Kvótaálitið - dagarnir líða
26.3.2008 | 10:27
Svo virðist sem ríkisstjórnin ætli að beita þeirri aðferðafræði í viðbrögðum sínum við áliti mannréttindadómstóls Sameinuðu þjóðanna í kvótamálinu að kynna þau fyrir Sameinuðu þjóðunum um leið og Alþingi og íslenskum almenningi, eigendum auðlindarinnar.
Þingfrestun er áætluð 29. maí, svo það eru ekki margir þingdagar eftir til umræðna um breytingar á lögum í tengslum við álitið. Sýnist þeir vera 23. Á þeim fundum þurfa að fara fram 3 umræður um lagabreytingar, sem munu verða hávaðalausar, sama hvernig tillögurnar verða. Eðlilega eiga ráðuneytismenn að vanda sig, en tíminn er að renna út.
Það vekur með manni ugg um að viðbrögðin verði neikvæð, svörin verði þau að lögsaga dómstólsins sé ekki bindandi og mikil áhersla verði lögð á að ekki hafi verið einhugur í nefndinni og rök þeirra sem skiluðu séráliti verði týnd til og gerð að aðalatriði. Málið fari sem sagt ekki til Alþingis yfirhöfuð og engar breytingar verði gerðar.
Hvaða vægi fá orð Íslendinga um mannréttindamál annarra þjóða ef við bregðumst við með þeim hætti? Af hverju ættu Kínverjar að hlusta á okkur, af hverju ættu þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs að hlusta á okkur ef við hlustum ekki á þær stofnanir sem erum sjálf aðilar að og vísum sífellt til?
Í þessu máli sé ég bara eina lausn í grunninn. Í fyrsta lagi að farið verði að tillögu Framsóknar og sameign þjóðarinnar á auðlindum sem ekki eru þegar í einkaeigu verði bundin í stjórnarskrá, þmt fiskurinn í sjónum og afgjald af nýtingu þeirra renni í auðlindasjóð. Í öðru lagi er ekki hægt að bregðast við álitinu á neinn annan hátt en með fyrningu í einu eða öðru formi.
Helst sæi ég fyrir mér að byggðakvótinn og línuívilnun verði lögð af og sett inn í heildaraflamarkið. Ákveðið hlutfall, t.d. 3%, lægra hlutfall en sem nemur afskriftum í viðskiptum, er lagt til auðlindasjóðs árlega. Ríkið býður þann hluta út á hverju ári. Byggðasjónarmiðum yrði sinnt í gegnum uppboðsleiðina með því að setja "fegurðarstuðla" á tilboðin. Tilboð útgerðaraðila sem myndi skuldbinda sig til að gera út á línu frá köldu svæði eins og Bakkafirði og vinna aflann þar yrði margfaldað með mun hærri stuðli en útgerðaraðila sem ætlaði að veiða í botnvörpu og landa honum í Reykjavík eða erlendis, þegar tilboð yrðu borin saman. Þessar reglur gætu verið breytilegar frá ári til árs, eftir því hvernig aðstæður eru hverju sinni.
Útgerðir geta ómögulega sótt skaðabætur vegna fyrningarinnar, sé hún skapleg, enda ekki eðlilegt að kvótaeign sé nánast sú eina eign sem ekki þarf að afskrifa og innlögn byggðakvótans og línuívilnunarinnar gerir hvort eð er meira en að jafna núvirt "tap" útgerðarinnar vegna fyrningarinnar.
Þær tekjur sem auðlindasjóður fengi í gegnum útboðið væru nýttar til nýsköpunar, atvinnuþróunar, eflingar þekkingarsamfélagsins á Íslandi og annarra þjóðþrifaverka.
Auðvitað er hægt að hugsa sér aðra varíanta á þessari lausn, en einhvern vegin svona sé ég þetta fyrir mér.