Kvótaálitið - dagarnir líða

Svo virðist sem ríkisstjórnin ætli að beita þeirri aðferðafræði í viðbrögðum sínum við áliti mannréttindadómstóls Sameinuðu þjóðanna í kvótamálinu að kynna þau fyrir Sameinuðu þjóðunum um leið og Alþingi og íslenskum almenningi, eigendum auðlindarinnar.

Þingfrestun er áætluð 29. maí, svo það eru ekki margir þingdagar eftir til umræðna um breytingar á lögum í tengslum við álitið. Sýnist þeir vera 23. Á þeim fundum þurfa að fara fram 3 umræður um lagabreytingar, sem munu verða hávaðalausar, sama hvernig tillögurnar verða. Eðlilega eiga ráðuneytismenn að vanda sig, en tíminn er að renna út.

Það vekur með manni ugg um að viðbrögðin verði neikvæð, svörin verði þau að lögsaga dómstólsins sé ekki bindandi og mikil áhersla verði lögð á að ekki hafi verið einhugur í nefndinni og rök þeirra sem skiluðu séráliti verði týnd til og gerð að aðalatriði. Málið fari sem sagt ekki til Alþingis yfirhöfuð og engar breytingar verði gerðar.

Hvaða vægi fá orð Íslendinga um mannréttindamál annarra þjóða ef við bregðumst við með þeim hætti? Af hverju ættu Kínverjar að hlusta á okkur, af hverju ættu þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs að hlusta á okkur ef við hlustum ekki á þær stofnanir sem erum sjálf aðilar að og vísum sífellt til?

Í þessu máli sé ég bara eina lausn í grunninn. Í fyrsta lagi að farið verði að tillögu Framsóknar og sameign þjóðarinnar á auðlindum sem ekki eru þegar í einkaeigu verði bundin í stjórnarskrá, þmt fiskurinn í sjónum og afgjald af nýtingu þeirra renni í auðlindasjóð. Í öðru lagi er ekki hægt að bregðast við álitinu á neinn annan hátt en með fyrningu í einu eða öðru formi.

Helst sæi ég fyrir mér að byggðakvótinn og línuívilnun verði lögð af og sett inn í heildaraflamarkið. Ákveðið hlutfall, t.d. 3%, lægra hlutfall en sem nemur afskriftum í viðskiptum, er lagt til auðlindasjóðs árlega. Ríkið býður þann hluta út á hverju ári. Byggðasjónarmiðum yrði sinnt í gegnum uppboðsleiðina með því að setja "fegurðarstuðla" á tilboðin. Tilboð útgerðaraðila sem myndi skuldbinda sig til að gera út á línu frá köldu svæði eins og Bakkafirði og vinna aflann þar yrði margfaldað með mun hærri stuðli en útgerðaraðila sem ætlaði að veiða í botnvörpu og landa honum í Reykjavík eða erlendis, þegar tilboð yrðu borin saman. Þessar reglur gætu verið breytilegar frá ári til árs, eftir því hvernig aðstæður eru hverju sinni.

Útgerðir geta ómögulega sótt skaðabætur vegna fyrningarinnar, sé hún skapleg, enda ekki eðlilegt að kvótaeign sé nánast sú eina eign sem ekki þarf að afskrifa og innlögn byggðakvótans og línuívilnunarinnar gerir hvort eð er meira en að jafna núvirt "tap" útgerðarinnar vegna fyrningarinnar.

Þær tekjur sem auðlindasjóður fengi í gegnum útboðið væru nýttar til nýsköpunar, atvinnuþróunar, eflingar þekkingarsamfélagsins á Íslandi og annarra þjóðþrifaverka.

Auðvitað er hægt að hugsa sér aðra varíanta á þessari lausn, en einhvern vegin svona sé ég þetta fyrir mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Samtök sjálfstæðra í sjávarútvegi

Sæll Gestur, við sjáum þetta svona fyrir okkur með smábátana. Tillögurnar eru í Word skjalinu.

Hvernig menn afgreiða svo aflamarkskerfið er svo önnur saga. Við skulum ekki gleyma því að mannréttindanefndin er nefnd sem við erum skuldbundin til að fara eftir, hún er ekki bara upp á punt.

Það sem nefndin sagði í stuttu máli, má svo lesa hér 

Með bestu kveðju. 

Samtök sjálfstæðra í sjávarútvegi, 26.3.2008 kl. 14:07

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Fyrsta greinin, sem alltaf er mikilvægust segir eitthvað á þá leið að fisveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar. Úthlutun sé til eins árs og geti ALDREI myndað eignarétt.

 Að þessu slepptu veit ég það þó ég sé ekki lögfróður að til þess að fá skaðabætur verður maður að sanna tjón.  Íslendingar munu væntanlega halda áfram að veiða fisk og engum manni dettur í hug að níðast á þeim mönnum sem í dag hafa rúman rétt. Þeir munu vonandi veiða áfram og ef til vill meira verði kerfinu breytt eða það afnumið sem ég vona. Það er alls ekki bara éttlætis- og mannréttindamál heldur er ekki síður skynsamlegt að nýta vannýtta fiskistofna og losna við brottkast.

Sigurður Þórðarson, 26.3.2008 kl. 14:14

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Er eðlilegt að smábátasjómenn, sem nýlega fóru inn í aflamarkskerfið og fengu kvóta án endurgjalds, gefins, fái svo aftur sóknardaga, margir hverjir sem hafa þegar selt kvótann?

Sigurður, ég held einmitt að menn þurfi að passa sig verulega á því að fara ekki í neinar skaðabótagreiðslur. Ég tel að það verði ekki með þeirri leið sem ég er að leggja þetta til, einmitt vegna þess að fyrningin sé minni en sem nemur eðlilegum afskriftum, enda hafa sjávarútvegsfyrirtækin fjármagnað sig til að kaupa kvótann. Ég tel ekki réttlætanlegt að ganga þannig fram að grundvellinum sé kippt undan útgerðinni, með því að skilja hana eftir með lán fyrir kvóta sem búið er að taka af henni. Þess vegna er um að gera að fara varlega fram, til að skaðabætur komi aldrei til greina.

En ég skil álit nefndarinnar þannig að það að utanaðkomandi geti ekki komist í varanlegar aflaheimildir án þess að kaupa af þeim sem fyrir eru í kerfinu. Á því þarf að taka og það verður ekki gert nema með því að taka eitthvað af þeim sem fyrir eru á einhvern hátt.

Gestur Guðjónsson, 26.3.2008 kl. 20:00

4 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ríkið hefur ekki nýtingarrétt á aflaheimildum í dag, nema þeim 12000 tonnum sem ráðherra hefur til úthlutunar og hefur haft allt frá árinu 1990.Ef ríkið þjóðnýtir aflaheimildirnar.sem útgerðaraðilar hafa í því sem næst öllum tilfellum keypt og veðsett með heimild löggjafans, og ríkið hefur að auki skattlagt sölurnar,þá fer slikt ferli að sjálfsögðu beint til dómstóla og í framhaldi til mannréttindanefndarinnar og einnig til Mannréttindadómstólsins í Strassburg.Það breytir að sjálfsögðu engu þótt þjóðnýtingin verði látin taka 20 ár.Það er alger samhljómur í stefnu LÍÚ og hjá Landsambandi smábátaeigenda hvað þetta varðar.Á aðalfundi Landsambands smábátaeigenda var samþykkt síðastliðið haust að festa beri aflahlutdeildarkerfið í sessi með skýrari lögum um nýtingarrétt til framtíðar  

Sigurgeir Jónsson, 26.3.2008 kl. 21:29

5 Smámynd: Hagbarður

Ég er sammála þér Gestur. Er hræddur um að þetta eigi eftir að daga uppi og því miður er ég orðinn þeirra skoðunar að engin fyrirstaða verði hjá Samfylkingunni.

Hagbarður, 26.3.2008 kl. 21:33

6 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Hugmyndir sumra framsóknarmanna að þjóðnýta sjávarútveginn eru ekki nýjar af nálinni og voru meðal annars uppi 1936-7 þegar mönnum datt í hug að þjóðnýta Kveldúlf.Þá sló Hriflu Jónas allt slíkt út af borðinu.En sagan endurtekur sig.Lenin er ekki dauður en, og hefur nú lifnað upp við fjósalyktina í Framsóknarflokknum.

Sigurgeir Jónsson, 26.3.2008 kl. 21:44

7 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sigurgeir. 20 ár, eða 5% fyrning er of mikið, enda eru til afskriftareglur upp á 25-30 ár. Þess vegna sting ég upp á 3% til að vera yfir þeirri tölu, 33 ár.

Fiskurinn er sameign þjóðarinnar. Það hefur legið fyrir í lögum lengi og það ber að staðfesta í stjórnarskrá, eins og Framsókn hefur lagt til. LÍÚ og smábátasjómenn verða að sætta sig við það. Kvótanum var úthlutað í upphafi á grundvelli veiðireynslu á tímabili sem ungt fólk í dag hefur ekki haft möguleika á að afla sér, náttúrulega og álit mannréttindanefndarinnar byggist á því meinta óréttlæti að þeir sem vilja koma nýjir inn í greinina verði að kaupa kvóta af þeim "forréttindahópi" sem var í greininni á viðmiðunarárunum.

Við getum verið ánægð eða óánægð með þetta álit, ég hef samúð með því að stærstur hluti þeirra sem eru í greininni í dag hafa keypt sig inn í hana, fullu verði en það liggur fyrir og við verðum að virða það. Þess vegna er ég að leggja til að byggðakvótinn verði lagður inn í heildarpottinn, sem sárabót, ekki skaðabót, því skaðinn getur enginn verið ef fyrningin er lægri en eðlileg afskrift af fjárfestingunni.

Gestur Guðjónsson, 26.3.2008 kl. 23:07

8 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Hvernig ætli standi á því að keyptur auglýsingaruslpóstur ( sem fyrir langa löngu taldist til fjölmiðla að forminu til) hikar enn við að kalla Halldór Blöndal í viðtal ??? Hver vegna sér maður ekki viðtöl við formann bankastjórnar seðlabankans ???

Baldur Fjölnisson, 27.3.2008 kl. 00:17

9 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Flestir sem "keyptu" sig í greinina gerðu það með kennitölubreytingu árið 1994.  (þá skiptu allir yfir í ehf úr sf eða ef). Svo er annað ef maður fær úthlutað til eins árs, hvernig getur maður selt þann rétt til margra ára?  Auðvitað skipta byggða-og réttlætissjónarmið miklu en arðsemissjónarmið gera það líka.

Sigurður Þórðarson, 27.3.2008 kl. 00:40

10 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Áhugaverður punktur með kennitölubreytinguna Sigurður, en þetta með úthlutunina til eins árs í senn og varanlega réttinn, sem í mínum huga var komið á árið 1991 af krötum og íhaldinu, þegar samningsveð í kvóta voru heimiluð, er paradox sem nú er lag að lagfæra, með þessum skýra hætti. Að menn fái í rauninni úthlutað hlutdeild í heildaraflanum í tiltekinn, langan tíma, t.d. 33 ár, hugsanlega með tímabundnum kvöðum eftir "fegurðarsamkeppni" útboðanna.

Ég gleymdi að minnast á það í pistlinum að kvaðir fegurðarsamkeppninnar getur ekki verið ótímabundin. Teldi réttast að miðað væri við 5 ár sem dæmi. Eftir það mætti nýta hann á annan hátt en upphaflega var lagt af stað með.

Gestur Guðjónsson, 27.3.2008 kl. 10:10

11 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Baldur: Öskrandi þögn formannsins er ærandi. Það er rétt.

Gestur Guðjónsson, 27.3.2008 kl. 10:11

12 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Gestur ég tek undir með þér þetta er góð nálgun og það er nauðsynlegt að ræða þessi mál og koma fram með lausn sem sættir ólík sjónarmið.   Ég er með eina hugmynd í viðbót sem ég tel að væri nauðsynleg.   Sjá hér

G. Valdimar Valdemarsson, 27.3.2008 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband