Munu vextir lækka að eyddri óvissu um kjarasamninga?

Einhvernvegin skyldi maður ætla að sú óvissa sem eytt hefur verið nú þegar búið er að samþykkja kjarasamninga SA og ASÍ, valdi því að nú geti Seðlabankinn farið að lækka vextina. Nema DO treysti ekki Ögmundi Jónassyni til að gera svipaða samninga og ASÍ fór í. Hann verður að gera það.

Um leið verður ríkisstjórnin að fara í tímabundnar sértækar aðgerðir til að milda þá losun á verðbólguþrýstingi sem óhjákvæmilega verður í kjölfar vaxtalækkunarinnar. Væri hægt að fara í lækkun á virðisaukaskatti, tímabundna lækkun olíu- og bensíngjalds eða aðrar kostnaðarlækkandi aðgerðir. Þær mega alveg vera tímabundnar og líklegast er best að þær séu það. En nú verður ríkisstjórnin að spila með Seðlabankanum og lækka vextina.

Annað er ábyrgðarleysi, skaðlegt heimilunum og fyrirtækjunum.


mbl.is Kjarasamningarnir samþykktir með miklum meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Agaleysi í efnahagsstjórninni viðurkennt

Ágúst Ólafur Ágústsson sagði í Silfri Egils í dag að ef við sæktum um ESB aðild, myndi aginn í hagsstjórninni aukast.

Varaformaður Samfylkingarinnar viðurkennir sem sagt að aginn í efnahagsstjórninni sé ekki nægur. Það er nákvæmlega það sama og Framsókn hefur bent á. Að halda því fram að afgangur á fjárlögum sé merki um aga og aðhald, meðan að allir aðrir í kringum horfa í útgjöld ríkisins þegar talað er um aðhald er hreint bull.

Útgjöld ríksins jukust með síðustu fjárlögum um 20%. Það er hrein firra að halda því fram að það sé aðhald. Það þarf engan hagfræðing til að sjá það.

Ágúst endurtók staðhæfingu Árna Páls Árnasonar um að yfirlýsing um aðildarumsókn að ESB myndi ein og sér bæta stöðu okkar. Líklegast er það rétt. En það væri ekki vegna þess að innganga okkar í ESB væri endilega besta lausnin. Það væri vegna þess að þá væri ríkisstjórnin að sýna að hún hefði þó að minnsta kosti einhverja stefnu.

Í dag hefur ríkisstjórnin enga stefnu til breytinga og það er það sem er ótrúverðugt.

Ef gefin yrði út yfirlýsing um að við ætluðum að halda krónunni áfram en breyta peningamálastefnunni, t.d. með breyttum verðbólgumarkmiðum, auknum gjaldeyrisvaraforða eða hvað eina af þeim atriðum sem verið hafa í umræðunni, myndi það einnig hafa jákvæð áhrif.

Þegar við erum svo komin í þá stöðu að geta tekið ákvörðun um meiri grundvallarbreytingar, er um að gera að skoða alla möguleika. En fyrst þarf að ná stöðugleika og hann næst ekki nema með aðgerðum sem byggja á einhverri stefnu og aga til að framfylgja henni. Það hefur ekki verið tilfellið í tíð núverandi ríkisstjórnar og það hefur varaformaður Samfylkingarinnar nú viðurkennt.


Bloggfærslur 10. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband