Stenst kjarasamningaútspil ríkisstjórnarinnar stjórnarskrána?

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við lúkningu kjarasamninga segir meðal annars:

  • "Þá mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að stimpilgjöld falli niður vegna lána til kaupa á fyrstu fasteign.
  • Jafnframt verður komið á húsnæðissparnaðarkerfi með skattafrádrætti, fyrir einstaklinga 35 ára og yngri, til að hvetja til sparnaðar hjá þeim sem hyggja á fyrstu kaup eigin húsnæðis eða búseturéttar. "

Einhvernvegin held ég að þessi loforð standist illa eftirfarandi:

"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna"

Þetta er 65. grein Stjórnarskrárinnar.

Þótt hugurinn í tillögum ríkisstjórnarinnar sé góður, eru þessar vanhugsaðar og kalla á svindl, ójafnrétti og mismunun sem stenst ekki skoðun eins og svo margar sértækar kratískar lausnir.

Par sem sleppir því að skrá sig í sambúð, heldur kaupir annað fyrst íbúð og svo þegar hitt hefur keypt næstu íbúð fá þau tvöfaldan afslátt af stimpilgjaldinu, sem heiðarlegt par sem skráir sig strax í sambúð nýtur ekki. Hélt að hagnaðurinn af þessu sambandsskráningarsvindli væri nú nægur fyrir, svo ekki sé bætt enn í. Hvernig á svo að meðhöndla þennan rétt við sambúðarslit? Það eru uppgrip framundan hjá lögfræðingum þessa lands, svo mikið er víst.

Tillagan um niðurfellingu stimpilgjalds við kaup á fyrstu íbúð hlýtur einnig að vera mismunun á stöðu minni sem íbúðakaupanda gagnvart þeim sem hefur ákveðið að leigja hingað til, ef ég hef einhverntíma á lífsleiðinni keypt mér íbúð. Vaxtabæturnar eru ekki þessu marki brennd með sama hætti.

Hvers á ég einnig að gjalda að vera orðinn 35 ára og fá ekki að njóta skattaafsláttar vegna húsnæðissparnaðar? Hvaða aldur er þetta? Getur verið að þetta tengist því að þetta eru aldursmörk ungliðahreyfinga flestra stjórnmálaflokkanna? Aldur getur ekki verið lögmæt ástæða til mismununar með þessum hætti. Þessi réttir á einnig að miðast við kaup á fyrstu íbúð, svo sambúðarsvindlið verður enn ábatasamara og enn meira að gera fyrir skilnaðarlögfræðingana.

Eignastaða og tekjur hljóta að vera lögmætar ástæður mismununar, sbr vaxtabæturnar, svo hægt væri að koma húsnæðissparnaðinum á með þeim takmörkunum, en ekki aldri eða hvort ég hafi asnast til að kaupa einhverntíma áður í stað þess að hafa alltaf verið á leigumarkaðnum.

Ég held að ef menn hefðu rétt á húsnæðissparnaði til kaupa á íbúð eða búseturétti, háð eignastöðu og tekjum eins og vaxtabæturnar byggja á, er um gæði að ræða sem allir hafa rétt á og stenst því stjórnarskrána. En tillögur ríkisstjórnarinnar tæplega.

Ég er ekki löglærður, en einhvernvegin stingur þetta í augun og þar sem lög eru yfirleitt sanngjörn, hlýtur þetta að vera andstætt jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og því ólöglegt.


Góðir samningar í höfn en bakreikningurinn bíður

Það ber að hrósa SA, ASÍ og ríkisstjórninni fyrir samningana og útspil í tengslum við þá.

Maður getur ekki annað en fagnað því að þeir sem lægstu launin hafa fái mestu hækkanirnar og leiðrétting skerðingarmarka var tímabær og gott að þessir samningar gefi svigrúm til þess. Það er alltaf hægt að segja að meira hefði þurft að gera, en eins og staðan er í efnahagslífinu núna, er óhægt um vik að verða við því. SA og ASÍ hafa með þessum samningi gert sitt til að ná stjórn á verðbólgunni. Flestar aðgerðir ríkisstjórnarinnar liggja inni í framtíðinni og geta bara kallað á eitt, ef hún ætlar að róa í sömu átt og Seðlabankinn, SA og ASÍ. Minnkuð útgjöld ríkissjóðs.

Verður það mikil breyting frá fimmtungs aukningu á ríkisútgjöldum yfirstandandi árs. Aukning sem varla verður pláss fyrir í efnahagslífinu á komandi árum. Ríkisstjórnin verður um leið og hún setur fram þessi loforð að svara því hvernig hún ætlar að fjármagna þau, þannig að verðbólgunni verði haldið í skefjum. Hvaða framkvæmdum ætlar ríkisstjórnin að fresta og hvaða samfélagsþjónustu á að draga úr á móti þessum aðgerðum?

Eða ætlar ríkisstjórnin áfram öðrum að axla ábyrgð í efnahagsmálum þjóðarinnar?


mbl.is 20 milljarðar í aðgerðirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert stefnir Samfylkingin í borginni?

Stefán Jón Hafstein bað um að fá að mæta í Silfur Egils í dag og fékk drottningarviðtal. Boðaði hann að eina lausnin á stjórnarkreppu borgarinnar væri að Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri græn tækju við völdum í borginni.

Gengi það þvert á það samkomulag sem gamli meirihlutinn, VG, S, B og Margrét Sverris eru búin að handsala. Maður vildi óska þess að þetta sé vegna þess að borgarfulltrúinn hefur verið í Afríku lengi og ekki fylgst með því sem hefur verið að gerast í borginni, en Stefán Jón sagðist vera í góðu sambandi heim, svo taka ber orð hans alvarlega.

Stefán Jón telur samkvæmt þessu að hann þurfi ekki að standa við það samkomulag sem Samfylkingin hefur gert og er það stóralvarlegt í ljósi þess að hann getur hvenær sem er tekið það borgarstjórnarsæti sem hann hefur verið kosinn til. Væri það áframhald á þeim svikastjórnmálum sem skekið hafa borgarstjórn Reykjavíkur undanfarin misseri. Ég hélt að það væri nóg komið af þeim.

Samfylkingin verður að gera hreint fyrir sínum dyrum og gefa skýr svör um það hvort Stefán Jón tali fyrir hönd annarra í borgarstjórnarflokki hennar.


Bloggfærslur 18. febrúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband