Framsókn talar í lausnum

Venju samkvæmt, talar Framsókn í lausnum. Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins, sem haldinn var í gær samþykkti eftirfarandi stjórnmálaályktun um ástandið. Staðan er grafalvarleg og ekki ábyrgt að vera að reyna að slá pólitískar keilur eins og staðan er núna. Allir verða að leggjast á eitt til að komast út úr stöðunni og þeir sem ekki eru í ríkisstjórn gera sitt með því að leggja gott til, sem var gert í þessari ályktun:


Núverandi staða

Íslenskt efnahagslíf stendur nú frammi fyrir meiri vanda en það hefur nokkru sinni gert áður á lýðveldistímanum. Við blasir hrun bankakerfisins, algjört vantraust á gjaldmiðli þjóðarinnar, veruleg eignaskerðing lífeyrissjóðakerfisins, stórfellt atvinnuleysi, eignatap einstaklinga og fyrirtækja og að skuldir heimila og fyrirtækja eru að sliga rekstur þeirra og framtíðarmöguleika. Ljóst er að mikill halli mun verða á fjárlögum ríkissjóðs og að skuldir hans munu margfaldast á næstu árum.

Ólögmætar árásir bandalagsþjóða á íslenska hagsmuni eru fordæmalausar og ólíðandi, enda eiga samskipti við nágranna- og viðskiptaþjóðir að grundvallast á þeim alþjóðasamningum sem Íslendingar eru aðilar að. Nauðsynlegt er að stjórnvöld landsins standi fast gegn öllum öðrum kröfum en þeim sem þjóðinni ber lögum samkvæmt að gangast undir og hiki ekki við að leita niðurstöðu dómstóla ef þurfa þykir.

Við þessar aðstæður er óþolandi með öllu að við völd situr ríkisstjórn sem, þrátt fyrir mikinn þingmeirihluta, er ósamstíga og sundurleit. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ástundað vinsældakapphlaup í stað ábyrgrar samstöðu á erfiðum tímum og nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við aðsteðjandi vanda reka á reiðanum. Framsóknarmenn hafa í rúmt ár varað mjög við þeirri stöðu sem þjóðarbúið er nú komið í og þeim óveðursskýjum sem stefndu að landinu erlendis frá. Þannig lýsti forsætisráðherra því m.a. í skýrslu sinni um efnahagsmál 2. september s.l. að þær efnahagsþrengingar sem væru framundan „væru vissulega krefjandi verkefni en ekki neyðarástand eða raunveruleg kreppa eins og Íslendingar kynntust fyrr á árum” og að við þyrftum „öll að búa okkur undir tímabundnar fórnir og minnkandi kaupmátt um hríð”. Skyldi forsætisráðherra enn vera sömu skoðunar? Miðstjórn Framsóknar lýsir því yfir vantrausti á þá ríkisstjórn sem nú situr.

Nauðsynlegar aðgerðir

Þrátt fyrir mikil áföll er Ísland land tækifæranna og framtíðin er björt, ef rétt er haldið á málum. Endurreisa þarf traust milli
ríkisstjórnar, Alþingis, stofnana þjóðfélagsins og þjóðarinnar. Miðstjórn Framsóknarflokksins varar sterklega við því að brugðist verði við núverandi efnahagskreppu með höftum, hækkun skatta eða öðrum þeim aðgerðum sem hindra kunna viðskipti eða fjármagnsflutninga milli landa. Framsóknarflokkurinn telur að á næstu vikum og misserum sé mikilvægt að ráðist verði í viðamiklar skammtíma- og langtímaaðgerðir til styrktar almenningi og fyrirtækjum í landinu.

Brýnustu aðgerðir eru eftirfarandi:

• Uppbygging markvissrar útflutningsstefnu í atvinnulífinu. Íslendingar eru háðari alþjóðaviðskiptum en flestar aðrar
þjóðir. Framtíðarhagvöxtur Íslands þarf að byggjast á útflutningi vöru og þjónustu sem tekur mið af hæsta mögulega virðisauka í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Einn mikilvægasti þáttur í útflutningsstefnunni þarf að vera stuðningur við
nýsköpun í gegnum rannsóknar- og þróunarstarf innan veggja fyrirtækja, háskóla og opinberra stofna og með stuðningi við sprotafyrirtæki.

• Hlúa þarf að innlendri framleiðslu landbúnaðarvara. Ljóst er að þeir umbrota- og óvissutímar sem nú ríkja kalla á ný sjónarmið varðandi landbúnaðarframleiðslu á Íslandi. Miðstjórn Framsóknarflokksins minnir á nauðsyn þess að íslenskur landbúnaður búi við þau starfsskilyrði að hann geti framleitt og tryggt þjóðinni helstu nauðsynjar á sviði matvæla.

• Mikilvægt er að ekki verði hróflað við stjórnkerfi fiskveiða við núverandi aðstæður. Miðstjórn telur samt nauðsynlegt að
undirbúa aðlögun kerfisins að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem og önnur fyrirtæki landsins þurfa að búa við öryggt rekstrarumhverfi að svo miklu leyti sem hægt er. Veiðar, vinnsla og útflutningur sjávarafurða gegna lykilhlutverki í að leiða þjóðina upp úr þeim djúpa öldudal sem hún er nú í.

• Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins telur að tilraunir með að halda úti minnsta sjálfstæða gjaldmiðli heimsins hafi  beðið skipbrot. Misráðnar ákvarðanir seðlabankastjóra vega ekki hvað síst þungt í þeim efnum og blasir því við að víkja þarf bankastjórn Seðlabanka Íslands og yfirstjórn Fjármálaeftirlits frá störfum og endurskoða stjórnkerfi þessara stofnana og þá peningamálastefnu sem þjóðin þarf að búa við næstu misserin. Tiltrú alþjóðasamfélagsins á íslensku krónunni er enginn sem lýsir sér m.a. í gríðarlegu gengisfalli með tilheyrandi verðbólguvexti, skuldasöfnun heimila og fyrirtækja, fyrirsjáanlegri gjaldþrotahrinu, atvinnuleysi og landflótta. Þessu þarf að bregðast við af fullri alvöru með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

• Skoða þarf allar mögulegar leiðir til að afnema hina umfangsmiklu vísitölubindingu sem nú ríkir í fjármálakerfinu. Ekkert þróað hagkerfi býr við jafn umfangsmikla vísitölubindingu og hið íslenska. Ljóst að áframhaldandi notkun hennar mun verulega takmarka notkun þeirra hagstjórnartækja sem við höfum til að ná hagkerfinu upp úr efnahagslægðinni. Samtímis er hins vegar nauðsynlegt að benda á mikilvægi þess að tryggja hagsmuni sparifjáreigenda í þjóðfélaginu, þar sem innlendur sparnaður verður undirstaða fjárfestinga í atvinnulífinu á næstu árum.

• Huga þarf vel að börnum og fjölskyldum landsins. Ríki og sveitarfélög eiga að leita leiða til þess að fjölskyldan og
einstaklingarnir geti borið höfuðið hátt og haldið reisn sinni í þeim erfiðleikum sem að steðja. Í ljósi þess er mikilvægt að efla alhliða forvarnir. Skoða ber ítarlega þá kosti sem í boði eru til að létta undir með fjölskyldum landsins, eins og að bjóða skuldbreytingu á vísitöluhækkun lána næstu 12 mánuði. Miðstjórn Framsóknarflokksins leggur áherslu á að sveitarfélögunum verði gert mögulegt að sinna mikilvægum nærþjónustuverkefnum sem sífellt verður meiri þörf fyrir. Þau þarf hugsanlega að útvíkka, t.d. með fríum skólamáltíðum eða lækkun kostnaðar við dagvistun. Því má ekki fella á brott 1,4 milljarða viðbótarframlag ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

• Ráðast þarf strax í endurskipulagningu bankakerfisins með það að markmiði að koma eignarhaldi þeirra sem fyrst úr ríkiseigu. Mikilvægt er að við sölu bankanna verði sérstaklega gætt að því að slíkt ferli verði gegnsætt og tryggi hagsmuni almennings í landinu. Miðstjórn Framsóknarflokksins bendir á kosti þess að hluti bankakerfisins sé í erlendri eigu.

• Miðstjórn Framsóknarflokksins krefst þess að settar verði skýrar og gegnsæjar reglur um hvernig farið verður með afskriftir skulda og skuldbreytingar viðskiptavina nýju ríkisbankanna og varar sterklega við þeirri hættu sem hefur skapast á að eignum ríkisbankanna kunni að verða ráðstafað á grundvelli pólitískra tengsla en ekki á viðskiptalegum forsendum.

• Efla þarf starfsemi Íbúðarlánasjóðs, t.d. með því að rýmka reglur um endurbótalán til einstaklinga og sveitarfélaga til viðhalds á eigin húsnæði. Hins vegar ber að varast að leggja á Íbúðalánasjóð of þungar byrðar með yfirfærslu lána úr bankakerfinu, sem fóru langt fram yfir veðheimildir og hámarkslán eins og þau voru á hverjum tíma.

• Leggja þarf í sérstakt átak til að bæta ímynd Íslands erlendis með markvissu kynningarstarfi. Ljóst er að ímynd Íslands
hefur beðið mikinn hnekki á undanförnum vikum og allskyns ranghugmyndir eru í gangi um hver sé ábyrgð ríkissjóðs Íslands á skuldbindingum sem íslensku bankarnir stofnuðu til erlendis, þá í einkarekstri. Ef ekki verður gripið til markvissra aðgerða nú þegar er hætta á að viðskiptahagsmunir annarra íslenskra fyrirtækja og alls óskyldra kunni að skaðast verulega.

• Vegna mikilla umbrota í íslensku efnahagslífi er mikilvægara en áður að efla símenntun, verkmenntun og  fullorðinsfræðslu. Miðstjórn Framsóknarflokksins hvetur til þess að þetta sé unnið í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og Samtök atvinnulífsins.

Miðstjórn Framsóknarflokksins varar við þeirri leið sem ríkisstjórnin leggur fram til stuðnings fjölskyldum og heimilum í
landinu. Fólk leggur mikið á sig til að standa við skuldbindingar sínar á erfiðum tímum. Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar hvetja til vanskila í stað þess að gera fólki auðveldara að standa í skilum með skuldbindingar sínar. Í raun er ríkisstjórnin að hvetja til viðskiptalegs siðrofs og vanskila sem leiðar út úr vandanum. Leið ríkisstjórnarinnar, að gera stóran hluta þjóðarinnar að vanskilamönnum, er alger uppgjöf gagnvart verkefninu.

Miðstjórn Framsóknarflokksins telur að aðstæður í samfélaginu kalli á endurmat í íslensku samfélagi. Framsóknarflokkurinn þarf að eiga frumkvæði í því endurmati. Þar þarf að halda fram hugsjónum flokksins í bráð og lengd af bjartsýni og festu. Í þeirri vinnu þarf að leggja rækt við samvinnu og félagsleg og mannleg gildi. Að þeirri vinnu þurfa sem flestir flokksmenn að koma, auk utanaðkomandi aðila. Framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins er falið að setja þá vinnu af stað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér finnst þeir raunar tala í frösum og gátum. Ég hef aldrei séð jafn mikið innihaldslaust bla bla í jafn mörgum orðum. Svona yfirborðslegar stefnuyfirlýsingar segja akkúrat ekki neitt, þegar ekki er skýrt hvað í yfirlýsingunum felst.

Mér fannst eins og þetta hafi verið dikterað upp eftir Guðna í einhverskonar transi.  Þú hlýtur að vera sammála því.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.11.2008 kl. 13:55

2 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Þeir verða þá að flytja frumvörp um lausnirnar á þingi þá verður tekið mark á þeim nú eru komnir aðstoðarmenn sem geta hjálpað til við þessi frumvörp það verður að fara að vinna meðan stjórnarflokkarnir eru frosnir. Þingmenn kvarta um að fá ekkert að gera þá verða þeir sjálfir að búa til starfið. Starfsmenn á plani verða að fara að leggja línurnar fyrir staflið sem sefur.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 16.11.2008 kl. 18:30

3 Smámynd: Johnny Bravo

Síðasta ríkisstjórn drap krónuna ekki seðlabankinn, eintóm þensla engin afgangur þó að því sé haldið fram.  Þegar Seðlabanki hækkar vexti þá slær það á þensla bæði til langstíma og til skammstíma, langtíma vegna þess að fyrirtæki og einstaklingar eyða minna og allavega ekki því sem þeir borga í vexti og skammstíma með því að styrkja gjaldmiðilinn og þetta gefur ríkisstjórn ráðrúm til að hafa mikinn afgang af ríkissjóði og þá lækkar verðbólgan og svo vextirnir, ef endalaust er þanið þá endar það með því að illa fer og það vita allir nú.

Það er verk ríkistjórnar að ná niður þenslu og lækka þannig verðbólgu og vexti og fá þannig vexti og gjaldmiðil til að vera á eðlilegum nótum svo er líka gott að geta borgað upp framtíðar skuldbindingar eins og lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna eiga lausafé í seðlabanka til að taka yfir bankakerfi eða veita því lán á meðan reynt er að selja eignir hægt svo að það fáist eitthvað fyrir þær og vera ekki neyddur til að borga skuldir af því að mann vantar lán og svo er líka hægt að ávaxta peninga í stórum rafmagns-fiskisjóð, svipað og norðmenn.

Finndu þér upplýsingar um hækkun krónutölu á fjárlögum 2003-2007 10% 17% á ári, alltaf hækka vextirnir en ríkisstjórnin brást ekki við, lækkar meira að segja skatta sem er mjög erfitt verðbólgulega séð og á ekki að gera nema að vextir og verðbólga sé lág.

Þú veist líka alveg hverjir hafa verið í seðlabananum síðan 2000 og hverjir hafa verið ráðherrar yfir viðskiptum og bönkum. Svo stendur að það eiga að vera gegnsæi þegar bankarnir verða einkavæddir næst á þá ekki bara að Finna flakkara til að taka við þeim.

Sjóða sukk er verið að boða aftur, hjálpa landbúnaði hjálpa nýjum fyrirtækjum og hjálpa útflutningi. Um að gera að finna skammtíma lausn á þessu og vera ekki að láta fólk verða atvinnulaust og gjaldmiðill veikan í svo mikið sem 6-18mánuði þetta eru náttúrulega bestu aðstæður til útflutnings sem hugsast getur.

Á svo að nota afnám verðtryggingar eins og eitthvað nýtt fíkniefnaloforð, gæti reddað flokknum 5% fylgi en ef verðtrygging er afnuminn þá þurfa vextir að hækka um 3-5% og ætti ekki að vera búið að þessu?

Þessi mál gera það að verkum að ég get aldrei orðið frammari og versnaði bara með því að vilja fara í tollabandalag sem er viðskiptastríði við 3 heiminn og hefur beitt sér fyrir öllu vondu fyrir okkur síðustu 2mánuði.40% af fjárlögum samtakana eru líka landbúnaðarstyrkir og restin er atvinnuuppbyggingar sjóðasukk enda 7,7% atvinnuleysi í þessum æðislegur samtökum.

Einnig má benda á að það tekur samt 4ár að fá EVRU þó við komumst inn í samtökin. Og sá halli sem ríkið þarf að hafa næstu árinn er bannaður í ESB þar eru talað um 3% af landsframleiðslu hámark. Það eru 39ma. veit ekki hvort fyrirtæki ríkisins eru með en það verður erfitt að byggja virkjanir þá. Kárahnjúkar kostuðu 133ma. á 2árum og eru stór þáttur í ástandinu núna. Ég neita að það sé ekki hægt að finna stjórnmálamenn sem vita þetta og nota sem viðmiðunarreglu og það þurfi að setja reglur um þetta. Væri hægt að setja þær í stjórnarskrá.

En það má segja Framsóknarmönnum til mikilágætis að þeir tala fallega, trúa á þjóðlega hluti og vilja virkja fyrir rafmagni.

Johnny Bravo, 16.11.2008 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband