðna af stóli kom mér á óvart, en krafan um breytingar er sterk í öllu samfélaginu - það skynjaði Guðni greinilega, þrátt fyrir að hann hafi í rauninni ekkert til saka unnið sem ráðherra, þá sat hann í ríkisstjórn sem er nú að ósekju dæmd mjög hart, en stjórnmálin eru ekki sanngjörn. Það ættu þau að vita sem gefa kost á sér í stjórnmálabaráttu.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif þetta hefur á stöðu annarra þeirra sem eru í forystu í dag. Hvaða pressu setur þetta á Geir H Haarde, sem var fjármálaráðherra í síðustu ríkisstjórn og efnahagsmálaráðherra á þeim tíma sem viðvörunarljós kreppunnar fóru að blikka, en aðhafðist ekkert? Þorgerður Katrín er í erfiðri stöðu eftir umræðuna um að maður hennar þurfi ekki að standa við skuldir sínar við Kaupþing, meðan almenningur þarf að standa við sínar skuldbindingar. Forysta Samfylkingarinnar lofaði öllum öllu allstaðar fyrir síðustu kosningar og hafa ekki sýnt ábyrga framkomu síðan þau settust í ríkisstjórn. Ábyrgð bankamálaráðherra er mikil, sem og starfandi utanríkisráðherra, sem söng það falskt að bretar réðust á okkur, lag sem kannski var ágætt, en söngtæknin var hörmuleg. Valgerðar Sverrisdóttur, sem nú tekur við formennsku í Framsókn, bíður það verkefni að útskýra gjörðir sínar meðan hún var viðskiptaráðherra, hvort og þá hvað hún hefði getað gert til að koma í veg fyrir hrunið. Ef hún fær að útskýra sitt mál ætti hún að fá að njóta sannmælis, en það er spurning hvort reiðin í samfélaginu sé henni um megn. Steingrímur J er algerlega andstæður ESB aðild, þvert á stuðning meginþorra stuðningsmanna VG.

Það má segja að við lifum á áhugaverðum tímum.

Reiðin í samfélaginu er mikil enda er fólk sem hefur ekkert gert af sér að lenda í miklum vandræðum, lánin hækka vegna vísitölubindingar og gengishruns og eignaverð lækkar.

Framsókn lagði til ákveðnar lausnir í því sambandi núna um helgina, enda flokkur sem talar í lausnum. Að þeim sem skulda vísitölulán verði gert kleyft að taka lán fyrir vísitöluhækkun næstu 12 mánaða og flytja það lán afturfyrir.

Það er þörf á Framsókn við stjórn landsins.


mbl.is Horft á eftir farsælum forystumanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig í ósköpunum er hægt að treysta Framsókn? Þegar horft er til hvernig ástandið er í honum.

 Kveðja,

Ólafur Sveinn Haraldsson (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 19:35

2 Smámynd: Sævar Helgason

Nú er Framsókn farin og allar líkur á að Sjálfstæðisflokkur sé á sömu leið.

Gríðarleg uppstokkun virðist framunda í íslenskum stjórnmálum.

Sævar Helgason, 17.11.2008 kl. 21:02

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það er ljóst að ESBsinnum hefur fjölgað um einn.Það er algört grunvallaratriði að Valgerður hætti líka eftir landsfundinn.

Sigurgeir Jónsson, 17.11.2008 kl. 21:09

4 Smámynd: haraldurhar

    Gestur ég ætla þér að vita afhverju Guðni sagði af sér í dag. Eg tel að hann hafi verið rúinn trausti, og gert sér grein fyrir því að hann réði ekki við starfið.  Guðni hefur ætið verið heldur verksmár, og ekki notið traust ráðandi manna í Framsóknarflokknum í ára raðir, og ætti þér að nægja að rifja upp í huga þér uppákomuna á Þingvöllum.   Hlutvert Framsóknarflokksins er búið í ísl.stjórnmálum, en hann hefur verið einskonar próventukerling í stjórnarsamtarfi bæði til hægri og vinsti í áratugi.  Nú þegar hann getur ekki skaffað nein embætti bitlinga, né útdeilt eigum ríkisins á hann ekkert hlutverk í ísl. pólitík.  Svo einfalt er það.

haraldurhar, 17.11.2008 kl. 23:38

5 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Gestur: Ég tel að við í Framsókn þurfum nýja forystu. Forystu sem er ekki tengd því sem á undan er gengið í íslenskri landspólitík. Forystu sem sameinar fólk og fylkir á bak við sig. Það getur aðeins gerst ef fólkið í henni, sérstaklega formaður og varaformaður, er búið ótvíræðum mannkostum. Þarna þarf að veljast einstaklega drengilegt fólk sem kann að tala til fjöldans þannig að við skiljum. Það þarf að verða okkur ljóst að forystufólkið sé á borði en ekki bara í orði, að það sé jafn heilt og heiðarlegt hið innra og öðrum sýnist.

Það þarf að tala inn ný gildi. Eins og sagt er í Mbl. í dag að flokksmenn hafi gagnrýnt skipun í ný bankaráð, og sagt fyrir "neðan virðingu" Framsóknar að skipa í þau pólitískt. Ég er svo sammála þessu. Framsókn þarf að marka sér stefnu í þessum anda. Kveðja gömlu pólitíkina sem allir voru í fyrir 20 árum, og einkenndist af hagsmunapoti. Það er fyrir neðan virðingu Framsóknar að flokkurinn skuli hafa á sínum tíma tekið þátt í slíku, en í eina tíð gerðu þetta allir. Við þurfum að segja bless við þetta alltsaman.

Haraldur: Það eru stór orð að flokkurinn hafi verið eins konar próventukerling bæði til hægri og vinstri, í áratugi. Á sínum tíma var flokkurinn næststærsti flokkurinn, höfuðkeppinautur sjálfstæðismanna. Hann var ekkert varahjól af neinu tagi. Hann var ábyrgur stjórnmálaflokkur sem vann að því að í landinu væru ábyrgar ríkisstjórnir. Fyrir 1974 var það afar sjaldgæft að ríkisstjórn landsins væri samstjórn B+D. Á árunum 1971-1991 kom það nokkrum sinnum fyrir að í landinu væri vinstristjórn. Þó ég sé persónulega fylgjandi slíku stjórnarmynstri þá hefur það verið erfitt í vöfum vegna þess að það hefur þurft 3 eða fleiri flokka til þess, og ávallt hafa einhverjir af forystumönnum hinna flokkanna verið mjög ósveigjanlegir og kunnáttulitlir í að halda úti starfhæfri ríkisstjórn. Tvær þeirra sprungu áður en kjörtímabili lauk (1974 og 1979) af því að pólitíkusar sem tóku þátt ætluðu að slá sjálfa sig til riddara frekar en að hugsa um þjóðarhagsmuni. (Flokkur Hannibals '74 og kratar '79). Vinstri stjórnin '88-89 kláraði sitt kjörtímabil, hún tók við eftir að önnur stjórn sprakk fyrir tilverknað Þorsteins Pálssonar; en eftir kosningar leist Davíð og Jón Baldvin svo vel á að vinna saman að vinstra samstarfið varð ekki langlíft. Stjórn Gunnars Thoroddsens '79-83 var hálfgerð vinstristjórn að því leyti að Framsókn og Alþýðubandalag voru aðal-þingstyrkurinn, en hún á ekki góð eftirmæli (óðaverðbólga).

Af þessum völdum þá hefur það oft komið fyrir síðan '74 að sjálfstæðismenn hafi verið í ríkisstjórn, ýmist með krötum eða Framsókn. Svo virðist sem kratar séu sá félagi sem íhaldið kýs helst, en þeir hafa verið mjög fylgislítill flokkur lengst af síðan þeir voru í 12 ára samstarfi við íhaldið '59-71. Aðeins '91-95 höfðu þeir tveir flokkar nægan þingstyrk til að starfa saman.

Fyrir tíma stjórnar Davíðs og Halldórs hefur því ekki verið auðvelt að halda úti vinstristjórn, og sjálfstæðismenn átt erfitt að mynda tveggja flokka stjórn með krötum. Framsóknarmenn voru það ábyrgir að snúa sér ekki út í horn eins og Vinstri-grænir hafa gert og eins forverar þeirra, Alþýðubandalagið.

Um stjórn Davíðs og Halldórs ætla ég ekki að fjölyrða. Ég var búinn að fá upp í kok á Halldóri og alvarlega farinn að íhuga að kjósa annað, þegar Jón Sig. tók við.

Einar Sigurbergur Arason, 18.11.2008 kl. 15:23

6 Smámynd: haraldurhar

   Einu sinni fyrir margt löng var merkur stjórnmálamaður er sagði allt er betra en Íhaldið. 

haraldurhar, 19.11.2008 kl. 13:28

7 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Kannski er allt betra en íhaldið - en því miður lendum við stundum í því að það tekst ekki að mynda starfhæfa ríkisstjórn án D. Þetta hefur verið ofvaxinn flokkur, og fitnað því meira sem fleiri stjórnmálaöfl bjóða fram á hinum vængnum, því þeir hafa náð árangri með þann áróður að stjórn án þeirra væri svo sundurlaus og hver höndin á móti annarri. Ef við skoðum pólitíska landslagið undanfarið þá eru til stjórnmálaöfl sem eru ekkert spennandi fyrir aðra flokka að starfa með. Forystumenn VG eru fastir á meiningu sinni - það getur verið kostur - en þeir eru svo ósveigjanlegir að það er mjög erfitt fyrir þá að standa í þeim málamiðlunum sem eru nauðsynlegar á milli flokka til að geta verið saman um ríkisstjórn. Eflaust eru til innan VG einstaklingar sem kunna betur með þetta að fara, sumir nefna Svandísi Svavarsdóttur í því sambandi, ég þekki það ekki.

Einar Sigurbergur Arason, 21.11.2008 kl. 01:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband